sunnudagur, júlí 30, 2006

30. júlí 2006 – 2. kafli - Upp komast svik um síðir.

Það þykir ekki við hæfi að fagna einhverju réttlæti sem á sér stað í miðju árásarstríði þar sem fjöldamorð eru framin á saklausu fólki, en þó get ég ekki annað en fagnað einu litlu dæmi slíks frá Líbanon, ekki síst vegna þess að stríðið varð þess valdandi að upp komst um svikin.

Það var í ágúst árið 1991 sem nýlega fráskilinn líbanskur faðir tveggja ára stúlku í Nordmaling í Västerbotten í Svíþjóð, fór með hana í labbitúr og tilkynnti móðurinni sama dag að barninu hefði verið rænt frá sér. Sterkur grunur komst strax á kreik þess efnis að hann hefði sent stúlkuna til ættingja sinna í Líbanon og var reyndar dæmdur og sat í fangelsi um tíma fyrir barnsránið, sem hann þó neitaði alla tíð að hafa framið.

Í síðustu viku birtist barnið í Svíþjóð eftir fimmtán ára fjarveru, í hópi flóttafólks frá Líbanon og var henni að sjálfsögðu vel fagnað af móðurinni.

http://www.dn.se/DNet/jsp/polopoly.jsp?d=147&a=562017&previousRenderType=1

-----oOo-----

Það er ekki hægt annað en að orða hlutina svo að hinn tapsári íþróttafréttamaður Morgunblaðsins, Ágúst Ásgeirsson, hafi séð rautt, er heimsmethafinn geðþekki, Michael Schumacher, bætti nokkur heimsmeta sinna með glæsilegum sigri á Hockenheim brautinni í Þýskalandi í dag. Hvað ætli gangi Morgunblaðinu til að vera með svona ótrúlega vilhallan fréttaskussa í sinum röðum á tímum sem blaðið er að reyna að skapa sér ímynd sem hlutlaust á sem flestum sviðum? Þess ber að geta að fréttinni af sigri Schumachers var nokkuð breytt nokkru eftir að hún birtist og fyrirsögninni um hundleiðinlegan kappakstur hent út og önnur fyrirsögn sett inn í staðinn. Ekki veit ég hver lét breyta fyrirsögninni, en það var örugglega ekki Ágúst Ásgeirsson.

http://www.mbl.is/mm/sport/frett.html?nid=1215217


0 ummæli:







Skrifa ummæli