laugardagur, janúar 20, 2007

20. janúar 2007 - II - Vondulagakeppnin

Ég hefi löngum verið talin hafa lítið sem ekkert vit á tónlist. Þekking mín á fyrirbærinu miðast við það eitt að gera greinarmun á góðum lögum og lélegum lögum útfrá eigin smekk og þar með má setja endapunkt á þekkinguna. Eldri lög Bubba finnast mér góð, en nýrri lögin renna framhjá án þess að ég veiti þeim eftirtekt. Sömu sögu má segja um bresku Rollingana. Ég get með herkjum rifjað upp einstaka lag þeirra frá sjöunda áratugnum, en ekkert eftir það. Á þessu sannast af hverju ég er aldrei kölluð til að gefa álit mitt á tónlist.

Þegar talið berst að Júróvisjón sannast vanþekking mín enn betur á tónlist. Aldrei skulu lögin sem mér finnast góð vinna forkeppnina á Íslandi og iðulega einhver hræðilega misheppnuð lög send í keppnina. Það hefur að vísu einn kost með sér sem er sá að þegar íslensku keppendurnir eru reknir heim með skottið á milli lappanna get ég barið mér á brjóst og sagt:
“Sjáið þið bara, þetta lag átti aldrei að fara í keppnina. Lagið sem ég hélt með var miklu betra.”

Þegar ég drattaðist á fætur á laugardagsmorguninn og kveikti á útvarpinu, heyrði ég mér til hrellingar eitthvert það ömurlegasta lag, ef lag skyldi kalla, sem ég hafði heyrt svo mánuðum skipti. Ljóðlínan var eitthvert meinleysislegt ástarhjal og lagið slíkt að vonlaust virtist að halda laglínu. Lagið var einfaldlega svo afspyrnulélegt að ég fór að hlusta um leið og ég ákvað að nú væri forkeppni Júróvisjón komin í gang og fékk það svo staðfest þegar laginu lauk og þulurinn afkynnti það. Ég náði að hlusta á tvö lög til viðbótar fyrir hádegið, bæði léleg, en þó illskárri en hið fyrsta sem ég heyrði.

Má ég þá heldur biðja um Silvíu Nótt!


0 ummæli:







Skrifa ummæli