fimmtudagur, september 14, 2006

14. september 2006 – Þjóðremba og stærsta gámaskip heimsins

Þegar ég var að alast upp, man ég eftir kennara sem hæddist að dönskum fjölmiðlum fyrir þjóðrembu þeirra og nefndi sem dæmi, að þegar Danir sigruðu í íþróttum, var afrekið blásið upp í fjölmiðlum, en vart minnst á þegar Danir töpuðu. Kennarinn nefndi sem dæmi að Danir minntust lítið á jafnteflisleik Íslands og Danmerkur í fótbolta 1959, en hófu danska landsliðið til skýjanna þegar það sigraði Íslendinga. Ekki veit ég hvernig danskir fjölmiðlar tóku á hinum fræga sigri á Íslendingum 14-2 árið 1967.

Á undanförnum árum hafa Íslendingar fetað rækilega í spor Dana frá fyrri árum. Það liggur við dauðadómi að fagna ekki eins og vitfirringur í hvert sinn sem Ísland vinnur landsleik í handbolta, en ef Ísland er ekki með, þá einhverju Norðurlandanna, þó síst Svíþjóð sem þó hefur staðið með Íslendingum framar öðrum Norðurlandaþjóðum. Þannig verða Íslendingar helst að halda með Finnum í góðakstri (Formúlu 1) af því að það telst með Norðurlandaþjóðum, en við hin nánast hrakin út í horn, þá sérstaklega við sem höfum ávallt staðið með heimsmethafanum geðþekka frá Þýskalandi.

Nú er nýjasta þjóðrembuæðið í gangi. Allir eiga að styðja og kjósa Magna í keppninni Rockstar Supernova. Ég viðurkenni fúslega að Magni er talinn hinn vænsti drengur, enda frá Borgarfirði eystra þar sem elstu systkini mín voru í sveit á sjötta áratugnum. Sjálf hefi ég komið þangað nokkrum sinnum og líkað vel við þorp og íbúa og sé ég enga ástæðu til annars en að ætla að Magni sé heimasveit sinni til sóma.

Ég sá einn þátt af Rockstar Supernova fyrir nokkrum vikum og líkaði illa. Þarna voru einhverjir ákaflega ógeðfelldir piltar sem einhverskonar dómnefnd og hinn illræmdi Tommy Lee sem þekktur er fyrir að lemja á fyrrum eiginkonu sinni í hópnum. Ég held að Magni sé alltof góður drengur til að lenda í þessu bandi, en annað sætið gæti nægt til að koma honum langt á alþjóðlegum vettvangi. Eitt er þó öruggt. Mér kemur ekki til hugar að vaka til að kjósa Magna. Til þess er þjóðremban of fjarri mér.

-----oOo-----


Ég hefi ekki fylgst nógu vel með siglingum að undanförnu, en fór að skoða netið á miðvikudagskvöldið og komst að því að hið nýja súpergámaskip Emma Mærsk fór í rekstur fyrir viku síðan og hefur haldið úr höfn í Árósum til hafna í Evrópu og síðan til Austur-Asíu


Emma Mærsk er stærsta gámaskip í heimi, skráð geta borið 11.600 TEU´s en talin geta borið 14.500 TEU´s. Hún er 397,7 metrar á lengd, 56,4 metrar á breidd og 156.907 Dwt að burðargetu. Hún er hið fyrsta 8 slíkra skipa sem eru í smíðum í Óðinsvéum í Danmörku og verða í föstum áætlunarsiglingum á milli Evrópu og Austur-Asíu. Um sex vikna seinkun varð á afhendingu skipsins vegna bruna í brú og íbúðum skipsins í sumar, en það mál fór betur en leit út í upphafi með hröðun verkferla við smíði skipsins. (Mælieiningin TEU er einn venjulegur tuttugu feta gámur).


Heima á Íslandi sat ég og rifjaði upp gömlu góðu dagana þegar ég var á fyrsta eiginlega gámaskipi Íslendinga, Bakkafossi. Hann var 102 metrar á lengd, 4000 Dwt og lestaði 146 TEU´s.


0 ummæli:







Skrifa ummæli