Ég hefi um nokkurra mánaða skeið þurft að búa við það ergelsi að eitthvað skrölt heyrist í drifinu á mínum vinstrigræna Súbarú. Ég hefi ekki getað fundið út orsökina, en hefi farið með bílinn á tvö verkstæði sem bæði gerðu við bílinn og 58 þúsund krónum síðar sit ég enn með skröltið í drifinu.
Á laugardaginn var hélt ég austur á Hellisheiði með Þórð sem farþega og þá heyrðist ekkert í drifinu. Í morgun bauð ég Þórði aftur far og ekkert heyrðist í drifinu. Þegar ég hafði skilað honum af mér nokkrum klukkustundum síðar, byrjaði hávaðinn aftur þegar ég var á leiðinni heim. Ég skildi bílinn eftir fyrir utan viðurkennt Súbarúverkstæði í þeirri veiku von að þeir finni ástæðuna á þriðjudag.
-----oOo-----
Guðrún Helga og Þórður eru ákveðin í að ná sér niðri á mér fyrir bloggfærslur síðustu daganna. Á mánudagsmorguninn var fólkinu safnað í minn vinstrigræna Súbarú og haldið á Helgafell ofan Hafnarfjarðar. Það hafði gleymst að taka myndavél með þegar við réðumst til uppgöngu 20. maí og nú skyldi bætt úr því.
Ég lagði bílnum úti í guðsgrænni náttúrunni og fjarri öllum mannabyggðum. Ég hafði að vísu veitt athygli brunahana eigi fjarri frá bílnum og þótt það vel til fallið að hafa brunahana úti í náttúrunni. Hafnfirðingar geta þá allavega sótt sér vatn í brunahana við Kaldársel ef kviknar í heima hjá þeim. Við héldum síðan á Helgafellið, tókum myndir, hittum álfadrottningu og fórum niður aftur. Eitthvað fannst mér grunsamlegt hve Guðrún Helga var oft að hringja í gemsann sinn, en skýringin kom í ljós þegar niður var komið. Brunahaninn hafði færst til um nokkra metra og kominn fast að mínum vinstrigræna eðalvagni. Mátti ég víst þakka fyrir að sleppa við hina þyngstu refsingu fyrir þetta hræðilega afbrot.
Mig grunar að þetta hafi verið samantekin ráð hjá Guðrúnu Helgu og Þórði og að ég sé fórnarlambið. Sönnunargögnin eru á myndasíðunni.
þriðjudagur, júlí 25, 2006
25. júlí 2006 - Af leyndarmálum náttúrunnar
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:15
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli