Mér hefur löngum þótt Ómar Ragnarsson vera hinn vænsti maður. Ég er ekki ein um þessa tilfinningu, því ég held að allri íslensku þjóðinni þyki ákaflega vænt um hann. Ómari er líka margt til lista lagt, skemmtilegur myndatökumaður, flugmaður, fréttamaður, rallíkappi, fjölskyldufaðir, söngvari og skemmtikraftur af Guðsnáð. Sjálf kynntist ég hæfileikum Ómars 1959 eða 1960 er hann söng Botníuvísur af slíkri innlifun að sérhvert barn í Mosfellssveitinni tók eftir og lét sig dreyma um stóra Fordbifreið.
Stundum fær Ómar einhverja hugdettu og hrífur stóran hluta þjóðarinnar með sér og skiptir þá engu hversu góð eða arfavitlaus hugmyndin er, hann fær fólkið með sér. Fræg var hugmynd hans nokkrum dögum áður en byrjað var á að fylla Hálslón, um að sleppa því að fylla það og nota Kárahnjúkastíflu sem minnismerki um heimsku mannanna. Hann hreif þúsundir með sér, jafnvel tugi þúsunda, sem fæstir gerðu sér grein fyrir því að með því að stoppa framkvæmdina á þessu stigi, hefði það kostað íslensku þjóðina öll útflutningsverðmæti sjávarafurða í tvö til þrjú ár og kreppu af því tagi sem yrði einungis jafnað við kreppuna miklu í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöld. En hugmyndin var skemmtileg engu að síður.
Nú hefur Ómar farið gegn eigin sannfæringu í náttúruvernd og vill nú endurvekja rúntinn og breyta Austurstræti í tvístefnuakstursgötu. Hugmynd Ómars er mér ný, því ég man aldrei eftir Austurstræti sem tvístefnu, en það er ekkert að marka. Ómar er mörgum árum eldri en ég og kannski var tvístefna í Austurstræti þegar hann var ungur. Gömlu áttagata tryllitækin sem óku rúntinn í gamla daga eru flest horfin (sjálf ók ég rúntinn á Skóda Oktavia árgerð 1964 fyrsta árið eftir að ég fékk bílprófið 1968 og fer engum sögum af veiðinni). Verði hugmynd hans að veruleika, verðum við að láta okkur nægja að horfa á stóra monsterjeppa mætast í örmjórri götunni og er mér til efs að mikið pláss verði eftir fyrir gangstéttir og mannfólkið.
Ég skrapp á fund til Tórínó á haustdögum. Þegar fundarhöldum lauk um hádegi á sunnudegi fengum við okkur gönguferð um miðborgina eftir að hafa vitjað líkklæða Krists í Jóhannesardómkirkjunni í Tórínó. Það var ekki einn einasti bíll á ferð í miðbænum. Allsstaðar var gangandi fólk á ferð og að leik. Þetta var okkur framandi og við eftirgrennslan var okkur tjáð að akstur einkabifreiða væri bannaður í miðborginni á sunnudögum. Hvenær skyldi Ómar koma með slíka hugmynd fyrir Reykjavík?
http://public.fotki.com/annakk/43-torino---112006/
Ég er búin að reka Ómar Ragnarsson úr frændsemi við mig. Ekki var það vegna illinda í hans garð eða hans sérstæðu náttúruverndarsjónarmiða, heldur hvarf hann úr skyldmennahópnum við leiðréttingu á villu ásamt með Björgvin Halldórssyni frænda sínum. Einnig fékk fjöldi annarra valinkunnra heiðursmanna að fjúka úr ætt við mig, Björn Ingi, Ágúst Ólafur, Steinn Ármann, en einnig skemmtilegir íþróttamenn hugans eins og Friðrik Ólafsson og Guðmundur G. Þórarinsson. Mér þykir hið síðastnefnda miður, en rétt skal vera rétt.
-----oOo-----
Ég var búin að skrifa færslu sem hét Til hamingju Ísland. Ég hætti við að birta hana.
miðvikudagur, janúar 31, 2007
31. janúar 2007 - Ómar Ragnarsson
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:01
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli