föstudagur, janúar 19, 2007

19. janúar 2007 – Mikið eiga Reykvíkingar og nærsveitungar gott .....

... að eiga þessa líka fínu hitaveitu á Þorranum.

Það var ekki fyrr en 1930 sem Reykvíkingar byrjuðu þann áhætturekstur að láta senda sér heita vatnið heim í stað þess að vitja þess inn í Laugardal, þriggja kílómetra leið úr kvosinni sem gengin hafði verið í öllum veðrum í þúsund ár. Eitthvað þótti hin nýja hitaveita áhættusöm og vafasöm. Þó leið ekki langur tími frá þeim tíma er Laugaveitan tók til starfa í nóvember 1930 að hún varð fullnýtt og fólk krafðist meira heits vatns, borað var í Mosfellssveit og Reykjaveitan byggð.

Presturinn í Lágafellssókn kom þar að sem unnið var að borunum á Reykjasvæðinu og áminnti bormenn að fara varlega. Eftir stóðu menn og veltu fyrir sér hvort þeir ættu almennt að fara varlega við vinnu sína (öryggiseftirlitið) eða þá að gæta þess að bora ekki í skallann á þeim gamla sem sagt er að búi þarna niðri.

Áfram var borað og djúpborað og dælt og sífellt var hitaveitusvæðið stækkað og byggðar fleiri dælustöðvar, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Kjalarnes, Bessastaðahreppur. Brátt voru heitu svæðin í Reykjavík og Mosfellssveit fullnýtt og vantaði meira heitt vatn. Þá fóru Nesjavellir í gang 1990 og hætt að kynda með olíu þá daga sem heita vatnið dugði ekki öllum. Það var samt haldið áfram að byggja og sífellt þurfti að dæla meiru og meiru vatni úr Þingvallavatni, hita á Nesjavöllum og dæla áfram til Reykjavíkur. Það líður ekki langur tími uns þarf að kynda að nýju köldustu vetrardagana þar til áætlanir um heitavatnsframleiðslu frá Hellisheiðarvirkjun verða að veruleika.

Strax á unglingsárunum heyrði ég talað um Hitaveituna sem fyrstu stóriðju Íslendinga, stóriðju sem var að öllu leyti í eigu Íslendinga sjálfra. Nú er ég beinn þátttakandi í ævintýrinu sem eg fylgdist með úr návígi á æskuárunum í Mosfellsdalnum. Ég ætla ekki að leggja þá áþján á þá sem finnst hitaveitan of dýr, að reikna út hver hitunarkostnaður heimilisins hefði orðið með olíukyndingu.

Hér sit ég og dáist að nýjustu tölum úr tölvunum hjá mér sem sýna, að meðalrennsli á klukkustund síðastliðinn miðvikudag, allan afmælisdag borgarstjórans fyrrverandi og núverandi Seðlabankastjóra, var rúmlega 13600 m³/klst og örugglega nýtt heildarmet, þótt vissulega hafi einstöku klukkustundargildi og augnabliksgildi verið hærri áður. Þessar tölur segja okkur að við höfum dælt samtals 327000 tonnum af heitu vatni inn á ofna Reykvíkinga og nágranna þann sólarhringinn. Þessum tölum ber þó að taka með fyrirvara, enda einungis teknar af grófri mælingu misviturrar tölvu, en ekki samkvæmt nákvæmustu mælitækni og enn síður vottaðar af bókurum á efri hæðum. Að sjálfsögðu stóð ég pliktina hluta þessa ágæta sólarhrings og það var eins gott að halda sér vakandi þá næturvaktina.

Með þessum fallegu tölum kveðjum við Ýlir, fögnum Þorranum og óskum bændum jafnt sem húsbændum til hamingju með daginn.


0 ummæli:







Skrifa ummæli