sunnudagur, nóvember 12, 2006

12. nóvember 2006 - Grátur og gnístran tanna...

... heyrðust úr ranni mínum þegar ljóst var hvert stefndi í prófkjöri Samfylkingarinnar í Reykjavík og Guðrún Ögmundsdóttir úti í kuldanum. Getur það virkilega verið að staða mín, annars transgender fólks og samkynhneigðra sé virkilega svo lágt metin að okkar ákafasta stuðningsmanneskja skuli send út í ystu myrkur?

Ég hefi svosem lengi vitað að stuðningur minn við einstaka manneskju eða málefni hefur aldrei mælst vel fyrir, en samt. Guðrún Ögmundsdóttir á ekkert slæmt skilið og erfitt að sætta sig við að kjósendur Samfylkingarinnar skuli hafna henni. Sjálf fór ég að velta því fyrir mér hvort Samfylkingin væri raunverulega sá stjórnmálaflokkur sem ég hélt hana vera. Við höfðum orðið fyrir erfiðum úrslitum í hverju kjördæminu á fætur öðru og núna í Reykjavík. Við okkur blasir sú grátlega staðreynd að Samfylkingin er að verða karlrembuflokkur sömu gerðar og Sjálfstæðisflokkurinn. Sjálf græt ég hörmulega útkomu Guðrúnar Ögmundsdóttur, Bryndísar Ísfoldar og lélegan árangur Ástu Ragnheiðar.

Það er ljóst að smalarnir unnu þetta prófkjör. Það er ekki annað að gera en að taka þátt á fullu þetta árið, en koma í veg fyrir illindi smalanna með jákvæðu flokksstarfi næstu árin og koma svo á fullu til starfa og sigurs að fjórum árum liðnum.

Það verður erfitt að vinna þessar kosningar nema íhaldið klúðri sínum málum enn frekar en orðið er. Kannski að sakamannalisti Sjálfstæðisflokksins bjargi okkur að einhverju leyti. Guðrún Ögmundsdóttir má þó vita að störf hennar í þágu minnihlutahópa samfélagsins verða áfram í huga okkar og við munum standa áfram með henni hvað sem á dynur, vonandi öll full þakklætis í hennar garð.


0 ummæli:







Skrifa ummæli