Ég kom við á Stansted flugvelli í morgun. Ég byrjaði á því að koma við á innritunarborði hjá Æsland Express og skilaði töskunni minni til afgreiðslumannsins (hvaða orð má nota um karlkyns hlaðfreyjur?) og hann spurði hvort ég vildi sæti við gang eða við glugga.
“Ég vil sæti við glugga, eins framarlega og hægt er og stjórnborðsmegin”, svaraði ég.
“Hvað áttu við?” spurði drengurinn.
Ég ítrekaði ósk mína en lét þess getið að ég vildi sitja hægra megin í vélinni í stað þess að nota orðin starboard side.
“Hvort viltu þá vera hægra megin miðað við að þú snúir aftur eða þú snúir fram?” spurði drengurinn.
“Ég vil vera hægra megin miðað við að ég horfi fram í vélinni, þ.e. stjórnborðsmegin”
“Já, stjórnborða, þú hefðir getað sagt það fyrr” sagði þá drengurinn, keyrði út brottfararspjald fyrir mig og ég hélt inn í fríhöfnina.Eftir þetta gekk allt vel. Vélin var nánast á áætlun og flugfreyjurnar voru óskaplega þægilegar sem og þeir farþegar sem ég hafði samskipti við. Einasta vandamálið var að ég sá ekkert nema Atlantshafið þar til flugvélin lenti í Keflavík þar sem ég sat aftarlega bakborðsmegin í vélinni!
þriðjudagur, nóvember 21, 2006
21. nóvember 2006 – Áttavilltur afgreiðslumaður
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 17:49
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli