Á miðvikudagseftirmiðdaginn mátti lesa mjög jákvæða frétt á vef Morgunblaðsins. Þar er sagt frá sigri transgender fólks á Spáni eftir áralanga baráttu fyrir mannréttindum og réttlæti. Fréttin í Morgunblaðinu var sögð á ákaflega kjánalegan hátt af blaðamanni sem veit ekkert um hvað málið varðar, en samt, fréttin skilaði sér. Ekki var einvörðungu um að ræða hið forljóta og niðrandi orð sem notað er um transgender fólk í fréttinni, heldur bítur blaðamaðurinn höfuðið af skömminni með orðunum: “Samkynhneigðir verða að sýna fram á að þeir hafi verið í hormónameðferð í að minnsta kosti tvö ár, til að geta breytt um kyn og nafn á pappírunum.”
Ég efa ekki að blaðamanninum gekk gott eitt til með skrifum sínum, en um leið er í lagi fyrir hann að vita að transgender er ekki spurning um kynhneigð heldur kyngervi.
Evrópsku transgendersamtökin höfðu tekið þátt í baráttu transgender fólks á Spáni með beinum stuðningi á síðastliðnu vori, en afskiptum okkar lauk í júní með því að spænski dómsmálaráðherrann lofaði að beita sér fyrir auknum réttindum transgender fólks hið bráðasta. Við áttum ekki von á svo skjótum viðbrögðum sem raun ber vitni.
Það er víða um Evrópu sem baráttan er farin að skila árangri. Dómstólar í Sviss og Austurríki hafa nýlega dæmt transgender fólki í hag, í nafnalögum í Sviss og hjónabandslögum í Austurríki. Þá þarf transgender fólk í Belgíu ekki lengur að ganga í gegnum hjónaskilnað til að fá aðgerð til leiðréttingar á kyni. Finnland samþykkti mjög frjálsleg lög um leiðréttingu á kyni fyrir nokkrum árum og nýtt frumvarp í sömu veru hefur til umsagnar og meðferðar fyrir sænska þinginu síðasta árið.
Hvenær má búast við að Ísland skipi sér í hóp Evrópuþjóða í þessum málum?
-----oOo-----
Það ber og að fagna brottrekstri Donald Rumsfeld úr embætti hermálaráðherra Bandaríkjanna. Það hefði að vísu mátt reka yfirmann hans einnig, en við geymum besta bitann þar til síðast og bíðum í tvö ár í viðbót. Ég vil samt ekki bíða í tvö ár með að birta þessa ágætu mynd sem ég fann af kappanum á útlendri bloggsíðu. Ég er að vísu sannfærð um að Donald hugsi ekki svona (nema auðvitað að hann sé í felum), enda væri svona meðferð of góð fyrir hann, en af einhverjum ástæðum er bjánaglottið eins og límt á andlitið á honum. Ekki spyrja mig af hverju!
-----oOo-----
Enn og aftur ítreka ég stuðning minn við Guðrúnu Ögmundsdóttur.
fimmtudagur, nóvember 09, 2006
9. nóvember 2006 – Transgender á Spáni
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:13
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli