mánudagur, júlí 24, 2006

24. júlí 2006 - Það blæs ekki byrlega fyrir Þórði

Ég vil taka það skýrt fram áður en lengra er haldið, að meðfylgjandi mynd er ekki af hinum hávaxna og myndarlega Þórði, heldur af náunga einum vestanhafs sem þekktur er fyrir annað og verra en guðrækni og góða siði, sjálfum illvirkjanum George Dobbljú Bush.

Sunnudagurinn hefur verið haldinn heilagur eins og þykir siða á kristnu heimili, mínu og tveggja katta. Það veit ekki á gott. Ég svaf til klukkan tíu á sunnudagsmorguninn og komst svo ekki framúr rúminu fyrr en um hádegi vegna stirðleika. Það hefði mátt ætla að ég hefði verið að kljást við Stekkjastaur á laugardaginn, en ekki sambýlisfólkið, þau Giljagaur og Gilitrutt. Ofan á allt saman er ég komin með slæmt kvef, en ég veit skýringuna á því. Pollý-Gunna reiddist mér svo eftir síðasta pistil að hún sendi mér kvefpest með hugskeyti.
Ég ætla samt að klífa lítinn hól á morgun, með eða án ferðafélaganna. Það verður bara lítill hóll, rétt til að viðhalda áunnu þrekinu.

Fyrirsögn frásagnar gærdagsins af hreystiverkum Þórðar fór vel í lesendur bloggsíðna, enda ekki á hverjum degi sem baráttan við Gilitrutt kemst í fyrirsagnir. Ég ákvað því að nota nýja fyrirsögn í dag, tengda hinum sama Þórði.

-----oOo-----

Það berast okkur váleg tíðindi frá Noregi. Það vita allir að Norðmenn eru reglugerðarpúkar, enda varð allt vitlaust í Noregi þegar kóngurinn þar í landi slapp frá refsingu fyrir að aka á 71 km hraða þar sem hámarkshraðinn var 70 km. Þessir Norðmenn. Þetta minnir mig reyndar á sænskan kunningja minn sem skrapp til Noregs í sumarfríinu með fjölskylduna. Hann var tekinn fyrir að aka of nálægt næsta bíl og var sendur heim með áætlunarbílnum. Hann ætlar aldrei aftur til Noregs og berst nú fyrir því að Svíar slíti stjórnmálasambandi við Noreg. Þá er fræg sagan af Norðmanninum sem missti bílprófið sitt fyrir að aka garðsláttuvél undir áhrifum áfengis.

Nú berst enn ein fréttin frá Noregi af svipuðum toga. Er hún svo sannarlega dæmigerð fyrir reglugerðarpúka og munu nágrannar þeirra í austri og vestri hlæja dátt næstu dagana.

-----oOo-----

Ég rakst á góða mynd á einhverjum unglingavefnum í gær. Myndin lýsir ágætlega hvað ónefndur Bandaríkjaforseti er að gera þjóð sinni undir yfirskyni baráttunnar gegn hryðjuverkum. Muna bara að það þarf að klikka á hana til að fá hana stærri.


0 ummæli:







Skrifa ummæli