Við lok miðstjórnarfundarins góða í Tórínó kom upp spurningin um tímasetningu næsta fundar sem verður haldinn í Amsterdam í vor og Justus formaður lagði til að fundurinn yrði haldinn helgina 28. og 29. apríl 2007. Ég mótmælti og benti á að ég yrði á vakt þessa helgi og kæmist hvergi.
“Hvað ertu að rugla manneskja, það er hálft ár þangað til og ertu virkilega búin að skipuleggja vaktina þína þessa daga?”, spurði Stephen Whittle.
Ég benti á að ég ynni vaktir og núverandi vaktafyrirkomulag og vaktir hefðu verið ákveðnar árið 2003, en var reyndar ekkert að taka fram að við værum að breyta vöktum um áramót, en vissum vaktirnar fyrir næsta ár.
(Í hugann sló gamalli minningu er Tollgæslan í Reykjavík fékk vaktatöfluna sína (sem var leyndarmál) hjá mér sem var vélstjóri á Álafossi á þeim tíma).
Vaktafyrirkomulag mitt og nákvæmnin í þeim efnum hafði áður komið til umræðu á fundinum í Manchester síðastliðið sumar. Með því að vaktirnar mínar komu aftur til umræðu á þessum fundi, er ég orðin illræmd fyrir íslenska nákvæmni, jafnvel af Þjóðverjunum sem kalla þó ekki allt ömmu sína í þeim efnum. Það var ekki Bretinn sem gerði góðlátlegt grín að íslenskri nákvæmni, heldur Þjóðverjarnir.
Þessir Íslendingar eru víst alveg hræðilega nákvæmir, skipulagðir og leiðinlegir. Spyrjið bara fólkið í miðstjórn TGEU!
-----oOo-----
Enn fleiri nýjar myndir frá Torino á myndasíðunni, 4.3. Torino 11.2006
fimmtudagur, nóvember 23, 2006
23. nóvember 2006 – Íslensk nákvæmni
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:24
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli