Um miðjan september var ég á ferð í miðborg Reykjavíkur seint að kvöldi og rigningarúði úti. Ég ók Lækjargötuna til norðurs á vinstri akrein, en bílarnir á hægri akrein ætluðu greinilega að halda austur Hverfisgötu. Ég ætlaði svo áfram út á Kalkofnsveginn, en þá veitti ég því skyndilega athygli að búið var loka leiðinni með gráum steinklossum sem sáust mjög illa í myrkrinu. Hvergi voru nein merki þess hvert átti að fara, til dæmis hvort önnur akreinin til suðurs væri frátekin fyrir umferð til norðurs. Ég þorði ekki að taka áhættuna og með hjálp tillitssamra leigubílstjóra, tókst mér að komast inn á Hverfisgötuna, síðar niður á Sæbraut og heim. Síðar heyrði ég útvarpsauglýsingar þess efnis að lokanir væru við Kalkofnsveg, en sjálf hefi ég ekki farið niður í bæ að kvöldlagi á bílnum síðan þá.
Þetta kom mjög sterkt upp í hugann þegar fréttir bárust af banaslysi á Reykjanesbraut á laugardagskvöldið og alvarlegar athugasemdir gerðar við merkingar á vinnusvæðinu við Reykjanesbrautina. Þá var einnig rætt um fleiri staði með ónógar merkingar eins og gatnamót Vesturlandsvegar og Suðurlandsvegar auk Kalkofnsvegarins og Sæbrautina ofan við Sundahöfn.
Þegar ég bjó í Svíþjóð kom ég oft að gatna- og vegaframkvæmdum. Þær voru undantekningarlaust merktar löngu áður en komið var að framkvæmdasvæðinu og hjáreinar vel merktar með ótal blikkljósum og lýstar upp eins og kostur var.
Nú eru framkvæmdirnar á Reykjanesbrautinni búnar að kosta mannslíf. Vonandi verður það til að þessi mál verði tekin föstum tökum hér eftir og að ekki þurfi að heyrast meira af slíkum slysum í framtíðinni.
mánudagur, nóvember 13, 2006
13. nóvember 2006 – Af umferðarmerkingum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:14
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli