Ég þurfti að skreppa suður í Hafnarfjörð á föstudagseftirmiðdaginn. Erindið fólst í því að sækja unga frænku mína í vinnuna, fara með hana í vinnuna til móður hennar, lána móðurinni minn vinstrigræna Súbarú, en taka bíl dótturinnar af henni og fara með hana í æfingarakstur sbr. bloggfærslu mína frá 5. september síðastliðinn.
Það gekk vel að finna stúlkuna þar sem hún var að vinna og svo héldum við í átt til Reykjavíkur á mínum sjálfskipta eðalvagni og ók ég eins og eldri konum á eðalvögnum einum er lagið í mikilli umferð, en er ég kom að ljósunum þar sem vinstri akreinin er fyrir umferð inn í iðnaðarhverfið í Hafnarfirði/Garðabæ, þurfti ég að stoppa sem fremsta bifreið á ljósum, en einhverjir unglingar voru í bíl sem virtist ætla að fara inn í iðnaðarhverfið. Þegar skipti yfir í grænt, gáfu drengirnir allt í botn og með því að ég snarbremsaði, náðu þeir að komast framfyrir mig án þess að valda mér eða sjálfum sér tjóni. Þó komust þeir ekki lengra en að næsta bíl nokkrum metrum framar.
Vart höfðu drengirnar náð að koma sér fyrir á milli mín og næsta bíls á undan, er bifreiðin YI-002 sem er gömul drusla, þeyttist yfir malarhrúgurnar á vinnusvæðinu hægra megin við mig og tróðu sér inn á Reykjanesbrautina á milli mín og bílsins sem áður hafði svínað á mér. Aftur munaði engu að ég yrði keyrð í klessu um leið og mölin lamdi minn vinstrigræna eðalvagn að utan og fékk ég alveg óstýranlega löngun til að skoða betur nöglina á löngutöng hægri handar, en af einhverjum ástæðum fengu unglingarnir á YI-002 samskonar fiðring í sína löngutöng. Þegar betur var að gáð, taldist slík hegðun vart miðaldra hefðardömum sæmandi og alls ekki þegar hún var að kenna ungri frænkunni villimennskuna í íslenskri umferð. Ekki liðu þó margar sekúndur uns þriðja druslan, með númerið NE-984 kom vaðandi yfir malarhrúgurnar hægra megin við mig og aftur þurfti ég að snarbremsa og nánast aka út yfir miðlínu til að forðast að druslan svipti mig hægri hliðinni af bílnum og frænkunni að auki..
Þarna ók ég með þrjá bilaða unglinga í röð á undan mér og fékk tilvalið tækifæri til að halda fyrirlestur um ofsaakstur fyrir 17 ára frænkunni. Brátt nálguðumst við Smáralind og tvöföldun Reykjanesbrautar til norðurs. Þá tóku tveir fremstu bílarnir sig til, beygðu afreinina til hægri, sennilega til að komast í klessubílarall í tívolíinu við Smáralind, en NE-984 hélt áfram og sýndi ekkert frekara umferðarofbeldi. Það var eðlilegt, því við höfðum rétt mætt lögreglubíl og horfðu lögregluþjónarnir valdmannslega mikið yfir til okkar, tóku svo U-beygju og komu á eftir okkur.
Drengurinn á NE-984 beygði síðan af Reykjanesbrautinni í átt að Breiðholtsbraut, en lögreglan hélt á eftir honum. Það síðasta sem ég sá var að drengurinn hafði stöðvað sem og lögreglan sem kveikt hafði á bláum ljósum. Ljóst var að einhver var löghlýðnari en ég og hefur tilkynnt um akstur ungmennanna til lögreglunnar. Bara verst að lögreglan náði ekki líka YI-002.
-----oOo-----
Eftir þessa lífsreynslu, ók ung frænka mín eins og engill næstu tvo tímana, en ég hélt áfram að naga neglurnar upp í kjúkur.
-----oOo-----
Loks fá Guðrún Helga göngugarpur og Ómar Ragnarsson afmæliskveðjur
laugardagur, september 16, 2006
16. september 2006 – Klessubílarall
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:07
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli