Sænski þáttastjórnandinn Robert Aschberg hélt því einu sinni fram í sjónvarpsþætti að það yrðu kynslóðaskipti við 38 ára aldur. Þegar fólk næði þessum aldri, klippti það sig, hætti að hafa gaman af rokktónlist og yrði leiðinlegt og menningarlegt.
Það er stundum talað um kynslóðabil. Gamla fólkið skilur ekki unga fólkið og unga fólkið er óalandi og óferjandi. Svo hefur það verið um aldir og er svo enn. Það rifjast upp fyrir mér er ég leysti af á rækjutogara austur á fjörðum fyrir nokkrum árum að stærstur hluti áhafnarinnar var fólk á miðjum aldri, en þó var einn piltur um tvítugt um borð. Það hafði borist myndbandsspóla um borð með skemmtiþáttum sem kallaðir voru Fóstbræður. Drengurinn hafði mikið gaman af bröndurunum í þáttunum og veltist um af hlátri er einn leikarinn fetti sig og bretti og geiflaði sig í framan. Öðrum í áhöfninni stökk ekki bros og höfðu lítið gaman af.
Á gamlárskvöld var enn eitt áramótaskaupið sýnt í sjónvarpinu. Mér skilst að sumir unglingar hafi haft mjög gaman af þessu áramótaskaupi, en mér stökk ekki bros. Ég var að vísu edrú, en ég hefi oft hlegið að Spaugstofunni þótt ég væri edrú. Eftir skaupið rölti ég niður um eina hæð í blokkinni og hóf að drekkja sorgum mínum yfir lélegu áramótaskaupi með nágrönnum mínum. Ég var sannfærð um að höfundar skaupsins þyrftu að flýja land eftir þessa áþján, en fékk svo að heyra að unga fólkið væri himinlifandi ánægt með þetta áramótaskaup.
Var þetta spurning um kynslóðabil?
-----oOo-----
Hinn geðþekki eftirlaunaþegi og meistari meistaranna, Michael Schumacher, er 38 ára í dag. Við sendum hamingjuóskir á elliheimilið og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni sem og ökuskírteininu mínu sem er fjórum dögum eldra en umræddur meistari.
-----oOo-----
Ég rakst á Heiðar snyrti suður á Keflavíkurflugvelli á þriðjudeginum. Það er sama hvað gengur á í lífi hans. Alltaf skal hann standa uppúr fjöldanum og brosa sínu fallega brosi.
miðvikudagur, janúar 03, 2007
3. janúar 2006 - Kynslóðabil áramótaskaups
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:12
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli