Ég fékk þá flugu í höfuðið að rölta svona dagleið á miðvikudag og hringdi í Þórð. “Ég er að passa,” var svarið. Ég hringdi í Kjóa. “Ég hefi ekki tíma.” Vitandi að Guðrún Helga, Guðrún Vala og Sigrún eru allar að vinna og hafa ekki tíma til léttrar göngu, verð ég að að láta mér nægja að labba á bæjarhólinn og vonast til að rekast á skemmtilegt fólk. Ekki nenni ég að vinna í dag.
-----oOo-----
Ég var í brennslunni í gær. Hún gengur út á að leggjast á bekk og láta fara yfir neðri hlutann á andlitinu á mér með lasertækni og brenna þannig burtu gömul hárstrá sem hafa vaknað til lífsins að nýju eftir að hafa sofið Þyrnirósarsvefni um árabil. Ég vil ekki halda því fram að þetta sé beinlínis þægilegt, því ef ég héldi slíku fram, myndi ónefnd bloggvinkona vilja taka við mig viðtal fyrir BA ritgerðina sína um BDSM. Þó er þetta allt gert af mestu nærgætni sem hugsast getur og eftir að hafa lagst undir brennarann mörgum sinnum á síðastu árum, er þetta hætt að vera neitt ógnvænlegt.
miðvikudagur, september 06, 2006
6. september 2006 – Gönguferðir
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:16
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli