miðvikudagur, janúar 03, 2007

4. janúar 2006 - Reykingar mjög heilla rafta

Það hefur löngum verið áramótaheit hjá mörgum að hætta að reykja um áramót. Þetta er sennilega mest gefna áramótaheitið, en jafnframt það sem oftast bregst, því vitlausasti tíminn til að hætta að reykja eru áramót. Þá er fólk oft með áfengi um hönd og ekki eru timburmenn á nýársdag betri þegar hætt skal að reykja.

Ég var að hlusta á viðtal við Valgeir Skagfjörð í síðdegisútvarpi Rásar 2 á miðvikudag. Við hlustun á viðtalið sannfærðist ég enn frekar en fyrr af hverju ég gæti ekki hætt að reykja undir hans stjórn. Fordómarnir gegn reykingafólki voru slíkir, að mig fór ósjálfrátt að langa í sígarettu þótt ég hafi ekki reykt í sex ár. Svör Valgeirs við spurningum Freys Eyjólfssonar gengu út á heilaþvott og ég fór betur að skilja af hverju margt fólk sem ég þekki og hefur hætt að reykja “fyrirhafnarlaust” á námskeiðum Valgeirs og félaga hefur byrjað aftur fljótlega eftir að það hætti og námskeiðinu lauk. Vafalaust er fjöldi fólks sem hefur hætt að reykja undir hans stjórn og tekist það, en einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að þessi aðferð henti mér alls ekki.

Sjálf reykti ég í mörg ár og reykti mikið. Ég reykti ekki gegn vilja mínum af því að tóbaksframleiðendur hefðu sagt mér að það væri gott að reykja, heldur af því að mér þótti gott að reykja. Það þurfti enginn að hvetja mig til að halda áfram. Það gerði ég alveg ein og óstudd og byrjaði daginn á að fá mér bloss. Þegar ég reykti sem mest, vaknaði ég á nóttunni til að fá mér sígarettu.

Það var til fullt af fólki sem sagði mér að þetta væri óhollt og lífshættulegt og fólk sem fussaði og sveiaði, en það espaði mig bara upp í því að halda áfram að reykja. Ég gerði nokkrar tilraunir til að hætta og minnist þess að tvisvar þegar ég var nýhætt, hófst hatrammur áróður gegn reykingum í fjölmiðlum og ég snarféll. Svo lenti ég í því sem kalla má óvænta sjokkþerapíu og hætti. Þar þurfti engan Valgeir Skagfjörð til.

Að hætta að reykja var ekki auðvelt. Ég þurfti að undirbúa mig vel, velja heppilegan tíma þegar ég var í sumafríi og sá ekki fram á peningaleysi, síðan að beita öllum mínum vilja og ég notaði flest þau hjálparmeðul sem til voru á meðan ég var að komast yfir verstu hjallana. Þannig innbyrti ég meira nikótín fyrstu dagana eftir að ég hætti en ég fékk síðustu dagana sem ég reykti, tuggði 15 sterkar nikótíntyggjóplötur á dag, tvo sterkustu plástrana og saug nikótínsogrör á milli. Smám saman minnkaði ég notkun á nikótínlyfjum eftir því sem frá leið og um sex mánuðum eftir að ég drap í síðustu sígarettunni hætti ég notkun nikótínlyfja fyrir fullt og allt.

Ég þurfti engan Valgeir Skagfjörð né Þorgrím Þráinsson til að hjálpa mér að hætta. Það munaði litlu í eitt sinn að ég léti Þuríði Backmann skemma fyrir mér er hún var með leiðindaröfl í sjónvarpi gegn reykingum, en sem betur fer áttaði ég mig á því í tíma að ég væri að hætta fyrir mig en ekki fyrir Tóbaksvarnarnefnd.

Núna þarf ég bara að berjast gegn aukakílóum eftir hver áramót, enda smakkast maturinn sem og ölið miklu betur en það gerði á meðan ég reykti.

-----oOo-----

Reiður ungur maður var á undan mér að segja nokkur vel valin orð um íslensku krónuna. Greinilega frábær penni þarna á ferð.

http://blogdog.blog.is/blog/blogdog/entry/96900/?t=1167865928#comments


0 ummæli:







Skrifa ummæli