laugardagur, september 30, 2006

30. september 2006 - Um útflutningsverðmæti sjávarafurða og álver

Árið 1967 drógust útflutningstekjur sjávarafurða verulega saman. Síldveiðarnar brugðust hrapallega og verðfall varð á þorski á Bandaríkjamarkaði. Því miður er mér ókunnugt um hversu mikið útflutningstekjurnar drógust saman, en afleiðingarnar voru mjög erfiðar fyrir íslensku þjóðina. Þúsundir urðu atvinnulausar, fólksflótti til útlanda á borð við Svíþjóð og Ástralíu, tvær stórar gengisfellingar þar sem dollarinn hækkaði á rúmu ári úr 43 krónum í 88 krónur. Þegar leið á árið 1969 fóru markaðirnir að jafna sig og loðnuveiðar komu í stað síldveiða og þegar leið á árið 1970 má segja að efnahagsástand íslensku þjóðarinnar hafi komist á réttan kjöl.

Kreppan skildi eftir sig djúp spor meðal íslensku þjóðarinnar. Fjöldi Íslendinga búa enn í öðrum löndum og og hafa sest þar að til frambúðar ásamt niðjum sínum. Þetta fólk kynntist öðrum ríkjum og áttu sér betra líf þar en kostur var að gera á Íslandi, því það er dýrt að búa á Íslandi og það kostar peninga að hafa Esjuna fyrir augunum alla daga.

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hafa krafist þess að hætt verði við frekari framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Ég hefi leyft mér að ætla að kostnaður við það að hætta við virkjunina og fresta gangsetningu álversins á Reyðarfirði, nemi um 250 milljörðum króna (250.000.000.000 kr) Ég hefi þó heyrt töluna 300 milljarða. Útflutningstekjur sjávarafurða á Íslandi árið 2005 voru tæpir 112 milljarðar króna. Með öðrum orðum. Þetta eru allar sjávarútvegstekjur þjóðarinnar í tvö til þrjú ár og við höfum ekki einu sinni útflutning á áli frá Reyðarfirði til að bæta okkur upp tekjumissinn af töpuðum sjávarútvegi. Heldur þjóðin virkilega að hún hafi efni á þessu? Hvað þýðir slíkur biti fyrir þjóðina í reynd?

Ómar Ragnarsson vildi gera sem minnst úr þessu í sjónvarpsviðtali á fimmtudaginn og benti á að það að hætta við virkjunina væri eins og smátimburmenn í fimm ár fyrir þjóðina í heild. Ég er hrædd um að það yrði ekki svo gott. Fyrir hvaða peninga ætti að greiða skuldir þjóðarinnar á þessum fimm árum. Þetta myndi þýða hrun íslensku krónunnar langt niður fyrir það sem var 1967-1968, sennilega nær því sem var í Þýskalandi 1923, stórfellt atvinnuleysi sem myndi sennilega skipta tugum prósenta, fólksflótta sem væri helst hægt að jafna við vesturferðirnar í lok nítjándu aldar og hundruð eða jafnvel þúsundir heimila yrðu gjaldþrota.

Síðan tækju við aðrir erfiðleikar. Ómar vill að ráðist verði í virkjun gufuaflsvirkjana fyrir norðan til þess eins að flytja orkuna úr héraði og suður á Austfirði. Eru Þingeyingar tilbúnir að samþykkja það? Þeir voru ekki hrifnir af flutningi orkunnar yfir Vaðlaheiði til hugsanlegs álvers í Eyjafirði. Jafnvel þótt virkjanaleyfi fengist og hæfilegur skammtur eignarnáms á landi og jarðgufu, þá ætti eftir að bora, semja við verksmiðjur, framleiða túrbínur og annan búnað til þess eins að nokkrar mættu komast í gang. Þá þarf að fá lán fyrir þessum virkjunum og hvar fengju Íslendingar lán til slíkra framkvæmda ef þeir hættu svona snögglega við Kárahnjúkavirkjun? Þar með væru vesalings Ómar og félagar ekki einungis búnir að fá Austfirðinga upp á móti sér, heldur og Þingeyinga, alþjóðlegar bankastofnanir og yrðu að auki að athlægi víða um heim.

Það gerir svosem ekkert til því um það leyti sem virkjanirnar væru komnar í gang, væru íbúarnir á þessum svæðum og stór hluti þjóðarinnar sest að í útlöndum.

P.s. Meðal þess sem ég hefi heyrt neikvætt um Alcoa, er að ál frá þeim sé m.a. notað til hergagnaframleiðslu. Það er hið versta mál, enda er ég friðarsinni og þykir öll tæki og tól sem notuð eru til að drepa fólk, sem af hinu illa. Þar með er ekki nóg að vilja banna rekstur Alcoa á Íslandi. Ég er þess fullviss að einhverjir eldhúshnífar sem seldir eru fimm í pakka í verslunum IKEA víða um heim, hafi verið notaðir til þess að drepa fólk. (Ég á líka svona hnífasett) Ég er svo sannfærð að mér dettur ekki til hugar að spyrja hvort, heldur hversu mörg morð hafa verið framin með eldhúshnífum frá IKEA? Ekki dettur mér samt til hugar að krefjast þess að IKEA á Íslandi verði lokað og meinuð áframhaldandi starfsemi á Íslandi.

Með þessum orðum kveð ég umræðurnar um Kárahnjúkavirkjun að sinni.


0 ummæli:







Skrifa ummæli