mánudagur, júlí 10, 2006

10. júlí 2006 - Wetherspoons

Tim Martin er stór maður og mikill um sig, tveir metrar á hæð. Þegar hann þvældist á milli skóla á yngri árum voru hans helstu áhugamál að spila squash, (hvað sem það nú er) drekka öl og æfa lyftingar. Fyrir bragðið þótti hann fremur lélegur námsmaður.

Kennari einn að nafni Wetherspoon sem reyndi að bæta atferli hans, lét svo um mælt að Tim Martin væri gjörsamlega glataður nemandi og að ekkert yrði úr honum. Tim Martin tókst samt að skrapa saman aurum og kaupa sér krá skömmu fyrir 1980. Í dag eru krár í eigu Tim Martins orðnar yfir 650 um allt Bretland, lausar við óþarfa tónlist, margar reyklausar, sami matseðill allsstaðar og því ódýrt að fá sér snæðing þar inni.

Þótt krár þessar beri hin ýmsu nöfn, er þó samheiti þeirra hið sama og fyrirtækisins sem rekur þær og lýsir það ágætlega skemmtilegu hugmyndaflugi stofnandans, en þær bera nafn kennarans sem skammaði Tim Martin forðum daga, Wetherspoon.

Ég ætla að vona að Wetherspoon sé ekki ábyrgður fyrir magakveisu þeirri sem hefur hrjáð mig undanfarna þrjá daga, enda borðaði ég síðustu stórsteikina í Englandi á veitingastað sem er kenndur við miklu virðulegri mann en nýsjálenskan kennaragarm, sjálfan Winston Churchill.


0 ummæli:







Skrifa ummæli