mánudagur, janúar 08, 2007

8. janúar 2007 – Það mætti hvessa aðeins með þessu

Fyrir allmörgum árum síðan starfaði gjaldkeri einn hjá gömlu Hitaveitunni og rétt eins og margir aðrir starfsmenn Hitaveitunnar og síðar Orkuveitunnar, lifði hann og hrærðist í vinnunni og tók starf sitt framyfir allt annað í lífinu. Einhverju sinni þegar miklar frosthörkur voru í Reykjavík, var hann á göngu í bænum og hitti einn kunningja sinn.
“Þið græðið vel núna hjá Hitaveitunni”, skaut kunninginn að honum háðslega.
“Ekki nóg, ekki nóg, það mætti hvessa aðeins meira með þessu”, svaraði gamli gjaldkerinn að bragði.

Þar sem ég rölti að heiman áleiðis á næturvaktina, fer ég að velta fyrir mér veðrinu. Það er nefnilega að hefjast gósentíð hjá okkur sem komum frá gömlu Hitaveitunni. Veðurspáin er yndisleg, tilhlökkunin mikil og vonir um að frostið verði sem mest. Ekki veit ég hvort met verði slegið í sölu á heitu vatni, en rétt eins og hjá Nielsen gamla gjaldkera, ræðst það af vindstyrknum auk frostsins. Um leið og hitastigið sígur niður fyrir rauða strikið og frostmark, verðum við um leið að gera viðeigandi ráðstafanir, auka dælingu, bæta við borholum í gangi og fylgjast betur með svo ekkert fari úrskeiðis.

Sú fyrirtíðarspenna sem leysist úr læðingi hjá okkur er við heyrum veðurspána, minnir dálítið á gamla sjómenn frá tímum nýsköpunartogaranna og landstímin hjá þeim. Tilhlökkunin var slík að koma í land og ná sér í bokku af brennivíni að sumir urðu ölvaðir af tilhlökkuninni einni saman og jafnvel þvoglumæltir á leiðinni inn Flóann. Á sama hátt kætumst við og brandararnir fljúga, sagðar velvaldar sögur af kuldabola og frá gömlum frosthörkum og allt andrúmsloftið verður sýnu léttara.

Svo rætist veðurspáin, spennan og athyglin í hámarki, einbeitingin á fullu og eftirlit allt til hins ítrasta á meðan frostið varir. Fáum við kannski tertu með kaffinu ef ný met verða sett í framleiðslu og sölu á heitu vatni? Kannski. Aldrei að vita. Að minnsta kosti verður þessa ekki vart í pyngjunum okkar.

Svo hlýnar á ný og lífið færist aftur í sitt fyrra horf.
Það hefði mátt hvessa aðeins meira með þessu.

-----oOo-----

Svo fær forsöngvarinn í stóru englasöngsveitinni hamingjuóskir með 72 ára afmælið.


0 ummæli:







Skrifa ummæli