laugardagur, júlí 15, 2006

15. júlí 2006 - Gengið á Þorbjörn


Litli gönguhópurinn gekk á Þorbjörn á föstudagskvöldið. Það þykir ekki mikil þolraun og oft höfum við komist í verri aðstæður en þessa kvöldstund. Það var hinsvegar rigning og leiðindaveður er lagt var að heiman, en er við komum að rótum fjallsins hafði létt svo mikið til og lygnt að uppgangan varð létt og löðurmannleg.

Eitt þótti okkur fremur hvimleitt á fjallinu. Það var sóðaskapurinn, ekki einungis sá sóðaskapur sem fylgir allskyns hernaðartækni og mætti rukka ónefndar ríkisstjórnir fyrir, heldur og tómar plastflöskur og rusl eftir göngugarpa nútímans. Rétt eins og að bæjarstjórn Bessastaðahrepps, hvað sem hann heitir nú á þessum síðustu og verstu tímum mætti senda vinnuskólann sinn í að hreinsa fjörurnar, mætti bæjarstjórn Grindavíkur senda vinnuflokka upp bæjarhólinn sinn til tiltektar. Þetta fjall gæti orðið algjör perla ef rétt yrði að staðið og það auglýst sem heppilegt fyrir hressilegar heilsubótargöngur, t.d. fyrir eða eftir bað í Bláa lóninu. Svo má Hitaveita Suðurnesja alveg koma fyrir gestabók á toppnum fyrir gesti og gangandi.

Ég tók nokkrar myndir og setti á myndavefinn minn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli