Þegar ég kom heim eftir næturvaktina að morgni fimmtudags, heyrði ég skerandi vein í lítilli kisu er ég nálgaðist húsið heima hjá mér. Það fór ekkert á milli mála að hávaðinn stafaði frá Tárhildi litlu og þegar ég kom inn í húsið heyrði ég að hávaðinn í lítilli kisu komu ekki ofan af annarri hæð. Hún reyndist vera hágrátandi utan við dyrnar út í garðinn.
Ég hleypti Tárhildi inn og var hún auðsjáanlega fegin, enda stökk hún upp stigana og beið við dyrnar inn í íbúðina þegar ég kom upp. Það var ljóst hvað hafði skeð. Vesalings Tárhildur hafði ekki gert sér grein fyrir fægðum, máluðum og síðan rigningarblautum svalahandriðunum og því ekki náð að halda jafnvægi er hún stökk upp á svalahandriðið um nóttina og því fallið niður þessa sex metra sem eru niður á jafnsléttu.
Vesalings Tárhildur er núna óvenjulega kelin og róleg og virðist ekki hafa áhuga fyrir frekari útiverum um sinn.
-----oOo-----
Á fimmtudagsmorguninn lenti ég á námskeiði. Þar prédikaði Jóhann Ingi Gunnarsson yfir okkur og áminnti okkur um að skilja vondar hugsanir eftir utandyra. Ég reyni hvað ég get að tileinka mér þau fræði sem hann lagði ofuráherslu á, en slíkt dugir ekki alltaf.
Einn sem mig grunar að hafi verið á sama námskeiði tveimur dögum fyrr, var með leiðindi út í mig í athugasemdakerfinu á fimmtudagseftirmiðdaginn. Ég hugsaði með mér að hér væri rétta tækifærið að sýna kristilegan kærleiksanda og sendi honum þau skilaboð. Annað hvort hefur þessi eini misskilið fagnaðarboðskapinn eða Jóhann Inga. Ég ætla samt að gefa honum tækifæri í einn sólarhring til að bæta ráð sitt.
Ég læt aðra um að dæma um herlegheitin, t.d. með því að skoða athugasemdir dagsins á undan.
föstudagur, nóvember 03, 2006
3. nóvember 2006 – Skerandi vein í lítilli kisu
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:09
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli