þriðjudagur, september 12, 2006

12. september 2006 - Að minnast látinna

Á mánudaginn stilltu syrgjendur þeirra sem fórust í árásunum fyrir fimm árum, sér upp á Ground Zero og lásu upp nöfn þeirra látnu í athöfn sem mér skilst að hafi verið sjónvarpað beint um heiminn. Þetta mun hafa tekið allnokkra stund enda nærri þrjú þúsund persónur sem neyddust til að kveðja þetta jarðlíf við árásina á tvíburaturnana.

Suður í Chile voru liðin 33 ár frá því Pinochet og hyski hans rændu völdum með hjálp Nixons og félaga í Washington. Atburðirnir þar eru í dag mörgum gleymdir, nema chileönsku þjóðinni og nokkrum miðaldra manneskjum annars staðar. Mér er ókunnugt um að nein nöfn hafi verið lesin upp á torgum í Santiago eða annarsstaðar í landinu. Það væri þó full ástæða til þess, en hrædd er ég um að það tæki öllu lengri tíma að lesa upp öll nöfn fórnarlamba Pinochets en þeirra sem dóu í New York. Sömuleiðis er ég hrædd um að það tæki marga daga að lesa upp nöfn allra fórnarlamba George Dobbljú Bush í Afganistan og Írak.

Þegar haft er í huga að George Dobbljú Bush og stuðningsmenn hans eru búnir að sprengja Írak, Afganistan og Líbanon aftur á steinöld í nafni baráttu gegn hryðjuverkum, þá væri fróðlegt að velta því fyrir sér hversu mörg saklaus börn í Miðausturlöndum eru með svíðandi og ógróin sár í sálum sínum sem munu gera þau reiðubúin til að beita sér af öllu afli gegn Vesturveldunum í fyllingu tímans með hryðjuverkum gegn öðru saklausu fólki.

-----oOo-----

Eins og allir vita, er Michael Schumacher sannur karlmaður. Hann sannaði það enn frekar á sunnudag er hann lýsti því yfir að hann ætlaði að einbeita sér að því að sigra í þessum þremur mótum sem eftir eru. Það er þessi einbeitni hans sem hefur gert hann að sigurvegara, því eins og sönnum karlmönnum sæmir, getur hann bara hugsað um eitt í einu.


0 ummæli:







Skrifa ummæli