föstudagur, júlí 14, 2006

14. júlí 2006 - Af Framsóknarflokknum

Ég verð að viðurkenna að ég hefi ekki miklar áhyggjur af Framsóknarflokknum þessa dagana þótt hann virðist vera í forystukreppu. Einungis er rúmur mánuður þar til formaðurinn stígur af stalli sínum lúinn og rúinn trausti eftir stuðning við innrásir og borgarastyrjaldir í fjarlægum löndum og enn hefur einungis eitt framboð fram til formanns. Sá formannskandidat er þó eldri í árum en fráfarandi formaður sem kominn er að fótum fram. Er Framsóknarflokkurinn farinn að líkjast kínverska kommúnistaflokknum í mannavali þessa dagana. Það getur verið að Framsóknarmönnum finnist Jón Sigurðsson vera heppilegur formaður, en fyrir okkur hin er hann bara gamall og lúinn flokksgæðingur á sjötugsaldri sem hefur litla reynslu af að standa í eldlínunni og vafamál hvort hann muni nokkru sinni ráða við þetta embætti. Hann er einfaldlega fulltrúi gamla tímans í flokknum.

Ástandið er lítt betra hjá varaformanninum. Bæði núverandi varaformaður og hinn kornungi mótframbjóðandi eru komin vel yfir fimmtugt þótt mótframbjóðandann vanti ár í að ná mér í aldri svo hún telst barnung og vart nógu þroskuð til að gegna svo mikilvægu embætti sem felst í varaformennsku í Framsóknarflokknum.

Verður þetta svo? Siv Friðleifsdóttir er áratugnum yngri og ætlar sér frama í flokknum. Þá hefur hún verið óvenjudugleg að auglýsa sig í fjölmiðlum án þess að hafa neitt fram að færa síðustu dagana svo eitthvað býr undir. Það kæmi mér ekki á óvart þótt Siv byði sig fram til formanns með Guðna sem varaformannsefni.

Mér skilst að Siv hafi bjargað Framsóknarflokknum frá hruni 1995, rétt eins og Valgerður gerði 2003. En nægir það í dag? Ég er ekki viss. Kannski er einfaldast að leyfa flokknum að deyja drottni sínum í friði.

-----oOo-----

Ég setti inn nokkrar myndir í albúmið mitt á miðvikudagskvöldið og er sá kaflinn sem merktur er Hampsons með skýringartextum að nokkru leyti. Þar er fjallað vítt og breitt um heimsókn mína til ættingjanna í Reykholtsdalnum (Rochdale) í síðustu viku og afleiðingar heimsóknar minnar. Mér skilst að ekki sé lengur þorandi að bjóða mér í heimsókn, önnnur eins rigning hefur ekki sést frá síðustu öld og ölið kláraðist.

-----oOo-----

Loks fá Viktoría litla Bernadotte og franska þjóðin hamingjuóskir í tilefni dagsins.


0 ummæli:







Skrifa ummæli