Mér var boðið í samkvæmi á föstudagskvöldið. Slíkt þykir ekki alltaf umræðuefni, nema þá fyrir þá sök að ég fékk boðskort og sá sem skrifaður var fyrir boðskortinu var stjórnarformaður fyrirtækis, þar sem aðalstöðvarnar mega ekki lengur heita Royal Alfreð Hall. Hann er sjálfur nýkominn af sjúkrahúsi eftir að hafa brennt á sér afturendann.
Eins og sannri dramadrottningu sæmir, mætti ég of seint og var stjórnarformaðurinn hálfnaður með ræðu sína er ég læddist inn bakdyramegin, losaði mig við yfirhöfnina inná því allra helgasta og læddist inn í salinn og náði mér í drykk.
Þetta var gott samkvæmi. Hinn nýi stjórnarformaður veitti vel og að auki var samkvæmið á skikkanlegum tíma að kvöldi, en ekki eins og áður þegar nýárssamkvæmin voru haldin á milli 17.00 og 19.00 á laugardögum. Það var mikið skrafað og rætt um heimsins gagn og nauðsynjar og vandamálin leyst. Ónefndur vinnufélagi kom til mín og við leystum úr gömlum þrætumálum og kvöddumst sem vinir því til þess eru vinnusamkvæmi að leysa úr óleystum vandamálum á milli fólks. Þá hitti ég flesta gömlu vinnufélagana sem komnir eru á eftirlaun og eru enn á lífi og rifjaði upp kynnin af öðrum sem vinna hjá fyrirtækinu en fjarri aðalstöðvunum.
Þegar samkvæminu lauk ákvað ég að ganga heim. Úti á bílastæðunum var fljúgandi hált og erfitt að fóta sig. Í gegnum hugann fór ástandið á bílastæðunum við gömlu höfuðstöðvarnar, aðalstöðvar Hitaveitunnar við Grensásveg. Þar áttum við þann möguleika að skjóta inn heitu vatni inn á snjóbræðsluna. Því gekk sú saga af bílastæðunum að snjó leysti einum metra fyrir ofan jörð í verstu vetrarveðrum.
Heim komst ég óbrotin og sæmileg til heilsunnar.
laugardagur, janúar 13, 2007
13. janúar 2006 - Samkvæmi á Sviðastöðum
Birt af Anna Kristjánsdóttir kl. 00:04
Gerast áskrifandi að:
Comment Feed (RSS)
0 ummæli:
Skrifa ummæli