miðvikudagur, september 13, 2006

13. september 2006 – Systkinin frá Hákoti

Heima hjá mér hangir innrammað ættartré á vegg, framættir móðurafa míns og ömmu. Þegar það var gert, trúði ég öllu sem þar var skráð og taldi allt satt og rétt. Þegar ég fékk sjálf tækifæri til að vinna með ættir mínar, fóru ýmsar greinar af ættartrénu að falla eins og lauf á hausti, öll föðurætt afa míns sem og hluti af móðurætt hans. Ég gat þó huggað mig við að sumt var óhrekjanlegt eins og langamma mín og bróðir hennar sem og foreldrar þeirra.

Mig rak í rogastans þegar ég fór að lesa Morgunblaðið á þriðjudaginn. Á baksíðunni voru myndir af tveimur systkinabörnum langömmu minnar, þeim Þorbjörgu Eyjólfsdóttur og Þorsteini Eyjólfssyni og svo var viðtal við þau inni í blaðinu. Slíkt þætti vart í frásögur færandi nema fyrir þá sök að hið eldra er tæpra 102 ára og litli bróðir átti 100 ára afmæli í fyrradag.

Ég viðurkenni fúslega að ég þekki ekki systkinin persónulega, einungis einn niðja Þorsteins lítillega, Yrsu rithöfund og verkfræðing Sigurðardóttur, en þekki sæmilega ættarsögu þeirra, enda búin að vinna talsvert með hana. Sjálf eru þau ein eftirlifandi af sex systkina hópi frá Hákoti á Álftanesi, tvær elstu systurnar bjuggu suður í Garði, þá ein sem lést á fyrsta ári, en síðan kom Þorbjörg fædd 18. nóvember 1904 og Þorsteinn fæddur 11. september 1906. Yngst var svo Sigríður fædd 1909, en hún giftist vestur á Bíldudal og fórst ásamt eiginmanni og eldri syni í hinu hörmulega Þormóðsslysi 18. febrúar 1943 þar sem nánast tíundi hver íbúi Bíldudals fórst og hefur staðurinn ekki borið sitt barr eftir það.

Lengi vel var áatal þeirra systkina og okkar hinna nokkuð á reiki. Á ættartrénu góða var langafi Þorbjargar og Þorsteins, Eyjólfur Einarsson sagður vera frá Bakka í Ketildalahreppi í Arnarfirði, en í Borgfirskum æviskrám var hans getið og þar voru foreldrar hans sagðir ókunnir, en faðir norðlenskur. Ég reyndi talsvert að finna samhengi í ættartréð hvað snerti þetta fólk, en einn góðan veðurdag hafði Guðmundur S. Jóhannsson ættfræðingur á Sauðárkróki, samband við mig og hafði fundið Eyjólf. Hann reyndist hafa fæðst í Haugshúsum á Álftanesi í apríl 1790, móðirin frá Hróarsdal í Hegranesi í Skagafirði, en faðirinn, Einar Illugason frá Arnarhóli í Reykjavík. Það tók mig svo margar ferðir á Þjóðskjalasafnið að sannreyna að rétt væri og pússluspilið féll svo saman í eina heild er ég fann að móðir Eyjólfs hafði farið úr hreppsvist í Hegranesi til sonar síns á Kjalarnesi vorið 1819 þar sem hún eyddi síðustu árum sínum hjá honum, tengdadóttur og barnabörnum. Ég hefi ekki legið á þessum upplýsingum, heldur komið þeim til skila þar sem þær eiga heima, hjá Íslendingabók.

Sem ég segi, ættfræðin er margbreytileg og fáu að treysta sem haft er eftir vafasömum heimildum.


0 ummæli:







Skrifa ummæli