Ég hafði verið beðin um að taka að mér að sitja með ungri frænku minni í æfingarakstri og á mánudagskvöldið var komið að fyrsta skiptinu sem ég sat með henni í bíl á meðan hún skrapp bæjarleið. Áður en ég ók af stað með henni, rak ég augun í að ekkert spjald var á bílnum sem merkti hann með æfingarakstri og þótti mér það óheppilegt.
Svo var farið heiman hjá henni í Breiðholtinu og haldið austur Breiðholtsbrautina. Ég þóttist vera róleg og yfirveguð og gaf stelpunni góð ráð meðan á akstri stóð og allt gekk vel framanaf. Svo komum við að hringtorginu við Rauðavatn og ég segi við hana að muna svo að gefa svo stefnuljós út úr hringtorginu. Hún gerði sig líklega til að aka austur Suðurlandsveginn.
“Ekki hérna, næst!” hrópaði ég og stelpan gerði nákvæmlega eins og ég sagði, keyrði nokkrum metrum lengra og beygði svo til hægri á móti umferðinni. Ég fór í kerfi og stúlkan gerði hið eina skynsamlega, keyrði út í kantinn og stoppaði þar.
Á meðan ég þusaði um að hún þyrfti að bakka út á götuna aftur til að snúa við, gerði hún sér lítið fyrir, tók vinkilbeygju og ók svo eins og herforingi í átt að Suðurlandsvegi og síðan í átt að Grafarholti með versta hugsanlega aftursætisbílstjóra landsins í farþegasætinu frammí. Þegar komið var á ákvörðunarstað þar, var ég búin að naga neglurnar upp í kjúku og orðin að einu taugaflaki. Við þurftum að skila af okkur einhverju dóti sem móðir hinnar ungu bílstýru þurfti að koma til vinkonu sinnar í Grafarholtinu og á meðan hún hljóp inn með pakkann fór ég að róta í hanskahólfinu eftir æfingarleyfinu, en fann ekkert.
“Hvar ertu með æfingarleyfið? Það er ekki hér í hanskahólfinu,” segi ég.
Stelpan hringdi í móður sína og komst að því að leyfið var staðsett á borðstofuborðinu á heimili þeirra. Þar með lauk æfingarakstri dagsins og ég tók við stjórninni og keyrði stelpuna heim.
Ég held að ég yrði lélegur ökukennari.
þriðjudagur, september 05, 2006
5. september 2006 - Misheppnað verkefni
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:09
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli