laugardagur, september 30, 2006

30. september 2006 - Um útflutningsverðmæti sjávarafurða og álver

Árið 1967 drógust útflutningstekjur sjávarafurða verulega saman. Síldveiðarnar brugðust hrapallega og verðfall varð á þorski á Bandaríkjamarkaði. Því miður er mér ókunnugt um hversu mikið útflutningstekjurnar drógust saman, en afleiðingarnar voru mjög erfiðar fyrir íslensku þjóðina. Þúsundir urðu atvinnulausar, fólksflótti til útlanda á borð við Svíþjóð og Ástralíu, tvær stórar gengisfellingar þar sem dollarinn hækkaði á rúmu ári úr 43 krónum í 88 krónur. Þegar leið á árið 1969 fóru markaðirnir að jafna sig og loðnuveiðar komu í stað síldveiða og þegar leið á árið 1970 má segja að efnahagsástand íslensku þjóðarinnar hafi komist á réttan kjöl.

Kreppan skildi eftir sig djúp spor meðal íslensku þjóðarinnar. Fjöldi Íslendinga búa enn í öðrum löndum og og hafa sest þar að til frambúðar ásamt niðjum sínum. Þetta fólk kynntist öðrum ríkjum og áttu sér betra líf þar en kostur var að gera á Íslandi, því það er dýrt að búa á Íslandi og það kostar peninga að hafa Esjuna fyrir augunum alla daga.

Andstæðingar Kárahnjúkavirkjunar hafa krafist þess að hætt verði við frekari framkvæmdir við Kárahnjúkavirkjun. Ég hefi leyft mér að ætla að kostnaður við það að hætta við virkjunina og fresta gangsetningu álversins á Reyðarfirði, nemi um 250 milljörðum króna (250.000.000.000 kr) Ég hefi þó heyrt töluna 300 milljarða. Útflutningstekjur sjávarafurða á Íslandi árið 2005 voru tæpir 112 milljarðar króna. Með öðrum orðum. Þetta eru allar sjávarútvegstekjur þjóðarinnar í tvö til þrjú ár og við höfum ekki einu sinni útflutning á áli frá Reyðarfirði til að bæta okkur upp tekjumissinn af töpuðum sjávarútvegi. Heldur þjóðin virkilega að hún hafi efni á þessu? Hvað þýðir slíkur biti fyrir þjóðina í reynd?

Ómar Ragnarsson vildi gera sem minnst úr þessu í sjónvarpsviðtali á fimmtudaginn og benti á að það að hætta við virkjunina væri eins og smátimburmenn í fimm ár fyrir þjóðina í heild. Ég er hrædd um að það yrði ekki svo gott. Fyrir hvaða peninga ætti að greiða skuldir þjóðarinnar á þessum fimm árum. Þetta myndi þýða hrun íslensku krónunnar langt niður fyrir það sem var 1967-1968, sennilega nær því sem var í Þýskalandi 1923, stórfellt atvinnuleysi sem myndi sennilega skipta tugum prósenta, fólksflótta sem væri helst hægt að jafna við vesturferðirnar í lok nítjándu aldar og hundruð eða jafnvel þúsundir heimila yrðu gjaldþrota.

Síðan tækju við aðrir erfiðleikar. Ómar vill að ráðist verði í virkjun gufuaflsvirkjana fyrir norðan til þess eins að flytja orkuna úr héraði og suður á Austfirði. Eru Þingeyingar tilbúnir að samþykkja það? Þeir voru ekki hrifnir af flutningi orkunnar yfir Vaðlaheiði til hugsanlegs álvers í Eyjafirði. Jafnvel þótt virkjanaleyfi fengist og hæfilegur skammtur eignarnáms á landi og jarðgufu, þá ætti eftir að bora, semja við verksmiðjur, framleiða túrbínur og annan búnað til þess eins að nokkrar mættu komast í gang. Þá þarf að fá lán fyrir þessum virkjunum og hvar fengju Íslendingar lán til slíkra framkvæmda ef þeir hættu svona snögglega við Kárahnjúkavirkjun? Þar með væru vesalings Ómar og félagar ekki einungis búnir að fá Austfirðinga upp á móti sér, heldur og Þingeyinga, alþjóðlegar bankastofnanir og yrðu að auki að athlægi víða um heim.

Það gerir svosem ekkert til því um það leyti sem virkjanirnar væru komnar í gang, væru íbúarnir á þessum svæðum og stór hluti þjóðarinnar sest að í útlöndum.

P.s. Meðal þess sem ég hefi heyrt neikvætt um Alcoa, er að ál frá þeim sé m.a. notað til hergagnaframleiðslu. Það er hið versta mál, enda er ég friðarsinni og þykir öll tæki og tól sem notuð eru til að drepa fólk, sem af hinu illa. Þar með er ekki nóg að vilja banna rekstur Alcoa á Íslandi. Ég er þess fullviss að einhverjir eldhúshnífar sem seldir eru fimm í pakka í verslunum IKEA víða um heim, hafi verið notaðir til þess að drepa fólk. (Ég á líka svona hnífasett) Ég er svo sannfærð að mér dettur ekki til hugar að spyrja hvort, heldur hversu mörg morð hafa verið framin með eldhúshnífum frá IKEA? Ekki dettur mér samt til hugar að krefjast þess að IKEA á Íslandi verði lokað og meinuð áframhaldandi starfsemi á Íslandi.

Með þessum orðum kveð ég umræðurnar um Kárahnjúkavirkjun að sinni.

föstudagur, september 29, 2006

29. september 2006 – Fylling Hálslóns

Margir starfandi sjómenn sem ég þekki, eru á leiðinni í land. Þeir bíða eftir réttu atvinnutækifæri og á réttum stað og um leið og rétta tækifærið gefst eru þeir komnir í land. Þetta á ekki einungis við um þá sjálfa, heldur og kannski öllu fremur við um maka þeirra og aðra fjölskyldumeðlimi. Meðal þeirra starfa sem margir sjómenn hafa sótt í, eru störf við áliðnaðinn sem í dag er orðin önnur mikilvægasta undirstöðuatvinnugreinin á eftir sjávarútvegi.

Austfirskir sjómenn eru ekkert öðruvísi en aðrir sjómenn. Þá langar í land eftir nokkur ár á sjó og stundum alltof mörg ár fjarri heimilum sínum. Fyrir þessa menn og fjölskyldur þeirra, er álver Fjarðaráls á Reyðarfirði kjörinn starfsvettvangur til að hverfa í áður en heilsan og bakið bresta af of mikilli vosbúð og þrældómi. Því fögnuðu margir þeirra upphafi fyllingar Hálslóns á fimmtudagsmorguninn.

Hin einarða andstaða fólksins í 101 og ganga Ómars Ragnarssonar gegn Austfirðingum er sem blaut borðtuska í andlitið þeim og mun í besta falli verða lítils metin, en sennilega mun hún valda enn frekari gjá á milli landsbyggðar og Reykjavíkur en áður var. Ég vona þó að Austfirðingar muni taka geðvonsku Ómars og félaga með jafnaðargeði og halda áfram eins og ekkert hafi í skorist.

Á netinu er komin hvatning til fólks að setja nafn sitt við meðmæli með virkjun Kárahnjúka. Fylgir hún hér með og jafnframt hvet ég fólk að kópera slóðina inn á sitt eigið blogg um leið og meðmælabréfinu verði dreift sem víðast:

http://www.myweb.is/virkjum/virkjum.php

miðvikudagur, september 27, 2006

28. september 2006 - 2. kafli - Danski herinn

Þegar Mogens Glistrup var upp á sitt besta og formaður í danska Framsóknarflokknum, lagði hann til að fækkað yrði í danska hernum niður í einn hermann. Hlutverk hermannsins eina yrði fólgið í því, ef ráðist yrði á Danmörku, að fara með uppgjafarbréf á móti hernum sem myndi ráðast inn í landið. Til hvers eiga Danir svo að halda úti her?

Á síðustu hundrað árum hafa danskir hermenn aldrei þurft að grípa til vopna til varnar fósturjörðinni. Síðast sem danskir hermenn veittu mótspyrnu við árás, var í Slésvíkurstríðinu 1864 þegar Prússland kom í veg fyrir innlimun hertogadæmanna í Danmörku með árás og innlimun hertogadæmanna í prússneska ríkið. Einasta skiptið sem nauðsyn bar til varnaraðgerða eftir það, var 1940 og var þá aldrei gripið til vopna og ríkisstjórn og konungur gáfust upp án mótspyrnu á fyrsta degi, nákvæmlega eins og Mogens Glistrup lagði til nokkrum áratugum síðar. Illu heilli hefur danski herinn ekki verið notaður til annars en óhæfuverka og tók þátt í innrásinni í Írak fyrir nokkrum árum í óþökk stórs hluta dönsku þjóðarinnar.

Nu þegar síðustu leifar bandaríska hersins eru á förum af landinu, kemur Björn Bjarnason fram með allskyns hugmyndir af hernaðarhyggju sinni, að leyniþjónustu, vopnuðu hervaldi og nú síðast, að varaliði. Auðvitað á að blása slíkar hugmyndir af strax. Okkur nægir að sjá reynslu Dana af hernaðarbröltinu.

28. september 2006 - Myrkvuð gúrkutíð

Árið 1967 varð háspennubilun í rafkerfi New York borgar sem varð til að öll borgin myrkvaðist. Þegar sagt var frá þessari bilun var sagt frá því í hálfgerðu gríni í íslenskum fjölmiðlum, að þá hefðu sumir New York búar séð stjörnur himinsins í fyrsta sinn á ævinni og Íslendingar hlógu að grunnhyggnum Ameríkönum.

Nú á að endurtaka leikinn, ekki í New York og ekki vegna bilunar, heldur eru það Reykjavík og Andri Snær Magnason og andstæðingur virkjanaframkvæmda (og rafmagns?) sem vill fá að sjá stjörnur og lætur slökkva á götulýsingunni svo hann geti gert slíkt að heiman frá sér. Í gúrkutíðinni þessa dagana eru svo sjónvarpsstöðvarnar upprifnar af vitleysunni og Kastljósið sent á staðinn til að mynda on/off rofann (sem er reyndar tölva) og notaður er til að slökkva handvirkt á götuljósunum.

Ef mig langar til að sjá norðurljós eða stjörnur á himni, skrepp ég aðeins út fyrir bæinn í stað þess að krefjast slíkra öfga sem að slökkt verði á Reykjavík og mun að sjálfsögðu lýsa upp heimili mitt eins og kostur er á fimmtudagskvöldið.

Þessi myrkvun hefur svo ekkert að gera með úrval kvikmynda á kvikmyndahátíð sem hefst á fimmtudagskvöldið. Sjálf hefi ég þegar keypt miða á fyrri sýningu dönsku myndarinnar Soap sem verður sýnd í Háskólabíó 3. og 4. október. Þótt ég viti ekkert um gæði myndarinnar, þykist ég kannast við söguþráðinn, enda upplifað hann að einhverju leyti sjálf. Svo er dönsk kvikmyndaframleiðsla öllu betur heppnuð en danskur hernaður.

27. september 2006 - 2. kafli - Hvað kostar að hætta við Kárahnjúkavirkjun?

Á þriðjudagskvöldið fór fjölmennur söfnuður, hvattur af Ómari Ragnarssyni, í göngu niður Laugaveginn og krafðist þess að hætt yrði við að fylla Hálslón ofan við Kárahnjúkastíflu. Ég fór að velta fyrir mér hvað efnd slíkrar kröfu myndi kosta.

Ef mig misminnir ekki, er áætlaður kostnaður við byggingu Kárahnjúkavirkjunar um 90 milljarðar króna sem er að mestu leyti gjaldfallinn. Þá verður að reikna með minnst þriggja ára seinkun á álveri Alcoa á Reyðarfirði, byggingu gufuaflsvirkjana norður í Þingeyjarsýslu og lagningu háspennulínu frá hinum ætluðu nýju virkjunum og suður í Fljótsdal til móts við þegar lagða háspennulínu til Reyðarfjarðar. Gróflega áætlað myndi þetta kosta yfir 200 milljarða eða sem svarar 700.000 krónum á hvert einasta mannsbarn í landinu. Er þá ótalinn sá álitshnekkur sem íslenska þjóðin myndi bíða vegna svikinna samninga auk þess sem spyrja mætti þess hver gæti lagt fram þessa 200 milljarða til greiðslu virkjunarinnar og skaðabóta sem frestuninni yrði örugglega samfara?

Ef hætt yrði við fyllingu Hálslóns myndi slíkt skapa slíka gjá á milli Austfirðinga og íbúa höfuðborgarsvæðisins að seint myndi gróa um heilt á milli, en Kárahnjúkastífla myndi standa um langa framtíð sem dæmi um þrjósku bláfátækrar þjóðar.

Ég vil óska Austfirðingum til hamingju með áfangann sem felst í upphafi fyllingar Hálslóns.

27. september 2006 – Þvottadagar

Um klukkan sex á þriðjudagskvöldið birtist stór sendibíll fyrir utan hjá mér og var hann vel merktur fyrirtæki einu sem var og er kannski enn, í eigu tengdafólks þess frænda míns sem á sama afmælisdag og ég. Reyndar á eiginkona frændans líka sama afmælisdag og ég og frændi, en því miður láðist mér að gráta út afslátt í búðinni út á venslin og afmælisdaginn. En snúum okkur að einhverju öðru en afmælisdögum.

Erindi þessa sendibíls heim til mín, var að afhenda mér glænýja þvottavél og þurrkara sem ég hafði keypt. Tveir fílefldir karlmenn tóku þvottavél og þurrkara og báru á milli sín upp um tvær hæðir, alla leið inn á bað og fóru létt með.Ég þurfti ekki að gera annað en að stinga í samband, fylla af þvotti og byrja að þvo.

Þegar þessi orð eru rituð er ég búin að þvo tvær vélar í þýskum gæðavélum og þurrka eina.

-----oOo-----

Ég bíð í ofvæni eftir nýrri útgáfu af atvinnuflugmannatali og niðjatali Vaðbrekkunga, þ.e. niðjum Aðalsteins á Vaðbrekku, föður Hákons, Jóns Hnefils, Ragnars Inga ofl.

þriðjudagur, september 26, 2006

26. september 2006 - 2. kafli - Fyrir neðan stíflu


Í Fréttablaðinu í dag er heilsíðuauglýsing frá andstæðingum Kárahnjúkavirkjunar þar sem hvatt er til að fólk labbi niður Laugaveginn í kvöld. Með auglýsingunni er birt mynd frá Hafrahvammagljúfri og spyr ég mig þess, þegar haft er í huga að hún er tekin langt fyrir neðan stíflu, hvort göngumenn ætli að svindla og labba bara niður Bankastrætið?

P.s. Þessi mynd er tekin á sama stað, er ég og fleiri vorum á ferð á svæðinu fyrir tveimur árum.

P.s. P.s. Þar sem ég þurfti að henda pistlinum út og setja hann inn aftur glötuðust athugasemdir frá Parísardömunni. Fyrirgefðu mér, en það var ekki ætlunin.

mánudagur, september 25, 2006

26. september 2006 – Nýja fólkið í blokkinni

Það er nýtt fólk að flytja inn í íbúðina fyrir neðan mig. Um er að ræða eldri hjón, ákaflega prúð og þægileg umgengni. Það ætti auðvitað að vera fagnaðarefni að fá líf í litla íbúð sem hefur verið í útleigu í marga mánuði, en þó ollu nýju íbúarnir sumum íbúanna nokkru hugarangri. Frúin sem er að flytja inn er nefnilega með kisuofnæmi.

Ég var að koma heim á mánudagskvöldið með tæki og tól í höndunum til að útbúa nýja einangrunarhlíf fyrir rafmagnstöfluna í íbúðinni eftir að hún hafði verið verið endurnýjuð á sunnudag. Þegar ég fór upp stigann og framhjá íbúðinni á hæðinni fyrir neðan mig, var hún galopin og nýju íbúarnir innandyra reiðubúin að taka á móti húsgögnum. Ég kastaði á þau kveðju og hélt áfram upp stigann til mín. Um leið og ég opnaði dyrnar, skaust kisan Tárhildur út og niður stigann. Mér tókst að koma í veg fyrir að Hrafnhildur færi sömu leið, lokaði hana inni í herbergi á meðan ég fór niður að athuga hvert Tárhildur hafði haldið.

Þegar ég kom niður, hafði Tárhildur skotist inn í íbúðina fyrir neðan og þar sem henni fannst hún þekkja alla húsaskipan í galtómri íbúðinni fékk hún vægt taugaáfall, komin inn á eigið heimili að hennar mati, en án alls húsbúnaðar. Mér tókst að góma hana með snatri og koma henni til síns raunverulega heimilis um leið og ég ruddi úr mér innilegum afsökunarbeiðnum fyrir ónæðið sem Tárhildur hafði valdið frúnni á neðri hæðinni.

Ég fæ á tilfinninguna að þetta verði allt í lagi.

-----oOo-----

Ég eyddi vinnudeginum austur í Hellisheiðarvirkjun. Það er nauðsynlegt að kynna sér hlutina vel, enda mun ég þurfa að fjarvakta vélarnar í framtíðinni sem viðbót við allt hitt, hina upphaflegu vöktun á hitaveitu í Reykjavík og Mosfellssveit, Nesjavallavirkjun, bæði heitavatnsframleiðslu sem og rafmagnsframleiðslu, vatnsveitu, bæði framleiðslu og dreifingu, fráveitu, þ.e. dælingu á því sem við skilum frá okkur í gegnum hreinsistöðvar til sjávar, en nú síðast Hellisheiðarvirkjun. Það er ein manneskja sem vaktar þetta allt í senn, reyndar ein í hópi sex vélfræðinga sem deila verkefnunum á milli sín og þurfa að skipta árinu, deginum og nóttunni á milli sín. Hvar endar þetta?

25. september 2006 – Geitungafár

Hvað er í gangi á Íslandi? Ég var í labbitúr um Elliðarár- og Fossvogsdali á laugardaginn. Er við gengum í gegnum einbýlishúsahverfið í Árbænum, rak ég skyndilega augun í hóp holugeitunga sem virtust eiga sér bú undir steinhleðslu við einn garðinn. Getur það verið seinnihluta september? Því til viðbótar virtust geitungarnir ekkert sérlega árásargjarnir eins og þeir verða oft á haustin. Ég kallaði í náunga sem var staddur þarna og virtist vera kunnugur íbúum hússins og lét hann vita. Honum virtist vera alveg sama og þar með kemur mér þetta ekki frekar við.

-----oOo-----

Er ég var á leiðinni heim úr þvottavélakaupaleiðangri á laugardagseftirmiðdaginn (ég er að reyna að slá við kakkalakkafaraldursfréttinni í Fréttablaðinu) ók ég upp Ártúnsbrekkuna og kom að slysstaðnum þar sem ungur maður á Hondu Civic hafði ekið aftan á einhvern jeppling sem ég kann ekki að segja tegundina á. Mörgum tugum metra fyrir austan bílana var lögregluþjónn að mæla bremsuför. Mér varð það ljóst að þarna hafði eitthvað vítavert átt sér stað og sem staðfest var í fréttum kortéri síðar.

Þetta rifjaði upp fyrir mér er tveir þyngstu piltarnir í bekknum mínum í Vélskólanum fyrir þremur áratugum síðan voru saman á ferð í Austin mini sem annar þeirra átti. Þar sem þeir óku austur Hverfisgötuna á nærri 70 km hraða kom ungur drengur með glænýtt ökuskírteini og ók aftan á Austin mini sem styttist um heilt fet við áreksturinn. Eitthvað meiddust félagar mínir, þó ekki nóg til að læknast af vélstjórnarbakteríunni og tókst báðum að ljúka námi með prýðiseinkunnum og sæmd um vorið á eftir.

Eftir slysið í Ártúnsbrekkunni fór ég að velta fyrir mér hvað væri til ráða. Meðalhraðinn niður Ártúnsbrekkuna er nokkuð yfir leyfilegum hámarkshraða eða um 90 km/h. Hægustu bílarnir aka á um 80 km/h. Ég veit ekkert um hraða jepplingsins, né hraða Hondunnar, en það er ljóst að hún hefur verið á ofsahraða miðað við tjónið sem hún olli. Það er því ljóst að áróður undanfarinna daga hefur ekki skilað neinum árangri.

Ég er alfarið á móti hækkun á bílprófsaldri. Því eldra sem fólk verður er það tekur bílpróf, því fleiri klaufar verða í umferðinni. Því vildi ég frekar setja aldurshámark á bílpróf, enda sorgleg dæmi um fólk sem fór út í umferðina í fyrsta sinn á efri árum. Af hverju ekki að prófa ensku aðferðina? Í Englandi eru ökumenn á reynslutíma látnir merkja bíla sína með bókstafnum L. Af hverju ekki hér líka?

sunnudagur, september 24, 2006

24. september 2006 – Við heimtum aukavinnu....

...var sungið í sjónvarpsþætti á laugardagskvöldið og þess getið í leiðinni að frómir menn hefðu lagt það til, fyrr á árum, að gera þetta skemmtilega lag að þjóðsöng Íslendinga. Það er eðlilegt því Íslendingar hafa alla tíð verið duglegastir Evrópuþjóða, að minnsta kosti hvað snertir vinnutímafjölda. Þannig taldist meðalvinnutíminn á Íslandi vera um 50 klukkustundir á viku í lok síðustu aldar á sama tíma og aðrar Evrópuþjóðir voru venjulega með um 40 klukkustunda vinnu á viku.

Hinn langi vinnutími Íslendingsins leiddi til þess að margir Íslendingar horfðu öfundaraugum til Norðurlandanna og þeirrar einföldu staðreyndar að Norðurlandabúar gátu lifað af dagvinnutekjunum einum saman á sama tíma og Íslendingurinn þurfti að vinna langt fram á kvöld til að ná endum saman. Þetta ýtti á fólksflótta og mörgum þótti það gott að komast í störf á hinum Norðurlöndunum ef illa áraði á Íslandi og margir settust að þar til frambúðar og hafa ekki snúið heim aftur nema sem gestir.

En hvaða skýring er á þessum mikla mismun á launum á milli Íslands og hinna Norðurlandanna? Sumir kynnu að benda á hátt íbúðaverð og matarverð sem veldur því að Íslendingar vinna myrkranna á milli, en matarverðið er líka hátt og jafnvel hærra í Noregi, bensínið sömuleiðis og margir aðrir kostnaðarliðir. Þá eru skattar sömuleiðis verulega hærri á Norðurlöndunum svo vart eru skattarnir að pína Íslendinginn. En samt, einhver ástæða er fyrir lengri vinnutíma og lægri launum á Íslandi.

Einhverju sinni var gerð könnun á samhengi vinnutíma og þjóðarframleiðslu og þar sem Ísland var að venju með hæstu þjóðum þegar litið var á þjóðarframleiðslu per einstakling. Þegar tekið var síðan tillit til vinnustundafjölda á bakvið þjóðarframleiðsluna kom allt annar og öllu bitrari sannleikur í ljós. Þá féll Ísland niður fyrir flestar Evrópuþjóðir.

Fyrir nokkrum áratugum var yfirvinnubann í gangi í Reykjavík og þá komst ónefnt iðnfyrirtæki að þeim sæta sannleika að heildarafköstin minnkuðu sáralítið meðan á yfirvinnubanninu stóð og alls ekki í samræmi við fækkun vinnustunda vegna yfirvinnubannsins. Síðan þá hefur umrætt fyrirtæki sem ég kann ekki að nefna, haldið sig við fjölskylduvæna starfsmannastefnu.

Síðan þetta var hefur fjöldi íslenskra fyrirtækja innleitt fjölskylduvæna starfsmannastefnu og er það vel. Þó þarf enn að bæta ástandið víða, því einungis þannig getur Ísland náð því að vera á toppnum hvað snertir þjóðarframleiðslu per einstakling og tíma. Þá þýðir heldur ekkert að ljúga að sjálfum sér með því að láta útlendinga vinna aukavinnuna fyrir léleg laun.

-----oOo-----


Eins og ég hefi alltaf sagt, þá hefi ég ekkert vit á peningum. Það sannaðist óþyrmilega á mér á laugardeginum. Gamla þvottavélin sem ég hafði verið með í láni síðan ég flutti í Árbæjarhverfið, tók sig til og gaf upp öndina á föstudeginum í miðjum þvotti og að venju þegar verst stóð á. Ég tók mig því til á laugardeginum og hóf að leita mér að þvottavél og þurrkara á viðráðanlegu verði og gæðum. Ég kom í búð og sá þar sett sem mér fannst flott með fullt af tökkum og liðu ekki margar mínútur uns ég hafði eignast settið á VISA-rað þótt mér fyndist það nokkuð dýrt. Þegar heim var komið, fór ég inn á netið að skoða heimasíðu seljandans og auðvitað komst ég að því að ég hafði keypt næstdýrasta þvottavélasettið sem var til sýnis í búðinni!

-----oOo-----

Og þá er það fótboltinn. Þar ber þess fyrst að geta að hetjurnar í Halifaxhreppi héldu uppteknum hætti og spiluðu með ólympískum formerkjum og náðu jafntefli við botnliðið í kvenfélagsdeildinni, sjálfa Ræningjana í Grænaskógi, enda hefur þeim verið ræktuð virðing fyrir þeim sem eru minnimáttar. Spútnikliðið okkar í Mannshestahreppi hélt sömuleiðis uppi uppteknum hætti og spilaði gegn Velgjörðarfélagi Námuverkamanna í Brodsworth (FC Brodsworth Miners Welfare) í einhverri rassvasabikarkeppni (FA Vase) og unnu með glæsibrag eins og þeirra var von og vísa.

laugardagur, september 23, 2006

23. september 2006 – NFS

Þá er tilraunin með NFS liðin og verður víst ekki endurtekin á næstunni. Mér finnast endalokin sneypuleg og hefðu mátt bera að með öðrum hætti. Það þýðir kannski ekkert að velta sér upp úr þeim vandamálum úr því sem komið er. Lögmál markaðarins gilda á þessum markaði sem og mörgum öðrum.

Þrátt fyrir áhugaleysi mitt fyrir NFS, þá viðurkenni ég að ég hefði viljað sjá stöðina lifa áfram, kannski ekki í því formi sem hún var rekin, en samt rekin áfram. Þá hefur Róbert Marshall sýnt það og sannað að hann er maður sem stendur og fellur með verkum sínum og mættu margir feta í fótspor hans í þeim efnum.

Nú er stöðin aflögð í því formi sem hún var skipulögð og Róbert Marshall atvinnulaus. Hann þarf samt ekkert að óttast langvarandi atvinnuleysi. Ég hefi t.d. heyrt að það vanti brekkusöngvara í Vestmanneyjum og þar hefur Róbert nokkra reynslu sem ætti að gera hann hæfan til áframhaldandi brekkusöngva.

föstudagur, september 22, 2006

22. september 2006 – Um njósnir á Íslandi

Ég var að hlusta á viðtal við Þór Whitehead sagnfræðing í Kastljósi og tal hans um þessa stórhættulegu kommúnista sem hér voru að berja á lögregluþjónum fyrr á árum. Hann talar þar mikið um gamla Kommúnistaflokkinn, síðar Sósíalistaflokkinn og loks Fylkinguna sem einhverjar vopnaðar sveitir. Ég er ekki alveg jafnviss um að gott og skemmtilegt fólk eins og Ragnar Stefánsson og Birna Þórðardóttir séu jafnhættuleg “lýðræðinu” og af er látið og hefi hingað til talið þau fremur sem fórnarlömb ofbeldissinnaðra hægrimanna. Þá fæ ég það á tilfinninguna að skrif Þórs Whitehead séu sett fram sem mótvægi hægri manna við fyrri skrif Guðna Th. Jóhannessonar sagnfræðings um persónunjósnir á Íslandi og réttlæting á þeim.

Það voru til herskarar vopnaðra vinstrimanna á fyrrihluta tuttugustu aldar á Íslandi. Séra Gunnar Benediktsson stakk niður stílvopni, sömuleiðis Jóhannes úr Kötlum sem samdi heilu drápurnar um hættulega og skrýtna menn með rauðar húfur og Steinn Steinarr sá öfgarnar í mörgum nútímamanninum sem uppi hefur verið löngu eftir dauða hans. Ritsnilld Halldórs Laxness, Þórbergs Þórðarsonar og Einars Olgeirssonar var vissulega sem óvígur her og svo má lengi telja. Slíkur vopnaburður hefur löngum þótt hættulegur í hægrisinnuðum “lýðræðisríkjum” og full þörf á að hafa eftirlit með þeim sem iðka slíkan vopnaburð.

Það er áhugavert að heyra Þór Whitehead reyna að réttlæta persónunjósnirnar og hlakka ég mjög til að komast í þessa ritgerð sem varð Sjónvarpinu hvatning til að kalla hann í viðtal vegna njósnanna.

Í nýju Sagnfræðingatali (Íslenskir sagnfræðingar, fyrra bindi útgefið 2006) sem ég eignaðist í gær, sé ég að Þór hefur m.a. gegnt eftirfarandi trúnaðarstörfum: Í stjórn Heimdallar SUS, í stjórn Varðbergs, félags um vestræna samvinnu og stjórn Vöku félags lýðræðissinnaðra stúdenta.

P.s. Ef njósnunum lauk 1976 eins og mér heyrðist Þór Whitehead gefa í skyn í viðtalinu, af hverju var þá enn verið að hlera síma herstöðvaandstæðinga 1977?

fimmtudagur, september 21, 2006

21. september 2006 – Mikið að gera

Það verður fátæklegt blogg að þessu sinni. Vegna mikils vinnuálags tókst mér ekki að hugsa upp neitt skemmtilegt og því verða skemmtilegheitin að bíða í tvo daga. Vafalaust verður eitthvað meira að skrifa á fimmtudagskvöldið, en það er ómögulegt að segja fyrirfram hvernig sú vaktin verður.

-----oOo-----

Jú eitt enn. Ég er búin að setja inn link á Mikka vef.

miðvikudagur, september 20, 2006

20. september 2006 – Róbert Marshall

Á mánudaginn skrifaði Róbert Marshall ákaflega einlægt bréf, en opið til helsta eiganda fjölmiðlasamsteypunnar sem hann vinnur hjá og biður um grið í rúmt ár í viðbót fyrir Nýju fréttastofuna NFS.

Ég efa það ekki að Róbert gangi gott eitt til í bréfi sínu til Jóns Ásgeirs. Hann stendur frammi fyrir því að þurfa að segja upp nokkrum tugum hæfileikaríkra starfsmanna, verði stöðin lögð niður löngu áður en fullreynt verður hvort hún geti átt rekstrargrundvöll og fara þau sjónarmið ekki saman við sjónarmið þess, sem hugsar einungis um krónur og aura. Um leið vaða uppi ýmsir aðilar sem eru ósammála Róbert Marshall í skrifum hans, fólk sem lítur á bréfið til Jóns Ásgeirs sem sönnun undirlægjuháttar starfsmanna 365 miðla gagnvart eigendum fyrirtækisins þar á meðal margir af betri bloggurum þessa lands og hafa þeir óspart látið í ljós gagnrýni á hann fyrir skrifin.

Ég viðurkenni fúslega að ég er ekkert sérlega hrifin af sjónvarpsfréttastöð á borð við NFS. Mér finnst stöðin minna að sumu leyti of mikið á CNN þar sem allt kapp er á að sýna andlit fréttamannsins, en minna um venjulegar fréttamyndir. Ég trúi því þó að hægt sé að bæta úr þessum ágalla.

Sömuleiðis er ég lélegur sjónvarpsáhorfandi. Í vinnunni minni er sjónvarpið stundum í gangi inni í setustofu inni af stjórnstöðinni allan daginn hvort sem fólk er að horfa eður ei, en ég vel iðulega að slökkva á sjónvarpinu þegar ég kem á vaktina, enda finnst mér það draga einbeitinguna frá því sem ég á að gera í vinnutímanum. Fyrir bragðið horfi ég sjaldan á NFS eða Stöð 2, enda hvorugt til á heimilinu. Að auki kemst ég ekki yfir að horfa á nema eina sjónvarpsstöð í einu eða þá eina útvarpsstöð, en ef ég heyri fleiri stöðvar samtímis, renna hljóðin saman í eitthvern óskiljanlegan hávaða. Loks þykir mér vænt um þögnina á stundum.

Öfugt við allar skammirnar sem dunið hafa á Róbert Marshall síðustu dagana, er ég hlynnt skrifum hans þótt ýmislegt megi setja út á innihaldið og vil endilega sjá þessa sjónvarpsstöð dafna áfram og bæta sig, fremur en að blæða út á fórnaraltari græðginnar.

-----oOo-----

Eitthvað vænkaðist hagur strympu í kvöld, afsakið Halifaxhrepps, en hetjurnar okkar tóku Daghamstrana frá Rauðubrú í nefið í kvöld. Kannski þurfa þær ekkert að óttast að falla úr kvenfélagsdeildinni í vor, komnar með 9 stig eftir tíu leiki á tímabilinu.

Öllu betur gengur köppunum í Sameiningu Mannshestahrepps, en þeir hafa nú leikið ellefu leiki í haust og unnið alla, komnir með 38 mörk í plús í fyrstu deild hinna ensku Vestfjarða. Rassenal hvað?

mánudagur, september 18, 2006

19. september 2006 - Umferðin í Reykjavík

Þegar ég var á leið heim eftir vaktina á mánudagskvöldið, veitti ég athygli lítilli malarhrúgu við hlið gangstígsins við Bæjarhálsinn og hugsaði með mér að þessari litlu malarhrúgu hafi Villi gamli gleymt er hann var að hreinsa til í Árbænum á laugardaginn var.

Ég viðurkenni að ég hefi oft séð þessa malarhrúgu áður, eða allt frá því Villi gamli hóf hreinsunarherferð sína hina fyrri í Árbæjarhverfinu og lét fjarlægja strætisvagnabiðskýlin fyrir leið S5, en nú var tilefnið annað. Ég sá nefnilega viðtal við Gísla litla glókoll formann Umhverfisráðs Reykjavíkurborgar í fréttaskýringaþættinum Ísland í dag á Stöð 2 í lok vaktar minnar.

Í viðtalinu sem tekið var upp síðdegis á horni Miklubrautar og Lönguhlíðar fór Gísli mikinn og benti meðal annars á að fyrrverandi borgarstjórnarmeirihluti hafi verið á móti bættri umferð í Reykjavík og nefndi þar sérstaklega mislæg gatnamót á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar. Mikil ósköp, satt segir þú Gísli minn. R-listinn gerði ekkert í þessu máli og er það miður. Sömu sögu er að segja af meirihlutanum sem var á undan R-listanum sem og vinstri stjórninni 1978-1982, þessari sömu sem skipulagði byggð austan við Rauðavatn gegn hörðustu mótmælum Sjálfstæðisflokks og Morgunblaðs. Við skulum svo ekkert ræða um staðsetningu hinnar nýju miðstöðvar Morgunblaðsins. Satt best að segja var það meirihlutinn sem var á undan vinstra samstarfinu sem lagði til að gerð yrðu mislæg gatnamót á mótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar í nýju aðalskipulagi sem gert var árið 1965 og var notað sem helsta kosningaplagg Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórnarkosningunum árið 1966. Við verðum að fyrirgefa Gísla að hann muni ekki svo langt aftur, því hann fæddist ekki fyrr en 1972 eða sjö árum eftir að umrætt aðalskipulag var samið. Síðan hefur ekkert skeð og hefur flokkurinn hans Gísla þó verið einráður í borginni í 24 ár á þessu tímabili.

Tilefni viðtalsins við Gísla glókoll var þó annað og meira en ein mislæg gatnamót. Fremur var um að ræða hina þungu umferð til borgarinnar á morgnanna og úr borginni á eftirmiðdögum. Þar er vissulega alvarlegt vandamál, of mikil umferð og of margir bílar miðað við þessar fáu aðalgötur til borgarinnar. Ein aðferð er sú að bæta leiðarkerfi strætó þótt það taki tíma að byggja upp traust að nýju eftir niðurskurð hins nýja meirihluta nú í sumar.

Besta ráðið er þó að gera eins og ég og á annan tug starfsfólks OR hefur gert. Flytja í næsta nágrenni vinnunnar því eins og skáldið sagði: “Sjálfsagt er og best að hafa allt á sama stað.”

-----oOo-----

Ekki tókst henni Anniku Stacke vinkonu minni sem er prestur í Lammhult í Växjö kommun og sem getið var í Fréttablaðinu á mánudaginn, að tryggja sér öruggt sæti í kommunalpólitíkinni í Växjö. Hún var í sjöunda sæti en Folkpartiet Liberalerna fengu aðeins fjóra fulltrúa í bæjarstjórn. Það er annars skemmtilegt að bera saman mismuninn á kommúnum hér á Íslandi við Svíþjóð. Ég átti heima í Järfälla kommun rétt fyrir norðan Stokkhólm. Það voru innan við 60.000 íbúar í sveitarfélaginu og það voru 63 bæjarfulltrúar. Í Reykjavík eru nærri helmingi fleiri íbúar, en einungis 15 borgarfulltrúar.

18. september 2006 - Þrír kratar

Margrét vinkona mín Frímannsdóttir hefur ákveðið að hætta í pólitík. Mér þykir það miður, en um leið virði ég ákvörðun hennar. Magga hefur átt í erfiðum veikindum á liðnum árum og finnst vafalaust tími til kominn að breyta til í lífinu.

Ég kynntist henni fyrst, er hún sat í hreppsnefnd Stokkseyrar og var jafnframt varamaður Garðars Sigurðssonar á Alþingi, en hún tók fast sæti á Alþingi árið 1987 og er nú 1. þingmaður Suðurlandskjördæmis. Ég hefi ávallt metið hana mikils sem mjög heilsteypta manneskju og jákvæða sem sést á því að hún lýsti yfir stuðningi við baráttu mína þegar árið 1989 er ég flutti til Svíþjóðar.

Með þessu óska ég Margréti Sæunni Frímannsdóttur alls hins besta í framtíðinni.

-----oOo-----

Annar krati tilkynnti afsögn sína á sunnudagskvöldið. Af einhverjum ástæðum hefi ég ávallt haft ímugust á þessum manni, eða síðan Ingvar Carlsson sagði af sér ráðherraembætti í Svíþjóð. Þegar Göran Persson gekk inn á fundinn þar sem ákveðið var að hann tæki við formennsku í Socialdemokratiska Arbetarpartiet og forsætisráðherraembættinu af Ingvari Carlssyni, hitti hann sjónvarpsfréttamann sem spurði hvort hann yrði forsætisráðherra á fundinum: “Nej, jag blir inte statsminister” svaraði Göran Persson með áhersluþunga í röddinni í beinni sjónvarpsútsendingu. Þremur kortérum síðar varð hann forsætisráðherra. Með þessari lygi tapaði hann tiltrú minni á sér.

Annar sænskur krati var Sten Andersson fyrrum ritari í flokknum, en einnig félagsmálaráðherra, utanríkisráðherra og síðar málamiðlari í milliríkjadeilum. Hann var skemmtilegi maðurinn í sænsku ríkisstjórninni, gamansamur og þessi ágæta manngerð sem manni fer ósjálfrátt að þykja vænt um alveg burtséð frá pólitík, ekkert ósvipað og Guðni Ágústsson eða Vilhjálmur Hjálmarsson. Hann varð bráðkvaddur á laugardaginn, 83 ára gamall.

sunnudagur, september 17, 2006

17. september 2006 – Kárahnjúkar


Ég fór austur á Kárahnjúka í gær, í hóp með nærri hundrað starfsmönnum Orkuveitu Reykjavíkur. Við héldum frá Reykjavík snemma morguns, helmingur hópsins með áætlunarvél frá flugfélagi Færeyja, en restin með gömlum Fokker. Það var mikill munur að ferðast með færeysku vélinni frá þeim íslensku, enda fór hún austur á þriðjungi skemmri tíma en gömlu Fokkervélarnar.

Það var tekið vel á móti okkur að venju eftir að komið var á Egilsstaði og biðu tvær rútur eftir okkur og þegar haldið í Fljótsdalinn. Við notuðum tækifærið og heimsóttum Skriðuklaustur og Valþjófsstaðakirkju og kom þá í ljós að einn vinnufélaginn reyndist hæfileikaríkari en það að vera bæði rafvirki og vélfræðingur og bíðum við þess nú í ofvæni að hann skrái sig í prestaskólann. Ekki vildi hann þó prédika yfir okkur og taldi sig óvígðan eigi hæfan til slíkra hluta.

Við komum að stöðvarhúsi virkjunarinnar og skoðuðum stöðvarhúsið. Eftir að hafa skoðað nægju okkar í Fljótsdalnum var svo haldið til fjalla og að virkjunarsvæðinu við Kárahnjúka. Þar fengum við að borða í boði Landsvirkjunar og fengum síðan að fara um virkjunarsvæðið, í fyrstu án þess fá að yfirgefa rúturnar. Fljótlega breyttist viðmót yfirmanna svæðisins vegna prúðmannlegrar framkomu okkar, þrátt fyrir að ekki vissu þeir hvort einhver gestanna héti Grímur og lofuðu þeir okkur að valsa um svæðið mun meir en áður hafði verið samþykkt. Reyndar voru bæði Íslendingar og Ítalir á varðbergi því skömmu fyrir komu okkar í hina opinberu heimsókn, höfðu tveir mótmælendur sett upp íslenskan fána í hálfa stöng, en höfðu verið fjarlægðir ásamt fánanum er við komum á svæðið. Eitthvað voru sumir þátttakenda í ferðinni blendnir í trúnni og vildu gjarnan hlekkja sig við vinnuvélar í mótmælaskyni við virkjunina, en eitthvað dró af þeim er þeim voru boðnar keðjur og möguleiki á að hlekkja sig við rúturnar sem höfðu flutt okkur á svæðið.

Einmana flugvél flögraði nokkrum sinnum yfir hausamótunum á okkur á meðan við stoppuðum þarna og reynist sjálft afmælisbarn dagsins vera þar á ferð. Þá var veður hið ágætasta og urðum við margs vísari um mjög svo umdeilda framkvæmd. Við héldum svo aftur til byggða og vorum komin aftur til Reykjavíkur um klukkan 19.00.

Ég á eftir að setja inn myndir frá ferðinni, en mun gera það við fyrsta tækifæri. Ef meðfylgjandi mynd er stækkuð (með því að klikka á hana), sést að litlu rauðu dílarnir á myndinni eru starfsmenn að vinnu við stíflugerðina. Einhverjum datt strax í hug smávaxnir Kínverjar, en þeim hinum sama var þegar í stað boðin keðjan ef hann léti ekki af fordómunum gagnvart virkjuninni og þeim sem byggðu stífluna.

-----oOo-----

Ég er farin að hafa áhyggjur af hetjunum hugprúðu í Halifaxhreppi. Eftir níu umferðir í kvenfélagsdeildinni, eru þær einungis komnar með sex stig, hafa tapað fimm leikjum, gert þrjú jafntefli og unnið einn leik. Það er sitthvað að mælast til að hetjurnar haldi sér í kvenfélagsdeildinni eða að senda þær niður um deild.

Öllu betur hefur hinu unga liði, Sameining Mannshestahrepps gengið. Þeir hafa unnið alla leiki sína á haustinu og eru nú með 30 stig eftir tíu leiki og 36 mörk í plús, hafa skorað 40 mörk, en einungis fengið á sig fjögur.

-----oOo-----

Loks fær sönnen hamingjuóskir með 29 ára afmælið.

laugardagur, september 16, 2006

16. september 2006 – Klessubílarall

Ég þurfti að skreppa suður í Hafnarfjörð á föstudagseftirmiðdaginn. Erindið fólst í því að sækja unga frænku mína í vinnuna, fara með hana í vinnuna til móður hennar, lána móðurinni minn vinstrigræna Súbarú, en taka bíl dótturinnar af henni og fara með hana í æfingarakstur sbr. bloggfærslu mína frá 5. september síðastliðinn.

Það gekk vel að finna stúlkuna þar sem hún var að vinna og svo héldum við í átt til Reykjavíkur á mínum sjálfskipta eðalvagni og ók ég eins og eldri konum á eðalvögnum einum er lagið í mikilli umferð, en er ég kom að ljósunum þar sem vinstri akreinin er fyrir umferð inn í iðnaðarhverfið í Hafnarfirði/Garðabæ, þurfti ég að stoppa sem fremsta bifreið á ljósum, en einhverjir unglingar voru í bíl sem virtist ætla að fara inn í iðnaðarhverfið. Þegar skipti yfir í grænt, gáfu drengirnir allt í botn og með því að ég snarbremsaði, náðu þeir að komast framfyrir mig án þess að valda mér eða sjálfum sér tjóni. Þó komust þeir ekki lengra en að næsta bíl nokkrum metrum framar.

Vart höfðu drengirnar náð að koma sér fyrir á milli mín og næsta bíls á undan, er bifreiðin YI-002 sem er gömul drusla, þeyttist yfir malarhrúgurnar á vinnusvæðinu hægra megin við mig og tróðu sér inn á Reykjanesbrautina á milli mín og bílsins sem áður hafði svínað á mér. Aftur munaði engu að ég yrði keyrð í klessu um leið og mölin lamdi minn vinstrigræna eðalvagn að utan og fékk ég alveg óstýranlega löngun til að skoða betur nöglina á löngutöng hægri handar, en af einhverjum ástæðum fengu unglingarnir á YI-002 samskonar fiðring í sína löngutöng. Þegar betur var að gáð, taldist slík hegðun vart miðaldra hefðardömum sæmandi og alls ekki þegar hún var að kenna ungri frænkunni villimennskuna í íslenskri umferð. Ekki liðu þó margar sekúndur uns þriðja druslan, með númerið NE-984 kom vaðandi yfir malarhrúgurnar hægra megin við mig og aftur þurfti ég að snarbremsa og nánast aka út yfir miðlínu til að forðast að druslan svipti mig hægri hliðinni af bílnum og frænkunni að auki..

Þarna ók ég með þrjá bilaða unglinga í röð á undan mér og fékk tilvalið tækifæri til að halda fyrirlestur um ofsaakstur fyrir 17 ára frænkunni. Brátt nálguðumst við Smáralind og tvöföldun Reykjanesbrautar til norðurs. Þá tóku tveir fremstu bílarnir sig til, beygðu afreinina til hægri, sennilega til að komast í klessubílarall í tívolíinu við Smáralind, en NE-984 hélt áfram og sýndi ekkert frekara umferðarofbeldi. Það var eðlilegt, því við höfðum rétt mætt lögreglubíl og horfðu lögregluþjónarnir valdmannslega mikið yfir til okkar, tóku svo U-beygju og komu á eftir okkur.

Drengurinn á NE-984 beygði síðan af Reykjanesbrautinni í átt að Breiðholtsbraut, en lögreglan hélt á eftir honum. Það síðasta sem ég sá var að drengurinn hafði stöðvað sem og lögreglan sem kveikt hafði á bláum ljósum. Ljóst var að einhver var löghlýðnari en ég og hefur tilkynnt um akstur ungmennanna til lögreglunnar. Bara verst að lögreglan náði ekki líka YI-002.

-----oOo-----

Eftir þessa lífsreynslu, ók ung frænka mín eins og engill næstu tvo tímana, en ég hélt áfram að naga neglurnar upp í kjúkur.

-----oOo-----

Loks fá Guðrún Helga göngugarpur og Ómar Ragnarsson afmæliskveðjur

föstudagur, september 15, 2006

15. september 2006 – 2. kafli – Brunaslys

Minn ágæti jafnaldri og fyrrum skólafélagi, Jens Kjartansson lýtalæknir, kvartar á baksíðu Morgunblaðsins vegna of mikils hita á heita vatninu, gagnrýnir Orkuveituna og samkvæmt blaðinu, vill hann helst láta lækka hitastig heita vatnsins niður í 45°C. (Ekki veit ég hvaðan hann fær þessar 45°C sem er alltof kalt).

Það fólk sem verður fyrir brunasárum vegna heita vatnsins á vissulega alla mína samúð og sömuleiðis er ég hjartanlega sammála Jens um þá hættu sem heita vatninu er samfara. Hinsvegar er ekki við Orkuveituna að sakast, heldur eru það æðri yfirvöld sem þurfa að taka á þessu máli. Ég sem viðskiptavinur Orkuveitunnar kaupi inn það magn sem ég þarf af 80°C heitu vatni. Ef ég fæ 70°C heitt vatn inn í hús hjá mér, kvarta ég. Sumir viðskiptavinir kvarta þegar hitastigið er komið niður í 75°C. Það er skiljanlegt, því kaldara sem vatnið er, því minni gæði. Dælustöðvar Orkuveitunnar miða hitastig á heitu vatni út til viðskiptavina við 80°C frá dælustöð, þó með ákveðnum fráviksmörkum. Þannig koma viðvaranir inn á stjórnborð ef hitastigið fer niður fyrir 77°C og upp fyrir 83°C og á einstöku stöðum við 79°C að lágmarki.

Það hefur oft verið rætt um að lækka hitastig heita vatnsins til viðskiptavina niður í 70°C og jafnvel 60°C, en síðarnefnda hitastigið er viðmiðunargildi í mörgum ríkjum Evrópusambandsins, en þá kemur eitt babb í bátinn. Flutningur á heita vatninu frá dælustöð til viðskiptavinar miðast við 80°C, en ekki 70°C. Ef tekin verður sú ákvörðun að lækka hitastigið, verður um leið að endurnýja allt lagnakerfið í Reykjavík og nágrenni, stækka ofna í íbúðum, auka flutningsgetu hitaveitunnar með mun stærri flutningsæðum frá dælustöðvum. Önnur lausn er einnig til, en hún er t.d. notuð að einhverju leyti sumsstaðar í Svíþjóð og ég held einnig á Seltjarnarnesi þar sem heita vatnið er of mengað salti til að notast beint. Lausnin felst í því að setja upp varmaskipta, þannig að neysluvatnið fari ekki upp í nema 60°C eða 70°C. Þetta er hægt að gera nú þegar og án þess að Orkuveitan sé nokkuð með puttana í málinu. Það kostar hinsvegar peninga að gera slíkt og hefur því aldrei verið í almennri umræðu, en má alveg vekja upp þá umræðu.

Það er svo hins opinbera valds að setja reglur um lækkun á hitastigi frá hitaveitum þessa lands.

(P.s. Pistillinn ritaður af mér sem viðskiptavini OR, en ekki í krafti starfa míns)

15. september 2006 - Bloggkaffi

Ég álpaðist upp á Skaga á fimmtudaginn, en ég hafði sannfrétt að frú Guðríður væri nýbúin að hella upp á könnuna. Þangað mætti einnig Sigrún nágranni Guðríðar og bloggari af Guðsnáð. Á meðan við tróðum í okkur meðlætinu fór einhver að velta fyrir sér hvort ekki væri kominn tími til að halda árshátíð bloggara? Ekki veit ég hversu góð hugmyndin er, en ég man ágætlega eftir ágætum árshátíðum irkverja og einstakra irkrása. Þær tókust oft ágætlega, en á síðari tímum enduðu þær stundum með vinslitum og leiðindum og hættu því að verða sá vettvangur vináttu og samlyndis sem þær voru ætlaðar í upphafi.

Ég vil samt kasta fram þessari hugmynd ef einhver vill ræða hana frekar.

-----oOo-----


Ég er enn hugfangin af henni Emmu litlu Mærsk sem nú er að lesta í Evrópu áður en hún heldur í austurveg til Hong Kong. Aðalvélin í henni er 80 Megawött eða 109.000 hestöfl við 102 snúninga hraða á mínútu og gefur hinu 150.000 tonna skipi 25 hnúta hraða. Með öðrum orðum. Hún er jafnstór í afli og fyrsti áfangi Hellisheiðarvirkjunar. Auk hennar eru fimm hjálparvélar sem samtals gefa af sér 40.000 hestöfl. Ekki veitir af, enda þarf að halda yfir þúsund frystigámum gangandi á milli heimsálfa. Þess má geta að einungis þarf 13 manns að lágmarki til að halda skipinu í rekstri. Enn og aftur minnist ég Bakkafoss II þar sem var 22 manna áhöfn svo ekki sé talað um Lagarfoss II sem var með 31 manns áhöfn.

Ef myndin er skoðuð vel, sjást nokkrir menn vera að vinna við aðalvél Emmu Mærsk þar sem hún er á verksmiðjugólfinu og áður en hún er sett niður í skipið.

fimmtudagur, september 14, 2006

14. september 2006 – Þjóðremba og stærsta gámaskip heimsins

Þegar ég var að alast upp, man ég eftir kennara sem hæddist að dönskum fjölmiðlum fyrir þjóðrembu þeirra og nefndi sem dæmi, að þegar Danir sigruðu í íþróttum, var afrekið blásið upp í fjölmiðlum, en vart minnst á þegar Danir töpuðu. Kennarinn nefndi sem dæmi að Danir minntust lítið á jafnteflisleik Íslands og Danmerkur í fótbolta 1959, en hófu danska landsliðið til skýjanna þegar það sigraði Íslendinga. Ekki veit ég hvernig danskir fjölmiðlar tóku á hinum fræga sigri á Íslendingum 14-2 árið 1967.

Á undanförnum árum hafa Íslendingar fetað rækilega í spor Dana frá fyrri árum. Það liggur við dauðadómi að fagna ekki eins og vitfirringur í hvert sinn sem Ísland vinnur landsleik í handbolta, en ef Ísland er ekki með, þá einhverju Norðurlandanna, þó síst Svíþjóð sem þó hefur staðið með Íslendingum framar öðrum Norðurlandaþjóðum. Þannig verða Íslendingar helst að halda með Finnum í góðakstri (Formúlu 1) af því að það telst með Norðurlandaþjóðum, en við hin nánast hrakin út í horn, þá sérstaklega við sem höfum ávallt staðið með heimsmethafanum geðþekka frá Þýskalandi.

Nú er nýjasta þjóðrembuæðið í gangi. Allir eiga að styðja og kjósa Magna í keppninni Rockstar Supernova. Ég viðurkenni fúslega að Magni er talinn hinn vænsti drengur, enda frá Borgarfirði eystra þar sem elstu systkini mín voru í sveit á sjötta áratugnum. Sjálf hefi ég komið þangað nokkrum sinnum og líkað vel við þorp og íbúa og sé ég enga ástæðu til annars en að ætla að Magni sé heimasveit sinni til sóma.

Ég sá einn þátt af Rockstar Supernova fyrir nokkrum vikum og líkaði illa. Þarna voru einhverjir ákaflega ógeðfelldir piltar sem einhverskonar dómnefnd og hinn illræmdi Tommy Lee sem þekktur er fyrir að lemja á fyrrum eiginkonu sinni í hópnum. Ég held að Magni sé alltof góður drengur til að lenda í þessu bandi, en annað sætið gæti nægt til að koma honum langt á alþjóðlegum vettvangi. Eitt er þó öruggt. Mér kemur ekki til hugar að vaka til að kjósa Magna. Til þess er þjóðremban of fjarri mér.

-----oOo-----


Ég hefi ekki fylgst nógu vel með siglingum að undanförnu, en fór að skoða netið á miðvikudagskvöldið og komst að því að hið nýja súpergámaskip Emma Mærsk fór í rekstur fyrir viku síðan og hefur haldið úr höfn í Árósum til hafna í Evrópu og síðan til Austur-Asíu


Emma Mærsk er stærsta gámaskip í heimi, skráð geta borið 11.600 TEU´s en talin geta borið 14.500 TEU´s. Hún er 397,7 metrar á lengd, 56,4 metrar á breidd og 156.907 Dwt að burðargetu. Hún er hið fyrsta 8 slíkra skipa sem eru í smíðum í Óðinsvéum í Danmörku og verða í föstum áætlunarsiglingum á milli Evrópu og Austur-Asíu. Um sex vikna seinkun varð á afhendingu skipsins vegna bruna í brú og íbúðum skipsins í sumar, en það mál fór betur en leit út í upphafi með hröðun verkferla við smíði skipsins. (Mælieiningin TEU er einn venjulegur tuttugu feta gámur).


Heima á Íslandi sat ég og rifjaði upp gömlu góðu dagana þegar ég var á fyrsta eiginlega gámaskipi Íslendinga, Bakkafossi. Hann var 102 metrar á lengd, 4000 Dwt og lestaði 146 TEU´s.

miðvikudagur, september 13, 2006

13. september 2006 – Systkinin frá Hákoti

Heima hjá mér hangir innrammað ættartré á vegg, framættir móðurafa míns og ömmu. Þegar það var gert, trúði ég öllu sem þar var skráð og taldi allt satt og rétt. Þegar ég fékk sjálf tækifæri til að vinna með ættir mínar, fóru ýmsar greinar af ættartrénu að falla eins og lauf á hausti, öll föðurætt afa míns sem og hluti af móðurætt hans. Ég gat þó huggað mig við að sumt var óhrekjanlegt eins og langamma mín og bróðir hennar sem og foreldrar þeirra.

Mig rak í rogastans þegar ég fór að lesa Morgunblaðið á þriðjudaginn. Á baksíðunni voru myndir af tveimur systkinabörnum langömmu minnar, þeim Þorbjörgu Eyjólfsdóttur og Þorsteini Eyjólfssyni og svo var viðtal við þau inni í blaðinu. Slíkt þætti vart í frásögur færandi nema fyrir þá sök að hið eldra er tæpra 102 ára og litli bróðir átti 100 ára afmæli í fyrradag.

Ég viðurkenni fúslega að ég þekki ekki systkinin persónulega, einungis einn niðja Þorsteins lítillega, Yrsu rithöfund og verkfræðing Sigurðardóttur, en þekki sæmilega ættarsögu þeirra, enda búin að vinna talsvert með hana. Sjálf eru þau ein eftirlifandi af sex systkina hópi frá Hákoti á Álftanesi, tvær elstu systurnar bjuggu suður í Garði, þá ein sem lést á fyrsta ári, en síðan kom Þorbjörg fædd 18. nóvember 1904 og Þorsteinn fæddur 11. september 1906. Yngst var svo Sigríður fædd 1909, en hún giftist vestur á Bíldudal og fórst ásamt eiginmanni og eldri syni í hinu hörmulega Þormóðsslysi 18. febrúar 1943 þar sem nánast tíundi hver íbúi Bíldudals fórst og hefur staðurinn ekki borið sitt barr eftir það.

Lengi vel var áatal þeirra systkina og okkar hinna nokkuð á reiki. Á ættartrénu góða var langafi Þorbjargar og Þorsteins, Eyjólfur Einarsson sagður vera frá Bakka í Ketildalahreppi í Arnarfirði, en í Borgfirskum æviskrám var hans getið og þar voru foreldrar hans sagðir ókunnir, en faðir norðlenskur. Ég reyndi talsvert að finna samhengi í ættartréð hvað snerti þetta fólk, en einn góðan veðurdag hafði Guðmundur S. Jóhannsson ættfræðingur á Sauðárkróki, samband við mig og hafði fundið Eyjólf. Hann reyndist hafa fæðst í Haugshúsum á Álftanesi í apríl 1790, móðirin frá Hróarsdal í Hegranesi í Skagafirði, en faðirinn, Einar Illugason frá Arnarhóli í Reykjavík. Það tók mig svo margar ferðir á Þjóðskjalasafnið að sannreyna að rétt væri og pússluspilið féll svo saman í eina heild er ég fann að móðir Eyjólfs hafði farið úr hreppsvist í Hegranesi til sonar síns á Kjalarnesi vorið 1819 þar sem hún eyddi síðustu árum sínum hjá honum, tengdadóttur og barnabörnum. Ég hefi ekki legið á þessum upplýsingum, heldur komið þeim til skila þar sem þær eiga heima, hjá Íslendingabók.

Sem ég segi, ættfræðin er margbreytileg og fáu að treysta sem haft er eftir vafasömum heimildum.

þriðjudagur, september 12, 2006

12. september 2006 - Að minnast látinna

Á mánudaginn stilltu syrgjendur þeirra sem fórust í árásunum fyrir fimm árum, sér upp á Ground Zero og lásu upp nöfn þeirra látnu í athöfn sem mér skilst að hafi verið sjónvarpað beint um heiminn. Þetta mun hafa tekið allnokkra stund enda nærri þrjú þúsund persónur sem neyddust til að kveðja þetta jarðlíf við árásina á tvíburaturnana.

Suður í Chile voru liðin 33 ár frá því Pinochet og hyski hans rændu völdum með hjálp Nixons og félaga í Washington. Atburðirnir þar eru í dag mörgum gleymdir, nema chileönsku þjóðinni og nokkrum miðaldra manneskjum annars staðar. Mér er ókunnugt um að nein nöfn hafi verið lesin upp á torgum í Santiago eða annarsstaðar í landinu. Það væri þó full ástæða til þess, en hrædd er ég um að það tæki öllu lengri tíma að lesa upp öll nöfn fórnarlamba Pinochets en þeirra sem dóu í New York. Sömuleiðis er ég hrædd um að það tæki marga daga að lesa upp nöfn allra fórnarlamba George Dobbljú Bush í Afganistan og Írak.

Þegar haft er í huga að George Dobbljú Bush og stuðningsmenn hans eru búnir að sprengja Írak, Afganistan og Líbanon aftur á steinöld í nafni baráttu gegn hryðjuverkum, þá væri fróðlegt að velta því fyrir sér hversu mörg saklaus börn í Miðausturlöndum eru með svíðandi og ógróin sár í sálum sínum sem munu gera þau reiðubúin til að beita sér af öllu afli gegn Vesturveldunum í fyllingu tímans með hryðjuverkum gegn öðru saklausu fólki.

-----oOo-----

Eins og allir vita, er Michael Schumacher sannur karlmaður. Hann sannaði það enn frekar á sunnudag er hann lýsti því yfir að hann ætlaði að einbeita sér að því að sigra í þessum þremur mótum sem eftir eru. Það er þessi einbeitni hans sem hefur gert hann að sigurvegara, því eins og sönnum karlmönnum sæmir, getur hann bara hugsað um eitt í einu.

mánudagur, september 11, 2006

11. september 2006 - Hættulegur heimur eða þjóðarleiðtogar?


Það þarf víst ekki að taka fram hvað efni pistils dagsins fjallar um, svo mjög hefur verið fjallað um atburðina 11. september 2001, þegar nokkrir ungir menn af menningu og trú sem er ólík okkar, hófu að beita hatrinu fyrir sig til að sýna vanþóknun sína á þeirri niðurlægingu sem þeir töldu menningu sína og trú hafa orðið fyrir um áratuga og jafnvel árhundruða skeið. Þeir réðust á það sem þeir töldu vera musteri peningahyggjunnar og Mammons og eyðilögðu á örskotsstundu og myrtu í leiðinni nærri þrjú þúsund saklausar persónur sem ekki höfðu annað til sakar unnið en að vera á röngum stað á röngum tíma.

Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Í stað þess að láta sér þessar árásir að kenningu verða og reyna að bæta skilning og vináttu á meðal þjóðanna, hóf George Dobbljú Bush hefndaraðgerðir af fullum þunga. Í stað þess að bjóða hinum smáðu þjóðum miðausturlanda vináttu og skilning, réðst hann að þeim af fullri hörku og myrti tugi ef ekki hundruð þúsunda saklausra borgara þessara landa auk mun fleiri en þrjú þúsund eigin þegna í nafni baráttu sinnar gegn hryðjuverkum. Í dag gráta ekki einungis fjölskyldur þeirra þrjú þúsund persóna sem voru myrtar í árásunum 11. september 2001, heldur og heilu þjóðirnar í miðausturlöndum og hatrið verður verra og verra.

George Dobbljú Bush lofaði þjóðum heimsins að hann skyldi sigra hryðjuverkaógnina og gera heiminn öruggari að lifa í. Við sjáum árangurinn. Hafnir og flugvellir eru umgirt víggirðingum. Víða má sjá hermenn á flugvöllum með vélbyssur tilbúnar til aðgerða gegn venjulegum saklausum farþegum. Ég held að við höfum tapað í stríðinu gegn hryðjuverkaógninni vegna þess að blóðþyrstur fjöldamorðingi stjórnar stríðinu gegn hryðjuverkunum, en ekki einhver með samningalipurð og skilning á menningu og fjölbreytni þjóðanna.

-----oOo-----


Sunnudagurinn var dagur sigra og vonbrigða. Ekki einungis sigraði Vesturbæjarliðið eitthvert lið á Íslandsmótinu, heldur tók heimsmethafinn geðþekki ítölsku góðaksturskeppnina í nefið. Það sem olli mér þó vonbrigðum var að hann skyldi tilkynna að hann ætlaði á eftirlaun í lok keppnistímabilsins.

Heyrðu mig nú, á eftirlaun? Maðurinn er fjórum dögum yngri en bílprófið mitt. Ég ætla að vona að skírteinið mitt sé ekki að fara á eftirlaun líka.

Ég fór að rifja upp þegar ég fór að fylgjast með kappanum á sínum tíma. Ég bjó þá í Svíþjóð og hægt var að fylgjast með Formúlunni í sjónvarpi. Það voru miklar umræður þar í landi um kappakstur vorið 1994 eftir að Ayrton Senna fórst í kappakstri og sögurnar rifjaðar upp af hinum sænska Ronnie Peterson sem fórst á Monzabrautinni nokkrum árum áður (11. september 1978). Þetta varð svo til að ég fór að horfa á einn og einn kappakstur og hinn stórkostlega verðandi heimsmeistara Michael Schumacher hjá Benettonliðinu. Árið eftir var ég í veikindaleyfi stóran hluta sumarsins og hvernig gat ég nýtt mér það betur en að horfa á kappakstur í sjónvarpinu og hinn unga heimsmeistara hala inn stig í hverju mótinu á fætur öðru.

Haustið 1995 varð ég svo fyrir vonbrigðum með kappann er hann ákvað að fara yfir til Ferrari, en hefi fyrir löngu tekið þau félagaskipti í sátt. Nú er svo komið að tímamótum hjá báðum, Michael Schumacher snýr sér að öðrum verkefnum eins og að stunda hannyrðir og frímerkjasöfnun á elliheimilinu, en ég finn mér eitthvað þarfara að gera í frítímanum en að glápa á endalausa hringavitleysu á Formúlubrautum.

sunnudagur, september 10, 2006

10. september 2006 - Afmælisboð

Ég skrapp augnablik í afmælisboð eftir vaktina á laugardagskvöldið. Að skreppa í slíkt boð er í góðu lagi þegar fólk á frí, en þegar búið að vinna tólf tíma vakt og önnur slík bíður daginn eftir, en bakvakt á milli vakta, er engin ánægja af slíkum boðum. Ég lét mig þó hafa það að skreppa augnablik í boðið, en stoppaði einungis í klukkustund. Þegar heim var komið um miðnættið, var Hrafnhildur ofurkisa í einhverju næturteiti og sást hvergi, en systir hennar heimtaði að fá að taka þátt í samkvæminu. Hún fékk það ekki.

-----oOo-----

Enn sem fyrr halda hetjurnar okkar í Halifaxhreppi upp merkjum ólympíuandans. Í gær gerðu þær jafntefli við Grafarenda og eru nú með fimm stig eftir sex leiki í kvenfélagsdeildinni. Þá standa byrjendurnir í Sameiningu Mannshestahrepps sig öllu betur og komnir með 24 stig og eru 28 mörk í plús eftir átta leiki í fyrstu Vestfjarðadeildinni .

-----oOo-----

Fyrir nokkru varð banaslys á Vesturlandsvegi á milli Þingvallavegamóta og Köldukvíslar, nærri Leirvogstungu, þegar hross hljóp út á veginn og fyrir bíl sem ók framhjá. Á laugardagskvöldið var varað við hugsanlegu nýju hrossaati á svipuðum slóðum vegna flugeldasýningar í Grafarvogshverfi. Hvernig væri að hrossaeigendur girtu hrossin sín af svo þau hlaupi ekki aftur út á veginn. Eftir banaslysið veitti ég því athygli að nokkur hross voru á beit utan girðinga nærri Vesturlandsveginum á þessum stað, þ.e. á milli Þingvallavegamóta og brúarinnar yfir Köldukvísl.

laugardagur, september 09, 2006

9. september 2006 – Er ég virkilega svona vitlaus?

Það var sagt frá dópneyslu unglinga í sjónvarpsfréttum í kvöld. Ef marka mátti fréttina, eru menntaskólarnir á kafi í dópi og ekkert mál að redda meira dópi, bara eitt símtal. Er þetta virkilega svona auðvelt?

Þegar ég var í skóla sá ég aldrei fíkniefni. Mér voru aldrei boðin fíkniefni og síðar, ef einhver var að reykja eitthvað annað en venjulegar sígarettur, var farið með slíkt eins og mannsmorð. Þó voru þetta varla neinir barnaskólar, t.d. Vélskólinn þar sem stór hluti nemenda var yfir tvítugt og þeir elstu yfir fertugu. Í öldungadeild MH voru sömuleiðis eldri nemendur og aldrei varð ég vör við neitt annað en venjulegt tóbak og áfengi. Svipaða sögu var að segja af sjómennskuferlinum. Á einu skipi sem ég var á, var eitt sinn háseti sem keypti sér hass í útlöndum og var honum slakað í land í fyrstu höfn og settur á svartan lista hjá útgerðinni. Eitthvað frétti ég af hassneyslu um borð í skipum sem ég var á, en aldrei sá ég neitt og enginn bauð mér neitt og aldrei reyndi neinn að selja mér fíkniefni. Það var kannski eins gott að enginn reyndi að pranga viðbjóðnum inn á mig, því ég er fíkill að eðlisfari og hefði auðveldlega orðið fíkniefnum að bráð hefði ég prófað.

Ég fer að velta fyrir mér hvort þessi frétt sé sönn, eða hvort unglingarnir séu bara að komast í vímu í þjóðfélagi sem gefur í skyn að kaup á öli fyrir stálpaða unglinga séu einhver svívirðilegasti glæpur sem hægt sé að hugsa sér?

-----oOo-----

Það fer að verða gaman að fylgjast af prófkjörsraunum íhaldsins í Suðurkjördæmi. Allir þingmenn flokksins í kjördæminu búnir að tilkynna framboð sitt, en að auki ætlar Hafnfirðingurinn Árni Matt í fyrsta sætið. Þá ætlar Kristján Pálsson í öruggt sæti og hugsanlega Viktor Kjartansson einnig. Sá sem þó er beðið eftir af mestri eftirvæntingu er þó vafalaust Árni Johnsen. Það verður ekki amalegt að hafa gamla tugthúslimi á borð við Árna og Gunnar saman á framboðslista, svo ekki sé minnst á gamlan skipsfélaga, heiðursmann og áfengissmyglara í hópnum en það er svo langt síðan, að þau fornu unggæðingsbrek reiknast sem gleymd í samanburði við upprisu Árna.

föstudagur, september 08, 2006

8. september 2006 - 2. kafli - Til hamingju Glitnir....

.
...með ársskýrslu ársins 2005.

Þessi fyrirsögn er á hálfssíðuauglýsingu á bls 17 í Morgunblaðinu í dag. Einhvernveginn vekur hún grunsemdir um að ekki sé rétt að málum staðið í rekstri þessa fyrirtækis, því ef allt væri eðlilegt, myndu auglýsendur fremur óska Glitni til hamingju með góðan rekstur. Er ársskýrslan virkilega slíkt snilldarverk að reksturinn fellur í skuggann af henni? Eða er einhver með óhreint mjöl í pokahorninu?

8. september 2006 – Tiltektir

Þegar ég kom heim úr vinnunni í dag, fann ég fyrir óstjórnlegri löngun að byrja að taka til heima hjá mér. Í stað þess að leggja mig um stund og láta þessa óþægilegu tilfinningu líða hjá, réðst ég með offorsi á skúffur og skápa, sturtaði úr þeim og byrjaði að raða og skipuleggja, setja sumt í möppur, en henda öðru. Smám saman urðu sumar möppur, þá helst þær sem geyma reikninga, þyngri og skúffurnar léttari.

Þegar ég ákvað að taka mér næturhlé frá þrifunum, áttaði ég mig á því að sáralítð hafði skeð og að helgin myndi vart duga mér til að koma nýju skipulagi á umhverfi mitt.

-----oOo-----

Þótt ég sé löngu búin að uppfylla kvóta sumarsins fyrir fjallgöngur, finnst mér sem ég þurfi að bæta einu nýju fjalli við áætlun sumarsins áður en ég legg skóna á hilluna til vetrardvalar. Ég spyr því mína kæru lesendur hvaða nýtt fjall ég eigi að labba á suðvesturlandi áður en ég fer að hægja á mér?

fimmtudagur, september 07, 2006

7. september 2006 – Á Vífilsfellið án kókdrykkju


Ég vaknaði seint á miðvikudagsmorguninn og nennti ekki á fætur fyrr en kisurnar mínar ýttu mér framúr rúminu, því þær þurftu sinn morgunmat og svo þurfti Hrafnhildur ofurkisa og útivistarfrík að komast út í garð. Þegar komið var fram yfir hádegið, var ég ekki enn búin að ákveða hvernig ég ætti að eyða deginum, ganga ein á Esjuna, taka til og þrífa, eða bara labba í Elliðaárdalnum. Þar sem ég var í símanum að ræða haustverk og fjárréttir við konu eina úti á landi, hringdi gemsinn. Það var Kjóinn að kanna hvort heitt væri á könnunni. Auðvitað er heitt á könnunni sagði ég og flýtti mér að setja á könnuna. Svo kom Kjóinn og stakk ég þegar upp á því að hann rölti með á Esjuna. Honum leist vel á það og eftir tvo bolla af dýrindis nýbrenndu og möluðu Kaaberkaffi var hann til í göngu á heimsenda.

Við ókum af stað. Er litið var til Esjunnar, var hún í felum á bakvið ský og lagði ég því til að farið yrði frekar á Vífilsfellið. Þar var efsti toppur hulinn skýjum, en við héldum þó í áttina að Vífilsfellinu. Þegar þangað var komið reyndist toppurinn vera að hrista af sér skýjahuluna og því ekkert annað að gera en að halda upp á leið.

Eftir vel innan við tveggja tíma göngu náðum við á toppinn á þessu skemmtilega göngufjalli sem býður upp á ýmis tilbrigði í fjallgöngum, léttar skriður, klappir og klettaklifur, þó yfirleitt án þess að lagt verði í neina hættu. Á toppnum voru teknar myndir að venju og notið útsýnis, hringt í upptekna göngufélaga og síðan rölt niður aftur og staldrað við á Litlu kaffistofunni á leiðinni heim.

-----oOo-----

Í bókinni “Íslensk fjöll, gengið á 151 tind” er sú saga sögð að Vífill leysingi Ingólfs Arnarsonar hafi skroppið daglega á fjallið heiman frá Vífilsstöðum til að gá til veðurs, en hann stundaði fiskveiðar frá Gróttu. Eitthvað finnst mér þessi saga vafasöm. Ég þykist vita að Vífill hafi ekki farið þessa leið á bíl og því er vart um aðrar samgöngur að ræða en hesta eða þá fótgangandi. Ef hann hefur farið á hesti, hefur dagurinn farið í að ríða frá Vífilsstöðum að Vífilsfelli, hlaupa upp og niður og heim aftur, en vart tími til að ríða vestur í Gróttu og heim aftur, hvað þá að stunda fiskveiðar.

miðvikudagur, september 06, 2006

6. september 2006 – Gönguferðir

Ég fékk þá flugu í höfuðið að rölta svona dagleið á miðvikudag og hringdi í Þórð. “Ég er að passa,” var svarið. Ég hringdi í Kjóa. “Ég hefi ekki tíma.” Vitandi að Guðrún Helga, Guðrún Vala og Sigrún eru allar að vinna og hafa ekki tíma til léttrar göngu, verð ég að að láta mér nægja að labba á bæjarhólinn og vonast til að rekast á skemmtilegt fólk. Ekki nenni ég að vinna í dag.

-----oOo-----

Ég var í brennslunni í gær. Hún gengur út á að leggjast á bekk og láta fara yfir neðri hlutann á andlitinu á mér með lasertækni og brenna þannig burtu gömul hárstrá sem hafa vaknað til lífsins að nýju eftir að hafa sofið Þyrnirósarsvefni um árabil. Ég vil ekki halda því fram að þetta sé beinlínis þægilegt, því ef ég héldi slíku fram, myndi ónefnd bloggvinkona vilja taka við mig viðtal fyrir BA ritgerðina sína um BDSM. Þó er þetta allt gert af mestu nærgætni sem hugsast getur og eftir að hafa lagst undir brennarann mörgum sinnum á síðastu árum, er þetta hætt að vera neitt ógnvænlegt.

þriðjudagur, september 05, 2006

5. september 2006 - Misheppnað verkefni

Ég hafði verið beðin um að taka að mér að sitja með ungri frænku minni í æfingarakstri og á mánudagskvöldið var komið að fyrsta skiptinu sem ég sat með henni í bíl á meðan hún skrapp bæjarleið. Áður en ég ók af stað með henni, rak ég augun í að ekkert spjald var á bílnum sem merkti hann með æfingarakstri og þótti mér það óheppilegt.

Svo var farið heiman hjá henni í Breiðholtinu og haldið austur Breiðholtsbrautina. Ég þóttist vera róleg og yfirveguð og gaf stelpunni góð ráð meðan á akstri stóð og allt gekk vel framanaf. Svo komum við að hringtorginu við Rauðavatn og ég segi við hana að muna svo að gefa svo stefnuljós út úr hringtorginu. Hún gerði sig líklega til að aka austur Suðurlandsveginn.
“Ekki hérna, næst!” hrópaði ég og stelpan gerði nákvæmlega eins og ég sagði, keyrði nokkrum metrum lengra og beygði svo til hægri á móti umferðinni. Ég fór í kerfi og stúlkan gerði hið eina skynsamlega, keyrði út í kantinn og stoppaði þar.

Á meðan ég þusaði um að hún þyrfti að bakka út á götuna aftur til að snúa við, gerði hún sér lítið fyrir, tók vinkilbeygju og ók svo eins og herforingi í átt að Suðurlandsvegi og síðan í átt að Grafarholti með versta hugsanlega aftursætisbílstjóra landsins í farþegasætinu frammí. Þegar komið var á ákvörðunarstað þar, var ég búin að naga neglurnar upp í kjúku og orðin að einu taugaflaki. Við þurftum að skila af okkur einhverju dóti sem móðir hinnar ungu bílstýru þurfti að koma til vinkonu sinnar í Grafarholtinu og á meðan hún hljóp inn með pakkann fór ég að róta í hanskahólfinu eftir æfingarleyfinu, en fann ekkert.

“Hvar ertu með æfingarleyfið? Það er ekki hér í hanskahólfinu,” segi ég.

Stelpan hringdi í móður sína og komst að því að leyfið var staðsett á borðstofuborðinu á heimili þeirra. Þar með lauk æfingarakstri dagsins og ég tók við stjórninni og keyrði stelpuna heim.

Ég held að ég yrði lélegur ökukennari.

mánudagur, september 04, 2006

4. september 2006 – Deyjandi gönguklúbbur?

Fyrir gærdaginn var blásið í lúðra. Nú skyldi haldið í gönguferð! Ég lenti á erfiðri næturvakt þar sem ég gat ekki einu sinni lokað öðru auganu á vaktinni vegna rafmagnsbilunar í miðborg Reykjavíkur og skreiddist því heim með störu í augum eftir nóttina, skreiddist upp í rúm og svaf til klukkan eitt.

Þegar heim var komið, var ljóst að ekkert yrði úr göngu á Akrafjallið. Þórður og Sigrún voru að gæta ungbarna, Kjói að faðma Gustavsberg, Guðrún Vala nýkomin heim frá útlöndum og Guðrún Helga þögul sem gröfin. Kaffiilmurinn úr eldhúsi Himnaríkis á Skaganum nægði ekki einu sinni til að vekja neinn göngugarp til lífsins og því var göngu dagsins aflýst.

Mér finnast þetta slæm tíðindi. Það stefnir í að gönguklúbburinn verði bara ég ein og það stefnir í að ég verði ein eftir á göngu með sjálfri mér. Stjórnarformaðurinn orðinn afhuga göngum og Þórður sjóari á leið til sjós, en hin í tímahraki. Ætla þau virkilega að gerast svo kaldlynd að skilja mig eina eftir með Giljagaur og Gilitrutt?

sunnudagur, september 03, 2006

3. september 2006 – Um fíkniefnamál og fótbolta

Það var sagt frá því í fréttum Ríkissjónvarpsins, að ópíumrækt hefði stóraukist í Afganistan frá falli talibanastjórnarinnar þar í landi. Hún hefði aldrei verið meiri en nú og framleiðslan aukist um 59% síðan í fyrra. Það þarf víst ekki að koma neinum á óvart þegar haft er í huga að nú er komið á viðskiptafrelsi þar í landi og lögmál framboðs og eftirspurnar tekin við af trúnni á Allah. Þannig hvatti umboðsmaður Sameinuðu þjóðanna til þess að hundrað mestu ópíumframleiðendurnir og fíknaefnasalarnir verði handteknir og dregnir fyrir dómara en eignir þeirra gerðar upptækar og dreift meðal fátækra öryrkja. Síðan var klykkt út með að ópíumræktin væri mest á þeim svæðum sem talíbanar ráða.

Skrýtið. Ef mig misminnir ekki, þá var bann við ópíumrækt í tíð ógnarstjórnar talíbana og því var ópíumrækt í lágmarki er þeir voru hraktir frá völdum í stórum hluta landsins. Ef þeir eru trúir sjálfum sér, fara þeir varla að leyfa ópíumrækt núna eftir að þeir hafa verið hraktir frá völdum. Það er svo aftur önnur saga, að samkvæmt sömu frétt, ríkja talíbanar enn í hluta Afganistan eftir fjögurra ára hersetu Bandaríkjanna og fylgifiska þeirra í landinu. Þótt mannréttindafyrirlitning talíbana hafi verið algjör á þeim árum sem þeir voru við völd í stærstum hluta Afganistan, held ég að kalla þurfi aðra til ábyrgðar fyrir hinni stórauknu framleiðslu á opíum og heróíni í Afganistan.

-----oOo-----

Fréttir bárust af því í gær að tveir refsifangar hafi verið leystir úr gæsluvarðhaldi vegna einhvers fíknaefnamáls innan veggja fangelsins á Litla-Hrauni. Ég fór að velta því fyrir mér hvort ekki beri að bæta þeim dögum sem þeir sátu í gæsluvarðhaldi, við refsitímann þeirra á Litla-Hrauni?

-----oOo-----

Ekki blæs byrlega fyrir hetjunum okkar í Halifaxhreppi. Ólympíuhugsunin hefur verið í hávegum höfð frá því ég fór í opinbera heimsókn til liðsins í júlí og hafa þær verið iðnar við að sýna andstæðingunum kurteisi og gott viðmót. Í gær töpuðu þær fyrir Félagi eldri borgara með einu marki og sitja nú í þægilegu 19. sæti kvenfélagsdeildarinnar eftir sex leiki og hafa mátt muna fífil sinn fegri. Þá er nú staðan betri hjá hinu liðinu Sameiningu mannshestanna, en þeir eru með fullt hús stiga eftir fyrstu sex leiki haustsins.

laugardagur, september 02, 2006

2. september 2006 – Davíð og félagar

Á föstudagsmorguninn sendi Davíð sjálfur út boð sín til þjóðarinnar. Ég skal játa að ég heyrði ekki viðtalið fyrr en um kvöldið, en heyrði á tal manna sem lýstu því sem slæmu geðvonskukasti og að Davíð hefði aukið á grunsemdirnar í stað þess að takast að eyða umræðunni um gæði Kárahnjúkastíflu. Hvað er líka maðurinn að blanda sér í pólitík nú þegar hann er hættur afskiptum af pólitík? Ég reyndi að hlusta á viðtalið eftir að ég kom heim af vaktinni og þá var það alls ekki eins slæmt og ég hafði óttast. Þetta var reyndar algjör drottningarviðtal við þreyttan mann sem er enn á móti evrunni og Evrópusambandinu, en svokallað geðvonskukast var stórýkt.

Í framhaldi af ímynduðu geðvonskukasti Davíðs, fór Steingrímur Joð að biðla til Samfylkingar og Frjálslyndra í von um einhverskonar kosningabandalag. Ég fór að velta slíku fyrir mér. Nú er embættismannakerfið orðið gegnsýrt af íhaldi í flestum stöðum, öðrum en þeim sem Framsókn hefur náð undir sig. Dómskerfið er með hægrislagsíðu og nú einnig Seðlabankinn. Hvernig ætli Sollu og Steingrími gangi að kljást við þessa sömu embættismenn sem eru að stórum hluta flokksbundnir Sjálfstæðismenn. Mér líst illa á það. Er ekki kominn tími til að ráða embættismenn útfrá faglegum forsendum eingöngu? Ef ekki, hvort ekki ætti að binda ráðningu við mun styttri tíma en nú er?

-----oOo-----

Í morgun heyrði ég af alvarlegu atviki í umferðinni nú í sumar, en þar sem allt fór vel að lokum. Tveir vinnufélagar mínir höfðu verið við mælingar í Borgarfirði og voru á heimleið á vinnubílnum. Þar sem þeir voru á ferð undir Hafnarfjalli, fór jeppi yfir á rangan vegarhelming og stefndi beint á þá og báðir bílar væntanlega á góðri ferð enda beinn og breiður vegur og hámarkshraðinn 90 km á klukkustund.

Sá sem ók vinnubílnum er ákaflega hæglátur piltur og lét þetta ekki slá sig útaf laginu, heldur fór eins langt út í kantinn og hægt var um leið og hann snarhægði á bílnum. Jeppinn náði þó að slíta hliðarspegil af vinnubílnum, en við það vaknaði bílstjóri jeppans og náði að stöðva án þess að slys yrði.

Að sögn var bílstjóri jeppans alveg miður sín eftir þetta atvik, en hann var með tvö börn í bílnum. Það væri gaman að vita hvort gerð hafi verið úttekt á atvikum sem þessu, hversu algeng þau eru og eins hversu mörg dauðaslys hafi orðið vegna þess að bílstjórar sofna undir stýri?

föstudagur, september 01, 2006

1. september 2006 - Don Kíkótí og Kárahnjúkar

Í gær sendi Don Kíkótí, afsakið Steingrímur Jóhann Sigfússon opið bréf til útvarpsstjóra vegna þess að þáttarstjórnandi í Kastljósi Sjónvarpsins hætti við að taka hann í viðtal. Ekki dytti mér til hugar að fara í fýlu vegna þess að sjónvarpið neitaði mér um að birtast á skjánum. Þvert á móti hefur komið fyrir að ég hafi hafnað boði um þátttöku í einstöku sjónvarpsþáttum.

Stundum hefur mér fundist ég ekki hafa neitt að segja í þessum óskuðu sjónvarpsþáttum. Mér fannst óþarfi að segja sömu söguna einu sinni enn, sögu sem ég var búin að tyggja í fólk í fleiri sjónvarpsþáttum á undan sem og í blaðaviðtölum. Því taldi ég best að hægja á ferðinni og afþakka frekari boð um viðtöl að sinni. Þetta skilur ekki Don Kíkótí, afsakið Steingrímur, eða þá að hann telur að gömul útslitin plata sé aldrei of oft kveðin og vill halda áfram að óska sér þess að Kárahnjúkastífla muni bresta.

Ég hefði reyndar viljað losna við bæði Don Kíkóti, afsakið Steingrím og Valgerði úr þessum sjónvarpsþætti. Það tókst ekki og því valdi ég að gera annað en að horfa á sjónvarp þetta kvöld. Þetta þras um Kárahnjúkastíflu er eins og að þrasa um keisarans skegg og verður endasleppt bull. Á endanum mun málið gleymast og þeir sem höfðu hæst um áhættuna, munu snúa sér að öðrum málum, en enginn mun kalla þá til ábyrgðar fyrir að hafa kostað þjóðina stórfé með innantómu hjali um ímyndað stíflurof.

Á sama tíma og Don Kíkótí, afsakið Steingrímur og Ögmundur Sanchez eru uppteknir af að berjast gegn Kárahnjúkastíflu rétt eins og félagar þeirra börðust gegn vindmyllum fyrr á öldum er verið að brugga launráð á stjórnarheimilinu. Björn Bjarnason ætlar sér að koma á leyniþjónustu undir því yfirskyni að hann sé að berjast gegn fíkniefnum. Þá heyrist ekkert í Steingrími og Ögmundi því þeir eyddu öllu púðrinu í vindmyllur og eru dauðuppgefnir.

Ég óttast þessa leyniþjónustu Björns Bjarnasonar. Ekki vegna þess að ég hafi neitt á samviskunni, heldur vegna þess að rétt eins og CIA misnotaði aðstöðu sína í Bandaríkjunum og að Stasi misnotaði aðstöðu sína í Austur-Þýskalandi, þá verður þessi leyniþjónusta notuð til að stunda persónunjósnir og að koma höggi á pólitíska andstæðinga. Því verður að berjast gegn henni með öllum tiltækum ráðum. Ríksivaldið hefur þegar fært sig út á ysta kant opinberrar valdníðslu. Það að kalla sakleysingja á borð við Geir Jón Þórisson til ábyrgðar fyrir nauðsyn á persónunjósnunum, verður einungis honum sjálfum til minnkunar.

Slíka nauðgun á persónufrelsinu sem Björn Bjarnason boðar, má aldrei í lög leiða á Íslandi. Það verður að berjast gegn slíku með öllum tiltækum ráðum og koma í veg fyrir það ofstæki og lögregluríki sem slík leyniþjónusta leiðir af sér.

-----oOo-----

Ég heyrði í útvarpinu að Björn Bjarnason vildi sitja eitt kjörtímabil til viðbótar á Alþingi. Mér þykir það miður. Slík rödd fortíðar og kaldastríðshugsunar hefði átt að vera útdauð fyrir löngu og persónan sjálf best geymd við hannyrðir í félagsstarfi eldri borgara. Þar er minnst hættan á að hann geri eitthvað illt af sér.

-----oOo-----

Þá er sælan farin fyrir bí. Eftir að hafa fengið yfir 300 heimsóknir á dag þrjá daga í röð, sá fólk að ekki væri von á Guðrúnu Völu á þessari rás og gafst upp. Um leið féll lesendatalan niður í 225.