Um daginn var ég að ræða um sjómannslíf við konu sem vinnu hjá sama fyrirtæki og ég og henni hryllti við er ég nefndi orðið kojur. Orðið koja hefur nefnilega löngum verið tengt við þrengsli og sjómennsku eða þá börn og þrengsli á heimilum og þykir bera vott um fátækt. Ég sé ekki ástæðu til að rengja þessa skoðun hennar, enda sjálf af barnmörgu heimili þar sem kojur þóttu jafnsjálfsagðar og allur annar nauðsynlegur húsbúnaður. Þá má ekki gleyma að kojur sjást enn á mörgum heimilum og þykja þörf og eðlileg þar sem börnin eru fleiri en eitt og íbúðin lítil.
Ég benti konunni á að lesa fróðlega grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 1947 og fjallaði um komu hins nýja og glæsilega nýsköpunartogara Ingólfs Arnarsonar til Reykjavíkur. Þar birtist lýsing á flottheitunum, rituð af Gísla Jónssyni vélstjóra og alþingismanni og segir þar meðal annars:
Íbúðir skipverja eru sem hjer segir: Í stafni skipsins eru íbúðir og hvílur á tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Á neðri hæðinni er klefi fyrir 16 menn og er það rúm mun stærra en áður var í eldri skipum, ætlað 24 mönnum. Á efri hæð er klefi fyrir 8 menn. En þess utan er þar setustofa sameiginleg fyrir hásetana, útbúin með borðum og bekkjum. Á þennan hátt geta þeir, sem frí eiga frá störfum, hvílt sig í næði, án þess að vera truflaðir af umgangi þeirra, sem við störf eru. Hverri hvílu fylgir sérstakur geymsluskápur fyrir föt o. fl. og setubekkir eru meðfram öllum hvílum. Aðeins tvær hvílur eru í hæðinni, í stað þriggja í gömlu skipunum og því bæði loftrými og gólfflötur meiri fyrir hvern mann en áður þekktist.
Út frá setustofunni og innangengt úr henni er baðherbergi og hreinlætisklefi fyrir skipverja, svo er sjerstakur klefi til að þurka og geyma í yfirhafnir og hlífar skipverja. Þar eru og tvö vatnssalerni.
Fyrir þá sem ekki þekkja til gömlu nýsköpunartogaranna, þá á þessi lýsing við um flest þeirra 47 skipa sem smíðuð voru fyrir Íslendinga eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Einasti lúxusinn umfram þann sem hér var lýst, var að á mörgum skipanna var neðri lúkarnum skipt niður í þrjá klefa í stað eins fyrir 16 menn.
Ástand mála í íbúðum skipverja lagaðist mikið á sjötta og sjöunda áratugnum og jafnframt fækkaði í hverjum klefa. Brátt taldist eðlilegt að ekki væri nema einn til tveir menn í hverju herbergi, en oft þóttu þau í þrengra lagi hjá undirmönnum til sjós. Ég minnist þess einhverju sinni um borð í Bakkafossi þar sem ég sigldi sem næstráðandi og leysti yfirvélstjórann af í fríum, að ég hafði yfir að ráða þægilegri íbúð um borð, setustofu, svefnherbergi og baði. Einhverju sinni, er bróðir minn árinu eldri en ég, sigldi með mér sem smyrjari, að við mældum gólfflöt vistarvera okkar. Útkoman var hræðileg fyrir bróður minn. Gólfflöturinn í herberginu hans var helmingi minni en.............gólfið á baðherberginu hjá mér.
Besta lýsingin á stéttarskiptingunni um borð var þó lýst af öðrum smyrjara, góðum dreng sem nú er löngu fallinn frá á besta aldri. Einhverju sinni var hann að kvarta yfir þrengslunum í herberginu sínu um borð og ég svaraði að bragði að hann mætti eiginlega þakka fyrir að vera þó einn í herbergi sem væri munur frá því sem áður var. Svaraði hann þá með eftirfarandi orðum:
“Herbergið mitt er svo lítið að þarna er aðeins pláss fyrir einn mann og einn öl, en þá verður hann líka að halda á ölinu.”
http://timarit.is/mbl/?issueID=410499&pageSelected=1
sunnudagur, janúar 14, 2007
14. janúar 2007 – Þrengsli og Kojur!
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 01:18
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli