Í desember síðastliðnum var öryggisnefnd Orkuveitu Reykjavíkur á ferð um framkvæmdasvæði á Austurlandi þar á meðal hjá Bechtel á Reyðarfirði sem annast byggingu álvers þar eystra. Eftir góða kynningu á öryggismálum og framkvæmdum og við vorum komin í langferðabifreiðina sem ók okkur á milli staða, vorum við að spjalla saman í rútunni, einhverjir stóðu, en bílstjórinn sat og beið.
“Á ekki að keyra af stað?” spurði einhver.
“Við erum ennþá inni á athafnasvæði Bechtel og ég hreyfi ekki bílinn fyrr en þið eruð öll sest og búin að spenna á ykkur öryggisbeltin, annars fæ ég bara kæru á mig frá Bechtel” svaraði bílstjórinn.
Á þriðjudagsmorguninn varð banaslys skammt frá Hellisheiðarvirkjun, nánar tiltekið við nýja spennistöð Landsnets sem verið er að byggja til flutnings raforku frá virkjuninni. Slíkt slys er ávallt mjög sorglegt og áfall fyrir fjölskyldu og vini hins látna sem og nærstadda og þá sem koma að slysinu og skiptir þá engu hvers lenskur maðurinn er sem lést.
Þetta slys var að því leyti öðruvísi að ýmislegt bendir til að það hafi verið fyrirsjáanlegt. Samkvæmt dagblöðum virðist maðurinn sem lést hafa staðið á vörubretti framan á skotbómulyftara sem var færður til svo maðurinn gæti athafnað sig betur í 7-9 metra hæð. Við það gaf jarðvegur sig undir lyftaranum og hann féll á hliðina, maðurinn féll til jarðar og hlaut slík höfuðmeiðsl að hann hlaut bana af.
Ég fór að velta fyrir mér hvað fór úrskeiðis, ekki síst eftir að myndir frá slysstað voru sýndar í sjónvarpi um kvöldið. Það er ljóst að margt fór öðruvísi en ætlað var. Þá er ég ekki að benda sérstaklega á hjálminn sem lá við hliðina á lyftaranum á sjónvarpsmyndum. Það ber hinsvegar að hafa í huga að auðvelt er að koma fyrir hjálmi eftir að slys hefur orðið. Sömuleiðis að óbundinn hjálmur gerir jafnmikið gagn og enginn hjálmur þegar unnið er í einhverri hæð.
Ég viðurkenni fúslega að ég hefi aldrei farið á vinnuvélanámskeið á Íslandi. Mitt lyftarapróf er frá Svíþjóð og leyfi ég mér að ætla að öryggisreglurnar séu svipaðar á Íslandi og Svíþjóð. Þá hefi ég farið á öryggisnámskeið hjá Vinnueftirlitinu. Því leyfi ég mér að ætla að margt sé líkt þegar kemur að öryggismálum í þessum tveimur löndum.
Eitt grundvallarskilyrði þegar fólk er híft upp á lyftara, er að fólk sé með fastspenntan hjálm, að notuð sé viðurkennd karfa og að sá sem lyft er, sé í öryggisbelti sem fest er við körfuna. Mér sýnist í fljótu bragði að öll þessi atriði hafi verið brotin. Í tilfellum þar sem hætta er á höggi, t.d. við umferðargötu, að stuðningslappir séu úti og látnar styðja við tækið. Ég veit ekki hvort slíkar lappir hafi verið á lyftaranum, en hefði að sjálfsögðu átt að nota við þessar aðstæður þar sem manninum er lyft í margra metra hæð. Þá er að sjálfsögðu ekki hægt að færa lyftarann á meðan sem gerir ekkert til, enda hefði það bjargað mannslífi í þessu tilfelli. Það eitt að maðurinn var ekki fastspenntur í körfu, er annað veigamikið atriði, því færa má rök að því að maðurinn hafi kastast af brettinu við hnykkinn sem kom á lyftarann áður en hann féll á hliðina. Höggið hefði vafalaust orðið mýkra ef maðurinn hefði fylgt körfunni í fallinu og hjálmurinn hefði hugsanlega bjargað höfðinu.
Það er margt sem ég veit ekki varðandi þetta slys. Hver vildi færa lyftarann þegar maðurinn var í 7-9 metra hæð? Hver var ábyrgðaraðili þessa verkþáttar? Hversu mikil var tímapressan? Hversu gírugur var arðræninginn (verktakinn) sem seldi vinnu þessara manna? Hvernig var eftirliti verkkaupans háttað?
Það er óþarfi að dæma neinn í dag. Hinsvegar er nauðsynlegt að skoða málið í minnstu smáatriðum og fela síðan þar til bærum yfirvöldum að dæma hvers sökin er og senda dóminn til allra sem telja sig hafa hag af öryggismálum til góðs eða ills. Síðan má dæma hinn seka til vinnu hjá Bechtel svo hann eða hún kynnist því hvernig á að standa að öryggismálum. Einungis þannig er hægt að uppræta óþarfa slys.
Það er löngu kominn tími til að hætta að gera grín að öryggismálum.
föstudagur, júlí 28, 2006
28. júlí 2006 - Banaslys!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:05
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli