sunnudagur, september 24, 2006

24. september 2006 – Við heimtum aukavinnu....

...var sungið í sjónvarpsþætti á laugardagskvöldið og þess getið í leiðinni að frómir menn hefðu lagt það til, fyrr á árum, að gera þetta skemmtilega lag að þjóðsöng Íslendinga. Það er eðlilegt því Íslendingar hafa alla tíð verið duglegastir Evrópuþjóða, að minnsta kosti hvað snertir vinnutímafjölda. Þannig taldist meðalvinnutíminn á Íslandi vera um 50 klukkustundir á viku í lok síðustu aldar á sama tíma og aðrar Evrópuþjóðir voru venjulega með um 40 klukkustunda vinnu á viku.

Hinn langi vinnutími Íslendingsins leiddi til þess að margir Íslendingar horfðu öfundaraugum til Norðurlandanna og þeirrar einföldu staðreyndar að Norðurlandabúar gátu lifað af dagvinnutekjunum einum saman á sama tíma og Íslendingurinn þurfti að vinna langt fram á kvöld til að ná endum saman. Þetta ýtti á fólksflótta og mörgum þótti það gott að komast í störf á hinum Norðurlöndunum ef illa áraði á Íslandi og margir settust að þar til frambúðar og hafa ekki snúið heim aftur nema sem gestir.

En hvaða skýring er á þessum mikla mismun á launum á milli Íslands og hinna Norðurlandanna? Sumir kynnu að benda á hátt íbúðaverð og matarverð sem veldur því að Íslendingar vinna myrkranna á milli, en matarverðið er líka hátt og jafnvel hærra í Noregi, bensínið sömuleiðis og margir aðrir kostnaðarliðir. Þá eru skattar sömuleiðis verulega hærri á Norðurlöndunum svo vart eru skattarnir að pína Íslendinginn. En samt, einhver ástæða er fyrir lengri vinnutíma og lægri launum á Íslandi.

Einhverju sinni var gerð könnun á samhengi vinnutíma og þjóðarframleiðslu og þar sem Ísland var að venju með hæstu þjóðum þegar litið var á þjóðarframleiðslu per einstakling. Þegar tekið var síðan tillit til vinnustundafjölda á bakvið þjóðarframleiðsluna kom allt annar og öllu bitrari sannleikur í ljós. Þá féll Ísland niður fyrir flestar Evrópuþjóðir.

Fyrir nokkrum áratugum var yfirvinnubann í gangi í Reykjavík og þá komst ónefnt iðnfyrirtæki að þeim sæta sannleika að heildarafköstin minnkuðu sáralítið meðan á yfirvinnubanninu stóð og alls ekki í samræmi við fækkun vinnustunda vegna yfirvinnubannsins. Síðan þá hefur umrætt fyrirtæki sem ég kann ekki að nefna, haldið sig við fjölskylduvæna starfsmannastefnu.

Síðan þetta var hefur fjöldi íslenskra fyrirtækja innleitt fjölskylduvæna starfsmannastefnu og er það vel. Þó þarf enn að bæta ástandið víða, því einungis þannig getur Ísland náð því að vera á toppnum hvað snertir þjóðarframleiðslu per einstakling og tíma. Þá þýðir heldur ekkert að ljúga að sjálfum sér með því að láta útlendinga vinna aukavinnuna fyrir léleg laun.

-----oOo-----


Eins og ég hefi alltaf sagt, þá hefi ég ekkert vit á peningum. Það sannaðist óþyrmilega á mér á laugardeginum. Gamla þvottavélin sem ég hafði verið með í láni síðan ég flutti í Árbæjarhverfið, tók sig til og gaf upp öndina á föstudeginum í miðjum þvotti og að venju þegar verst stóð á. Ég tók mig því til á laugardeginum og hóf að leita mér að þvottavél og þurrkara á viðráðanlegu verði og gæðum. Ég kom í búð og sá þar sett sem mér fannst flott með fullt af tökkum og liðu ekki margar mínútur uns ég hafði eignast settið á VISA-rað þótt mér fyndist það nokkuð dýrt. Þegar heim var komið, fór ég inn á netið að skoða heimasíðu seljandans og auðvitað komst ég að því að ég hafði keypt næstdýrasta þvottavélasettið sem var til sýnis í búðinni!

-----oOo-----

Og þá er það fótboltinn. Þar ber þess fyrst að geta að hetjurnar í Halifaxhreppi héldu uppteknum hætti og spiluðu með ólympískum formerkjum og náðu jafntefli við botnliðið í kvenfélagsdeildinni, sjálfa Ræningjana í Grænaskógi, enda hefur þeim verið ræktuð virðing fyrir þeim sem eru minnimáttar. Spútnikliðið okkar í Mannshestahreppi hélt sömuleiðis uppi uppteknum hætti og spilaði gegn Velgjörðarfélagi Námuverkamanna í Brodsworth (FC Brodsworth Miners Welfare) í einhverri rassvasabikarkeppni (FA Vase) og unnu með glæsibrag eins og þeirra var von og vísa.


0 ummæli:







Skrifa ummæli