Það var haldið á bæjarhól Reykvíkinga í gær, þennan fagra hól sem ég hefi haft fyrir augunum hálft lífið, en dreymt hinn hlutann, þar sem móðurætt mín veðurbarin og vindþurrkuð, ól aldurinn mann fram af manni og konu fram af konu. Ég er að sjálfsögðu að tala um Esjuna. Þótt ég hafi haft hana fyrir augunum öll þessi ár, hafði ég aldrei klifið hana og nú var kominn tími til.
Guðrún Helga og Þórður sjóari komu heim til mín og ræstu mig af værum blundi eftir næturvaktina um hádegisbilið og svo var lagt í hann, bílnum lagt að Mógilsá með nesti og nýja skó og haldið á brattann. Þetta var erfið ferð í blíðskaparveðri. Ég var enn dálítið þreytt eftir næturvaktina og var alls ekki í góðu formi fyrir erfiða fjallgöngu, en lét mig samt hafa það að klifra fjallið með hvíldum. Og við klifum hærra og hærra. Stundum fór ég að velta því fyrir mér hvort ég væri einasti auminginn á fjallinu þennan dag, svo margt fólk fór framúr okkur og á tímabili var mannmergðin slík að ætla mátti að við værum að ganga í Gay Pride á Laugaveginum.
Hærra komumst við og hærra. Við þurftum að klífa síðustu klettana upp Þverfellshornið áður en við komumst alla leið á toppinn. Þangað komumst við með erfiðismunum og skráðum nöfn okkar í bók sem þar var geymd.
Þegar upp var komið var ekki farið að hlaupa niður aftur, heldur var stefnan tekin á Hábungu. Það var nokkur leið þangað og fremur seinfarin. Þó mættum við manni einum sem þar var einn á ferð. Er hann nálgaðist okkur sáum við að hann var rauðklæddur, með rauða húfu og mikið alskegg. Slíkur maður á toppi Esjunnar getur vart verið af okkar sauðahúsi og þóttumst við vita að þetta væri heimamaður á fjallinu, einn hinna frægu bræðra sem heimsækja okkur um hver jól.
Við héldum áfram og brátt komum við að snjóskafli. Fylgdarfólk mitt gladdist mjög við þetta og var snarlega sett upp húfa kennd við Kimi Raikkonen eða annan álíka fýr og þau síðan mynduð í bak og fyrir. Ég lét mér þó fátt um finnast og vildi halda för okkar áfram að Hábungu. Brátt fór Guðrún Helga að kvarta og tilkynnti okkur að hún þyrfti að sækja barnið sitt á leikskólann. Í hógværð minni lét ég sem þetta væri heilagur sannleikur þótt ég vissi mætavel að hún ætti ekkert barn á leikskóla. Það var þó ekkert annað í spilunum en að snúa við og halda til baka í átt að Þverfellshorni og síðan niður af fjallinu. Við hittum einn breskan náunga sem var í bol sem í fyrstu virtist vera Rassenalbolur og vildi ég taka mynd af honum fyrir Polly sem komst ekki með á fjallið. Það var sjálfsagt, en Bretinn neitaði því þó að bolurinn væri frá Rassenal. Við héldum svo áfram niður í fylgd stjórnarformanns EFFELL grúpp og fjölskyldu hans og gekk ferðin vel eftir það, ef frá er talið hrufl og mar sem ég hlaut á niðurleið eftir nærri sjö klukkutíma göngu.
Myndir frá ferðinni prýða svo myndaalbúmið mitt.
-----oOo-----
Nú eru komin 2 ár síðan ég byrjaði að blogga og mun ég tjá mig um það nánar að kvöldi, því eitthvað verð ég að skrifa á föstudagskvöldið.
föstudagur, júlí 21, 2006
21. júlí 2006 - Jólasveinn á ferð?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:59
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli