Eftir að hafa kosið Vinstri hreyfinguna grænt framboð í öllum kosningum frá því hún var mynduð og þrátt fyrir óánægu mína með margt í stefnu VG, gerði ég upp hug minn á síðastliðnu vori og eftir síðustu sveitastjórnarkosningar og gerðist pólitísk. Ástæður þessa er fyrst og fremst hin mjög svo einarða stefna VG í umhverfismálum sem og andstaða þeirra við Evrópusambandið. Á þeim sviðum var ég hlynnt stefnu Samfylkingarinnar, þótt ég væri um leið mjög hlynnt stefnu VG í friðarmálum og kvennabaráttu. Þar sem ég sá möguleika á að viðhalda friðaróskum mínum og kvennabaráttu innan Samfylkingarinnar, ákvað ég að vera með. Um leið og ég innritaði mig, fór að halla undan fæti hjá Samfylkingunni. Ætli ég verði ekki rekin bráðum?
Nú er prófkjörum lokið hjá Samfylkingunni í öllum kjördæmum utan Reykjavíkur og ljóst að konur hafa allsstaðar farið halloka fyrir körlum. Slíkt kann ekki góðri lukku að stýra í upphafi kosningabaráttu hjá stjórnmálaflokki sem kennir sig við jafnrétti og femínisma. Einungis í Kraganum eru konur í öruggum sætum þar sem Katrín og Þórunn verma 2 og 3 sæti listans.
Með þessu er ég ekki að halda því fram að þeir karlar sem sitja í efstum sætum listanna séu neinir aukvisar. En það er ljóst að það vantar þann kröftuga neista sem þarf til að hvetja konur til dáða, bæði þær konur sem eru í framboði sem og þær sem mæta á kjörstað. Í kosningunum 2003 tókst að kveikja þennan neista með framboði Ingibjargar Sólrúnar, en af einhverjum ástæðum hefur lítið orðið um áframhaldandi hvatningu og er það miður.
Á laugardaginn kemur verður það okkar hlutverk að bæta fyrir þá karlægu ímynd sem Samfylkingin er við að fá á sig. Það gerum við með því að velja konur í sem flest sæti, ekki einungis með því að láta nægja að kjósa Ingibjörgu Sólrúnu í fyrsta sæti, heldur og að tryggja örugg þingsæti fyrir Guðrúnu Ögmundsdóttur, Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur, Jóhönnu Sigurðardóttur, Bryndísi Ísfold Hlöðversdóttur, Steinunni Valdísi Óskarsdóttur, Kristrúnu Heimisdóttur, Valgerði Bjarnadóttur, Þórhildi Þorleifsdóttur. Það má svo hafa eins og einn karl á hvorum lista til að punta hann aðeins. Engin nöfn nefnd. :o)
Enn og aftur hvet ég konur og aðra kjósendur að veita Guðrún Ögmundsdóttur brautargengi og tryggja henni öruggt þingsæti á vori komanda.
mánudagur, nóvember 06, 2006
7. nóvember 2006 – Erfið úrslit
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:55
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli