fimmtudagur, janúar 11, 2007

11. janúar 2007 – Af Sólveigu og stöllum hennar

Undanfarna daga hafa birst myndir í fjölmiðlum af olíuprinsessunni Sólveigu og stöllum hennar þremur, þeim Kolbrúnu, Rannveigu og Arnheiði þar sem þær heilluðu arabíska prinsa upp úr skónum. Þykist ég vita að þeir hafi orðið stórhrifnir af hinum íslensku hefðarfrúm og efa ég ekki að þeir muni, ekki aðeins kjósa Ísland til setu í Öruyggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009 – 2011, heldur og afnema skyldu arabískra kvenna til að hylja líkama sinn frá toppi til táar, gefa þeim kost á að þreyta ökupróf og jafnvel leyfa þeim að kjósa, því mikill er máttur íslenskra þingkvenna í Saudi-Arabíu.

Næst vonast ég til að íslensku þingkonurnar fjórar heilli Robert Mugabe upp úr skónum og vart trúi ég að hann muni verða þeim neikvæðari en hinn arabíski kollegi hans sem löngum var frægur um allan heim fyrir kvenfyrirlitningu sína áður en hann fékk hin fögru fljóð í heimsókn til sín. Í framhaldinu þarf svo að heilla Kim Il Sung upp úr skónum og vart mun Ali Khameini í Íran hafna boði þeirra um að styðja Ísland til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, ekki frekar en Islam Karimov í Uzbekistan og Omar Bashir í Súdan.

Ég efa það ekki að þær stöllur, Sólveig, Kolbrún, Rannveig og Arnbjörg muni valda straumhvörfum í friðarmálum þessa heims og að verstu einræðisherrar heimsins muni falla að fótum þeirra og falla í faðma hverjir við aðra. Eftir það ættu friðarverðlaun Nóbels að vera nánast í höndum Sólveigar Pétursdóttur. Hér eru svo nokkur ríki til viðbótar sem eru verð ljúfrar heimsóknar í krafti friðar.

Svo má velta fyrir sér spurningunni, hvað Ísland á að gera í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar haft er í huga að landið hefur sjaldan getað lagt fram sjálfstæðar ályktanir, heldur valið að fylgja Bandaríkjum Norður-Ameríku í flestum málum?

Svo er ein spurning til viðbótar: Hvar var Framsóknarmaddaman á meðan hinni opinberu heimsókn stóð til Saudi-Arabíu?

-----oOo-----

Ég er í hópi mikils fjölda fólks sem fylgist með spurningakeppninni Gettu betur af athygli, allt frá upphafskeppnunum í útvarpi til loka. Stöku sinnum koma ungir drengir inn í keppnina sem virðast ekki hafa áhuga á henni og reyna að snúa útúr spurningunum og eru yfirleitt sendir heim eftir fyrstu umferð. Þegar haft er í huga að stór hluti þjóðarinnar hlustar á þessa drengi svara auðveldustu spurningum út í hött, er eiginlega merkilegt að skólayfirvöld í viðkomandi skólum skuli yfirleitt samþykkja þátttöku nemenda sinna í spurningakeppninni, því þeir eru ekki aðeins sjálfum sér til minnkunar, heldur og samnemendum sínum og skóla.

-----oOo-----

Loks hvet ég alla friðarsinna til að mæta á Lækjartorg klukkan 17.00 á fimmtudag, en þar mun Íslandsdeild Amnesty International vera með uppákomu í tilefni af fimm ára afmæli fangabúðanna í Guantánamo.


0 ummæli:







Skrifa ummæli