miðvikudagur, júlí 19, 2006

19. júlí 2006 - Hreinsunarátak Sjálfstæðisflokksins.....

fór fram í Breiðholtinu í gær. Það hófst með því að Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson setti á sig hjálm, gleymdi að draga andlitshlífina fyrir og hóf að háþrýstiþvo blátt veggjakrot. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra. Brátt kom rauður grunnurinn í ljós undan málningunni og ljóst að maðurinn hafði farið offari í hreinsunarátakinu. Gísli Marteinn sást á bakvið og var hann óvopnaður sem var kannski eins gott, því ef hann fer jafn óhönduglega með riffil og Vilhjálmur fer með háþrýstibyssu, er mikil hætta á að eitthvað fari úrskeiðis. Ekki veit ég hvort það sé táknrænt, að Gísli vill skjóta á allt sem kennt er við máva, en Vilhjálmur býr einmitt við Máshóla.

Þeir félagar, Gísli og Vilhjálmur, hafa hótað að halda átakinu áfram. Sjálf er ég búin að yfirgefa Gólanhæðirnar fyrir allnokkru og flutt í næsta hverfi fyrir norðan. Þar hafa þeir félagar þegar tekið til höndunum með því að minnka verulega þjónustuna við strætisvagnafarþega. Hvað frekara hreinsunarátak af þeirra völdum þýðir fyrir íbúa Árbæjarhverfis veit ég ekki, en ég óttast hið versta.

-----oOo-----

Í gær flutti flugvél á vegum Utanríkisráðuneytisins fjölda fólks frá Damaskus í Sýrlandi til Kaupmannahafnar. Með í för voru nokkrir misgáfaðir fréttamenn. Ekki sá ég mikinn tilgang í ferð þeirra því þeir spurðu heimskulegra spurninga og tóku að auki upp pláss frá einhverjum sem hefðu vafalaust viljað komast með vélinni frá Damaskus á öruggari stað. Það hefði að auki verið nóg að spyrja þessara spurninga við komuna til Keflavíkur. Var þetta kannski enn eitt dæmið um gúrkutíð íslenskra fréttamanna?


0 ummæli:







Skrifa ummæli