Ég er búin að losa eitthvað úr töskum, sumt komið á herðatré og ein þvottavél búin og ég komin á vaktina.
Ferðin heim var tíðindalítil. Mearl eiginmaður Sonju skutlaði mér á flugvöllinn og reyndist ferðin eingöngu taka rúman hálftíma í stað þess klukkutíma sem rætt var um. Hann keyrði með öðrum létt drengurinn, enda greinilega að verða búinn að ná sér eftir síðasta mótorhjólaslys. Það þýddi um leið að ég þyrfti að sitja á flugvellinum í fulla þrjá tíma áður en flugvélin færi í loftið. Þegar ég kom að örygginu var ég komin með bullandi ógleði og þráði Gustavsberg fremur öllu öðru. Eftir að hafa afrekað að standa í biðröð í rúman hálftíma var loksins komið að mér að fara í gegn. Þá tók ekki betra við (eða verra myndu einhverjar segja). Blessuð konan sem stóð handan við píphliðið var greinilega ekkert ánægð með að ekkert píp heyrðist og rak mig til baka. Ekkert píp heyrðist og enn einu sinni var ég rekin út í hliðið og til baka.
Mér fór að leiðast þófið, en þá tók næsta atriði við því nú ákvað hún að þukla mig. Það var ekkert venjulegt þukl. Þar sem hún dundaði sér við að káfa á brjóstunum á mér fór ég að velta fyrir mér hvort hún hefði séð mig niður á Canal Street (Gay Village) um fyrri helgi. Hún lét sér ekki nægja brjóstin, heldur allan líkamann frá toppi til táar og dundaði sér vel og lengi við káfið og var mér þá ljóst að kenndir hennar voru aðrar en þær, að kanna hvort ég væri með sprengju á milli brjóstanna.
Eftir að ég komst loksins í gegnum Gullna hliðið (með sælusvip kynnu einhverjar að segja) flýtti ég mér á næsta salerni þar sem ég dundaði mér í óratíma við að faðma Gustavsberg. Síðan fór ég fram í kaffiteríu og fékk mér eina kók að drekka. Skammt þaðan frá var hávaðasamt leiktæki og maðurinn á næsta borði rak augun í yfirgefinn plastpoka við hliðina á þessu sama leiktæki og kallaði í þjónustuna. Nær samstundis birtist hópur öryggisvarða, rak okkur í burtu og ætlaði að girða af nánasta svæði. Áður en af því varð, mætti eigandi pokans og heimtaði sinn poka og fékk hann og þar með leystist það mál. Ekki varð þessi uppákoma til að bæta heilsufarið hjá mér.
Loksins kom vélin og eftir það gekk allt vel. Það var farið frá Mannshestaborg í ljósaskiptum og klukkutíma síðar tók sólin á móti okkur. Flugfreyjurnar voru hinar sömu sem flugu mér til Mannshestaborgar fyrir viku og voru enn jafn ágætar og fyrrum. Á Keflavíkurflugvelli ætlaði einhver ungur tollvörður að gera athugasemdir við alla Fríhafnarpokana sem ég hafði meðferðis, en komst snarlega að því að þetta var bara Tóblerón og Aftereit og sennilega of lítið af áfengi. Miðað við leitina á Mannshestaflugvelli, hefði stórleit í Keflavík orðið til að fylla mælinn, en þeir vildu ekkert við mig tala úr því ég hafði ekkert umframáfengi í pokum.
En heim komst ég og skreið snarlega í rúmið og tvær litlar kisur fylgdu mér eftir.
sunnudagur, júlí 09, 2006
9. júlí 2006 - Lessan á Mannshestaflugvelli
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:06
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli