Það voru tveir gamlir glæponar hengdir í Írak á mánudagsmorguninn og er það vissulega sorgarfrétt. Fréttirnar af hengingu hálfbróður Saddams og félaga hans gamals dómara, hurfu þó fljótt eftir hádegið er fjölmiðlarnir fengu nýtt og ferskt efni til að smjatta á, misnotkun á fjármunum Byrgisins og fólk benti á Guðmund Jónsson og syndir hans. Aftur eru allir tilbúnir að hengja manninn andlega. Nú er hann orðinn eitt versta úrþvætti sem fyrirfinnst.
Ég ætla mér ekki að reyna að verja gerðir Guðmundar Jónssonar. Það má vel vera að hann hafi fallið í freistingu og notað stóran hluta af fjármunum Byrgisins til eigin nota. Það má einnig vel vera að hann hafi misnotað vald sitt og komið fram vilja sínum gagnvart ungum stúlkum og ég efa ekki að hann sé háttsettur meðlimur í sértrúarsöfnuði og líti á sig sem fulltrúa almættisins á jörðinni. En ég vil ekki þurfa að velta mér mikið uppúr þessum syndum mannsins og vil að dómstólarnir fái að segja sitt áður en ég geng út og dæmi hann.
Á móti ásökunum á hendur Guðmundi spyr ég:
Hversu mörgum manneskjum hefur Guðmundur Jónsson bjargað frá að krókna í hel í einhverju skúmaskoti undir tröppu niðrí bæ eða undir tré í Hljómskálagarðinum? Hversu mörgum “glötuðum” sálum hefur hann hjálpað til að rata inn á veg dyggðarinnar og gert að nýtum þjóðfélagsþegnum með hjálp trúarinnar? Hversu mörgum manneskjum hefur hann bjargað frá að fyrirfara sér í eymd sinni og gert að betri manneskjum?
Ekki spyrja mig. Ég veit það ekki. En ég held að við verðum aðeins að hugsa um þetta líka, áður en við dæmum hann.
mánudagur, janúar 15, 2007
16. janúar 2007 - Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 23:52
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli