Það var einhverju sinni, skömmu áður en skrýtnu mislægu gatnamótin voru tekin í notkun á mótum Miklubrautar og Skeiðarvogs og áður en veitustofnanir Reykjavíkurborgar sameinuðust í Orkuveitu Reykjavíkur, að það fréttist af dauðum ketti í lokahúsi Hitaveitunnar við Vesturlandsveg neðan við Grafarholtsstöð. Ég fór uppeftir til að athuga málin og sá hræið af kettinum liggjandi á gólfinu í hitanum inni í lokahúsinu. Kötturinn var greinilega búinn að vera þarna í nokkra daga og nályktin nánast óbærileg. Ég náði hræinu með gúmmívettlingum og með öndunargrímu fyrir vitum mér, setti í stóran svartan plastpoka og batt vel fyrir. Setti svo pokann í annan poka, batt líka fyrir hann og skellti aftur í vinnubílinn.
Þegar ég ók af stað hugsaði ég með mér að lítið þýddi fyrir mig að fara með pokann og setja í ruslageymsluna hjá Hitaveitunni og ekki nennti ég að keyra með hræið alla leið upp í Álfsnes til förgunar. Ég yrði sennilega að finna mér einhvern annan stað fyrir hræið vegna lyktarinnar. Er ég kom út að Vesturlandsveginum og var að bölva því að þurfa að fara með hræið alla leið að Álfsnesi, fór skyndilega vörubíll með ruslagám á pallinum framhjá á leið til Reykjavíkur. Aha, lausnin komin, hugsaði ég og ók af stað á eftir vörubílnum. Þessi er örugglega á leið að einhverjum söfnunarstað Sorpu. Er vörubíllinn kom að ljósunum á gatnamótum Miklubrautar og Skeiðarvogs skipti yfir í rautt ljós og hann stoppaði eins og lög gera ráð fyrir. Ég stoppaði fyrir aftan hann og eldsnögg skaust ég aftur í, náði í pokann með hræinu og kastaði yfir í ruslagáminn á vörubílnum. Síðan ók ég af stað er skipti yfir í grænt, fór framúr vörubílnum og beygði svo inn Grensásveginn í átt til Hitaveitunnar.
Ég sá að vörubíllinn kom á eftir mér inn Grensásveginn. Ég ók inn í portið hjá Hitaveitunni og lagði bílnum og sá fljótlega að vörubíllinn með gáminn kom líka inn í portið. Hvur andskotinn, hefur hann séð til mín er ég skutlaði pokanum með kattarhræinu yfir í ruslagáminn? Nei það virtist ekki vera. Hinsvegar bakkaði vörubíllinn að ruslageymslunni og slakaði gámnum inn í geymsluna. Hann hafði þá verið á leið til Hitaveitunnar með gáminn eftir allt saman.
Dagana á eftir lenti allskyns rusl ofan á kattarhræinu í gámnum og fljótlega gaus upp sterk nálykt í ruslageymslunni. Ég vissi auðvitað enga skýringu á lyktinni og kvartaði að minnsta kosti jafnmikið og annað starfsfólk yfir þessari óbærilegu lykt frá ruslagámnum sem síðan hvarf tveimur vikum síðar er gámurinn var tæmdur.
Meðfylgjandi mynd er af lokahúsinu við Vesturlandsveginn. Sagan birtist áður á gamla blogginu 25. ágúst 2004.
mánudagur, apríl 17, 2006
17. apríl 2006 - Dauður köttur - endurtekið
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:09
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli