sunnudagur, júlí 02, 2006

2. júlí 2006 – Fundað í Mannshestahreppi


Það var mikið rætt og ritað á miðstjórnarfundi Evrópsku transgendersamtakanna á laugardeginum. Ekki veitti af því loksins er að komast mynd á þessa ómynd okkar sem byrjaði með ráðstefnunni í Vín fyrir átta mánuðum síðan. Það er komin þriggja manna stjórn sem á að sjá um framkvæmdirnar, formaður, ritari og gjaldkeri. Við hin höldum áfram að ferðast og njóta lífsins á þessum endalausu fundum okkar. Þá færði Erwin Jöhnk mér nýju bókina sína TS-Jyden og sömuleiðis skoðuðum við helsta afrek samtakanna fram að þessu, heimildarmyndina um Gisbertu sem var myrt í Portúgal í febrúar síðastliðnum.

Eftir velheppnaðan fundardag var okkur boðið í garðveislu og grill heima hjá Stephen Whittle í 25°C hita og glampandi sólskini. Það var margt girnilegt á grillinu, meðal annars makríll og náttúrulega risatrönsur úr hafinu, sömu gerðar og þessar sem Don Alfredo hefur reynt að ala austur í Ölfusi á vegum Orkuveitunnar.

-----oOo-----

Meðan við funduðum þurfti England að spila fótboltaleik við Portúgal og bárust okkur reglulega fréttir af gangi leiksins inn í fundarsalinn. Þegar fundinum var frestað til morguns var staðan ennþá 0-0 og stefndi í framlengingu. Við flýttum okkur á hótelið að gera okkur sætar fyrir heimboðið hjá Stephen, en þegar við fórum af hótelinu á þann stað þar sem hann ætlaði að sækja okkur, var vítaspyrnukeppni að hefjast.

Þegar við gengum um mannlausar göturnar og framhjá nokkrum krám, heyrðust skyndilega gífurleg fagnaðarlæti frá öllum þessum krám í nágrenninu og bílar þeyttu flautur. Greinilegt að England hafði skorað sitt fyrsta mark í vítaspyrnukeppninni. Við biðum spennt eftir næstu fagnaðarlátum, en aldrei kom neitt. Er við sáum hnugginn Englending með vonleysissvip úti á gangstétt fyrir utan krá, þóttumst við vita úrslitin, enda var ekki sagt eitt orð um fótbolta allt kvöldið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli