Það þarf víst ekki að taka fram hvað efni pistils dagsins fjallar um, svo mjög hefur verið fjallað um atburðina 11. september 2001, þegar nokkrir ungir menn af menningu og trú sem er ólík okkar, hófu að beita hatrinu fyrir sig til að sýna vanþóknun sína á þeirri niðurlægingu sem þeir töldu menningu sína og trú hafa orðið fyrir um áratuga og jafnvel árhundruða skeið. Þeir réðust á það sem þeir töldu vera musteri peningahyggjunnar og Mammons og eyðilögðu á örskotsstundu og myrtu í leiðinni nærri þrjú þúsund saklausar persónur sem ekki höfðu annað til sakar unnið en að vera á röngum stað á röngum tíma.
Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Í stað þess að láta sér þessar árásir að kenningu verða og reyna að bæta skilning og vináttu á meðal þjóðanna, hóf George Dobbljú Bush hefndaraðgerðir af fullum þunga. Í stað þess að bjóða hinum smáðu þjóðum miðausturlanda vináttu og skilning, réðst hann að þeim af fullri hörku og myrti tugi ef ekki hundruð þúsunda saklausra borgara þessara landa auk mun fleiri en þrjú þúsund eigin þegna í nafni baráttu sinnar gegn hryðjuverkum. Í dag gráta ekki einungis fjölskyldur þeirra þrjú þúsund persóna sem voru myrtar í árásunum 11. september 2001, heldur og heilu þjóðirnar í miðausturlöndum og hatrið verður verra og verra.
George Dobbljú Bush lofaði þjóðum heimsins að hann skyldi sigra hryðjuverkaógnina og gera heiminn öruggari að lifa í. Við sjáum árangurinn. Hafnir og flugvellir eru umgirt víggirðingum. Víða má sjá hermenn á flugvöllum með vélbyssur tilbúnar til aðgerða gegn venjulegum saklausum farþegum. Ég held að við höfum tapað í stríðinu gegn hryðjuverkaógninni vegna þess að blóðþyrstur fjöldamorðingi stjórnar stríðinu gegn hryðjuverkunum, en ekki einhver með samningalipurð og skilning á menningu og fjölbreytni þjóðanna.
-----oOo-----
Sunnudagurinn var dagur sigra og vonbrigða. Ekki einungis sigraði Vesturbæjarliðið eitthvert lið á Íslandsmótinu, heldur tók heimsmethafinn geðþekki ítölsku góðaksturskeppnina í nefið. Það sem olli mér þó vonbrigðum var að hann skyldi tilkynna að hann ætlaði á eftirlaun í lok keppnistímabilsins.
Heyrðu mig nú, á eftirlaun? Maðurinn er fjórum dögum yngri en bílprófið mitt. Ég ætla að vona að skírteinið mitt sé ekki að fara á eftirlaun líka.
Ég fór að rifja upp þegar ég fór að fylgjast með kappanum á sínum tíma. Ég bjó þá í Svíþjóð og hægt var að fylgjast með Formúlunni í sjónvarpi. Það voru miklar umræður þar í landi um kappakstur vorið 1994 eftir að Ayrton Senna fórst í kappakstri og sögurnar rifjaðar upp af hinum sænska Ronnie Peterson sem fórst á Monzabrautinni nokkrum árum áður (11. september 1978). Þetta varð svo til að ég fór að horfa á einn og einn kappakstur og hinn stórkostlega verðandi heimsmeistara Michael Schumacher hjá Benettonliðinu. Árið eftir var ég í veikindaleyfi stóran hluta sumarsins og hvernig gat ég nýtt mér það betur en að horfa á kappakstur í sjónvarpinu og hinn unga heimsmeistara hala inn stig í hverju mótinu á fætur öðru.
Haustið 1995 varð ég svo fyrir vonbrigðum með kappann er hann ákvað að fara yfir til Ferrari, en hefi fyrir löngu tekið þau félagaskipti í sátt. Nú er svo komið að tímamótum hjá báðum, Michael Schumacher snýr sér að öðrum verkefnum eins og að stunda hannyrðir og frímerkjasöfnun á elliheimilinu, en ég finn mér eitthvað þarfara að gera í frítímanum en að glápa á endalausa hringavitleysu á Formúlubrautum.
mánudagur, september 11, 2006
11. september 2006 - Hættulegur heimur eða þjóðarleiðtogar?
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:07
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli