fimmtudagur, júlí 13, 2006

13. júlí 2006 – Gúrkutíð


Þegar fyrsta frétt í ríkisútvarpinu byrjar með orðunum: “Sif Friðleifsdóttir heilbrigðisráðherra segir ...”, veit ég að það er gúrkutíð í fjölmiðlum. Þannig byrjaði hádegisfréttatíminn í útvarpinu einn daginn í vikunni og þar með var mér það ljóst að það væri ekkert í fréttum. Það er heldur ekkert í fréttum af mér.

Ég var að dunda mér við að útbúa geisladiska með myndum í gær og senda út um hvippinn og hvappinn og undirbúa þannig að hreinsa vel út úr tölvunni hjá mér. Á millum þess dundaði ég mér við að klappa köttunum og sofa aðeins meira áður en ég fór á næturvaktina.

Jú, eitt gerði ég. Ég setti inn fjölda nýrra mynda á myndavefinn minn, myndir frá fundi TGEU í Manchester, en einnig setti ég inn allnokkrar myndir frá opinberri heimsókn minni til Halifaxhrepps og frá öldrykkju með frændfólki mínu í Reykholtsdalnum (Rochdale). Einnig setti ég inn mynd sem sönnunargagn þess að rollurnar í Halifaxhreppi eru alveg jafnheimskar og þær í Lundarreykjadalnum. Með öldrykkjunni er kannski komin skýringin á magakveisunni sem ég þjáðist af.

Ég á enn eftir að setja inn texta með fjölda mynda, en mun gera það eftir því sem ég nenni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli