Pistill minn um Árna Johnsen í gær virðist hafa vakið viðbrögð hjá nokkrum lesendum þessarar síðu og vil ég því svara aðeins gagnrýni þeirri sem kom fram á athugasemdum:
Fyrir það fyrsta, þá sé ég enga ástæðu til að koma í veg þingsetu þótt einhver sé á sakaskrá. Lögin eru nokkuð skýr í þeim efnum og minniháttar lögbrot valda ekki missi kjörgengis. Brot Árna var hinsvegar með dómi, rétt yfir þeim mörkum sem oft er miðað við þegar rætt er um missi kjörgengis. (hreint sakavottorð er ekki rétta orðið, enda lentu minnstu afbrot á sakaskrá fyrr á árum og minnist ég þess er tekið var fram í sakavottorði ónefnds manns að hann hefði fengið 10 krónu sekt fyrir að hjóla á ljóslausu reiðhjóli, sjá hæstaréttardóm yfir áhöfn mb Ásmundar 1968). Um leið verð ég að játa, að mér fannst hæstaréttardómurinn yfir Árna vera í harðasta lagi, en það er bara mín skoðun. Því fannst mér ekkert að því þótt hann fengi uppreist æru síðastliðið vor. Þar með var málinu lokið af minni hálfu og ekkert frekar um það að segja.
Síðastliðið haust gekk Árni hinsvegar sjálfur framfyrir skjöldu í sjónvarpsviðtali og fór að tengja afbrot sín sem hann hafði sannanlega setið af sér, við tæknileg mistök. Þetta skeði í kjölfar þess að ísraelski herinn tilkynnti að um tæknileg mistök hefði verið að ræða, er hann skaut eldflaug á hús þar sem á annan tug saklausra borgara fórst. Þetta voru tæknileg mistök vegna þess að ísraelski herinn hafði ætlað að drepa annað fólk en það sem varð fyrir árásinni. Með því að líkja broti sínu við brot Ísraelsmanna var Árni í reynd að segja að hann hefði framið brot sín með einbeittum brotavilja, en þau hefðu bara ekki átt að uppgötvast.
Með orðum sínum í Blaðinu á laugardag, var Árni Johnsen að kasta fram orðum sem má auðveldlega túlka sem að hann hefði hugsað: “Nú er búið að fyrirgefa mér syndir mínar og ég búinn að vera heiðarlegur nógu lengi. Núna má ég byrja að brjóta af mér aftur.” Það má svo spyrja sig þess hvort slíkur huugsuður eigi erindi inn á Alþingi, eða hvort hann þurfi ekki fyrst að sitja kúrs í réttarheimspeki og halda sig fjarri kosningabaráttunni í vor til að valda flokknum sínum sem minnstu tjóni með ótímabærum orðatiltækjum?
Sjálf vil ég að vinstri flokkarnir vinni kosningarnar á málefnalegum grunni, en ekki ótímabærum yfirlýsingum Árna Johnsen, en ég viðurkenni um leið að orð hans hjálpa okkur til að fella ríkisstjórnina.
mánudagur, janúar 29, 2007
29. janúar 2007 - Enn af Árna Johnsen
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:13
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli