sunnudagur, júlí 16, 2006

16. júlí 2006 – Stofnleið númer fimm

Þá er hin nýja borgarstjórn Reykjavíkur farin að taka til hendinni. Nú skal tekið til á Klambratúni og lögð niður stofnleið fimm hjá strætó. Daginn eftir að þessi sparnaður er tilkynntur, segir Mogginn svo frá að samdráttur farþega hjá Strætó bs hafi einungis verið 1.7% síðasta árið. Er það virkilega nóg til að leggja af heila stofnleið?

Það sem enn hefur komið fram hjá þessari nýju borgarstjórn er pópúlismi. Ekkert annað. Hreinsa Reykjavík. Var Reykjavík virkilega svo góð á tíma R-listans að ekki sé hægt að bæta um betur? Ég skal viðurkenna að ég var hrifin af hugmyndinni um mislæg gatnamót á mótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar, en þau áform gat Sjálfstæðisflokkurinn framkvæmt á árunum milli 1965 og 1978, en gerði ekki. Núna var þetta aftur orðið aðalkosningamálið, enda búið að rífa rampinn við Tollstöðina sem átti að verða að hraðbraut gegnum miðbæinn í kosningaplaggi Sjálfstæðisflokksins frá 1965.

Það sem sýnir best aumingjaskapinn er niðurlæging strætisvagnakerfisins. Það eru enn til börn, aldraðir og öryrkjar í Reykjavík og þeim þarf einnig að koma á milli hverfa þótt þau hafi ekki efni á einkabílnum. Sjálf hefi ég sárasjaldan notast við strætó á undanförnum árum, en þykir gott að geta gripið til hans þegar svo stendur á að ég hafi skilið bílinn eftir í bænum. Það er þó betra en að aka ölvuð heim. Þetta ættu Sjálfstæðismenn að hafa lært af biturri reynslu vorsins. Sjálf hefi ég oft gengið framhjá nýju biðskýli strætó við Bæjarháls að undanförnu og eftir að nýtt leiðarkerfi tók gildi. Það voru nánast alltaf farþegar að bíða eftir strætó þar inni þótt einungis hafi verið tíu mínútur á milli vagna. Núna er enginn farþegi lengur, en hvítur miði þar inni sem tilkynnir okkur að ferðirnar hafi verið lagðar af tímabundið. Þetta þykir mér synd.

Sjálfstæðismenn hljóta að geta gert betur en þetta, auk þess að snúa styttunni af Einari Ben við svo hann þurfi ekki lengur að snúa baki í sólinni og umferðinni af stalli sínum á Klambratúni.

Ég er farin að bíða eftir nýjum borgartjórnarkosningum. Þar mun ég greiða atkvæði gegn því að Framsóknarflokknum verði boðin aðild að nýjum R-lista. Hann á það ekki skilið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli