laugardagur, september 09, 2006

9. september 2006 – Er ég virkilega svona vitlaus?

Það var sagt frá dópneyslu unglinga í sjónvarpsfréttum í kvöld. Ef marka mátti fréttina, eru menntaskólarnir á kafi í dópi og ekkert mál að redda meira dópi, bara eitt símtal. Er þetta virkilega svona auðvelt?

Þegar ég var í skóla sá ég aldrei fíkniefni. Mér voru aldrei boðin fíkniefni og síðar, ef einhver var að reykja eitthvað annað en venjulegar sígarettur, var farið með slíkt eins og mannsmorð. Þó voru þetta varla neinir barnaskólar, t.d. Vélskólinn þar sem stór hluti nemenda var yfir tvítugt og þeir elstu yfir fertugu. Í öldungadeild MH voru sömuleiðis eldri nemendur og aldrei varð ég vör við neitt annað en venjulegt tóbak og áfengi. Svipaða sögu var að segja af sjómennskuferlinum. Á einu skipi sem ég var á, var eitt sinn háseti sem keypti sér hass í útlöndum og var honum slakað í land í fyrstu höfn og settur á svartan lista hjá útgerðinni. Eitthvað frétti ég af hassneyslu um borð í skipum sem ég var á, en aldrei sá ég neitt og enginn bauð mér neitt og aldrei reyndi neinn að selja mér fíkniefni. Það var kannski eins gott að enginn reyndi að pranga viðbjóðnum inn á mig, því ég er fíkill að eðlisfari og hefði auðveldlega orðið fíkniefnum að bráð hefði ég prófað.

Ég fer að velta fyrir mér hvort þessi frétt sé sönn, eða hvort unglingarnir séu bara að komast í vímu í þjóðfélagi sem gefur í skyn að kaup á öli fyrir stálpaða unglinga séu einhver svívirðilegasti glæpur sem hægt sé að hugsa sér?

-----oOo-----

Það fer að verða gaman að fylgjast af prófkjörsraunum íhaldsins í Suðurkjördæmi. Allir þingmenn flokksins í kjördæminu búnir að tilkynna framboð sitt, en að auki ætlar Hafnfirðingurinn Árni Matt í fyrsta sætið. Þá ætlar Kristján Pálsson í öruggt sæti og hugsanlega Viktor Kjartansson einnig. Sá sem þó er beðið eftir af mestri eftirvæntingu er þó vafalaust Árni Johnsen. Það verður ekki amalegt að hafa gamla tugthúslimi á borð við Árna og Gunnar saman á framboðslista, svo ekki sé minnst á gamlan skipsfélaga, heiðursmann og áfengissmyglara í hópnum en það er svo langt síðan, að þau fornu unggæðingsbrek reiknast sem gleymd í samanburði við upprisu Árna.


0 ummæli:







Skrifa ummæli