þriðjudagur, janúar 02, 2007

2. janúar 2006 - Völvuspá vélstýrunnar.

Á áramótum þykir við hæfi að kíkja í kristalskúlu eða rekja kattagarnir og lesa úr þeim hvað hið nýja ár hefur upp á að bjóða. Aðrir munu rýna í tarotspil, kaffibolla og hvað sem höndinni er næst. Sjálf hefi ég kosið að rýna í skítugt ölglas sem staðsett er hér á borðinu fyrir framan mig til minningar um nýársnótt.

Ölglasið fyllt.

Af pólitíkinni er það helst að ég spái því að haldnar verða alþingiskosningar í vor. Úrslitin munu koma fáum á óvart, nema þá helst að Framsóknarflokkurinn mun ekki þurrkast út af þingi vegna reglunnar “þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur”. Þessi úrslit verða flestum til sárrar skapraunar, ekki síst vegna þess að skoðanakannanir munu sýna algjört fylgishrun. Eftir kosningar mun Framsóknarflokkurinn gera allt sem honum er unnt til að fá áframhaldandi setu í ríkisstjórn og lofa upp á æru og trú, að hlýða stóra flokknum gegn veitingu örfárra bitlinga og nokkurra ráðherrastóla. Þá mun einhver þekktur fyrrverandi stjórnmálamaður látast á árinu úr elli og annar úr leiðindum, en Halldór Blöndal fær vinnu við hvalskurð.

Ölglasið fyllt aftur

Veðrið verður svipað og undanfarin ár. Það munu skiptast á skin og skúrir, hæglætisveður og hvassviðri. Það verður hugsanlega eitt eldgos á árinu, en þó ekki víst, en nokkrir vægir jarðskjálftakippir munu mælast í nágrenni við Grímsey.

Það verður fátt skemmtilegt í gangi í íþróttum. Michael Schumacher munu halda áfram að vera hættur mér til armæðu og mun áhorf mitt á Formúluna fara ört minnkandi. Þá mun Sameining Mannshestahrepps vinna sig upp um deild í vor, en öllu verr gengur hjá hetjunum hugprúðu í Halifaxhreppi sem munu enda um miðja kvenfélagsdeildina í vor.

Af skemmtanabransanum er það helst að Silvía Nótt mun ekki vinna Júróvisjón í vor

Ölglasið fyllt einu sinni enn..

Af persónulegum málum mun ég þurfa að fara þrisvar til útlanda á árinu, en mæta í fimm jarðarfarir. Þá verð ég rekin úr stjórn Ættfræðifélagsins í febrúar, en mun samt eignast tvær eða þrjár bækur á árinu. Þá mun ég ekki skipta um bíl á árinu, en glata aftur kílóunum sem ég öðlaðist eftir að ég hætti að ganga á fjöll í haust. Ég mun ekki gifta mig á árinu, en hugsanlega eignast fleiri barnabörn. Þá mun ég ekki ljúka ritun ævisögu minnar á árinu sem fyrir bragðið verður ekki metsölubók á árinu 2007.

Þetta verður semsagt ákaflega hefðbundið ár að sem flestu leyti.

Glasið tæmt.

Þessi birting var í boði Hæneken.


0 ummæli:







Skrifa ummæli