miðvikudagur, janúar 31, 2007

31. janúar 2007 - Ómar Ragnarsson

Mér hefur löngum þótt Ómar Ragnarsson vera hinn vænsti maður. Ég er ekki ein um þessa tilfinningu, því ég held að allri íslensku þjóðinni þyki ákaflega vænt um hann. Ómari er líka margt til lista lagt, skemmtilegur myndatökumaður, flugmaður, fréttamaður, rallíkappi, fjölskyldufaðir, söngvari og skemmtikraftur af Guðsnáð. Sjálf kynntist ég hæfileikum Ómars 1959 eða 1960 er hann söng Botníuvísur af slíkri innlifun að sérhvert barn í Mosfellssveitinni tók eftir og lét sig dreyma um stóra Fordbifreið.

Stundum fær Ómar einhverja hugdettu og hrífur stóran hluta þjóðarinnar með sér og skiptir þá engu hversu góð eða arfavitlaus hugmyndin er, hann fær fólkið með sér. Fræg var hugmynd hans nokkrum dögum áður en byrjað var á að fylla Hálslón, um að sleppa því að fylla það og nota Kárahnjúkastíflu sem minnismerki um heimsku mannanna. Hann hreif þúsundir með sér, jafnvel tugi þúsunda, sem fæstir gerðu sér grein fyrir því að með því að stoppa framkvæmdina á þessu stigi, hefði það kostað íslensku þjóðina öll útflutningsverðmæti sjávarafurða í tvö til þrjú ár og kreppu af því tagi sem yrði einungis jafnað við kreppuna miklu í Þýskalandi eftir fyrri heimsstyrjöld. En hugmyndin var skemmtileg engu að síður.

Nú hefur Ómar farið gegn eigin sannfæringu í náttúruvernd og vill nú endurvekja rúntinn og breyta Austurstræti í tvístefnuakstursgötu. Hugmynd Ómars er mér ný, því ég man aldrei eftir Austurstræti sem tvístefnu, en það er ekkert að marka. Ómar er mörgum árum eldri en ég og kannski var tvístefna í Austurstræti þegar hann var ungur. Gömlu áttagata tryllitækin sem óku rúntinn í gamla daga eru flest horfin (sjálf ók ég rúntinn á Skóda Oktavia árgerð 1964 fyrsta árið eftir að ég fékk bílprófið 1968 og fer engum sögum af veiðinni). Verði hugmynd hans að veruleika, verðum við að láta okkur nægja að horfa á stóra monsterjeppa mætast í örmjórri götunni og er mér til efs að mikið pláss verði eftir fyrir gangstéttir og mannfólkið.

Ég skrapp á fund til Tórínó á haustdögum. Þegar fundarhöldum lauk um hádegi á sunnudegi fengum við okkur gönguferð um miðborgina eftir að hafa vitjað líkklæða Krists í Jóhannesardómkirkjunni í Tórínó. Það var ekki einn einasti bíll á ferð í miðbænum. Allsstaðar var gangandi fólk á ferð og að leik. Þetta var okkur framandi og við eftirgrennslan var okkur tjáð að akstur einkabifreiða væri bannaður í miðborginni á sunnudögum. Hvenær skyldi Ómar koma með slíka hugmynd fyrir Reykjavík?

http://public.fotki.com/annakk/43-torino---112006/

Ég er búin að reka Ómar Ragnarsson úr frændsemi við mig. Ekki var það vegna illinda í hans garð eða hans sérstæðu náttúruverndarsjónarmiða, heldur hvarf hann úr skyldmennahópnum við leiðréttingu á villu ásamt með Björgvin Halldórssyni frænda sínum. Einnig fékk fjöldi annarra valinkunnra heiðursmanna að fjúka úr ætt við mig, Björn Ingi, Ágúst Ólafur, Steinn Ármann, en einnig skemmtilegir íþróttamenn hugans eins og Friðrik Ólafsson og Guðmundur G. Þórarinsson. Mér þykir hið síðastnefnda miður, en rétt skal vera rétt.

-----oOo-----

Ég var búin að skrifa færslu sem hét Til hamingju Ísland. Ég hætti við að birta hana.

þriðjudagur, janúar 30, 2007

30. janúar 2007 - II - Fer þessum ofbeldisleikjum ekki bráðum að ljúka?

Ég er farin að brjóta á hefðbundnum lífsgildum mínum fyrir vinsældir. Ég er hætt að þora að skrifa það sem mér liggur á hjarta til þess að fá fleiri lesendur að síðunni minni, í von um að hækka aðeins á vinsældarlista Moggabloggsins og lenda í náðinni hjá lesendum mínum. Vegna þessa hefi ég ekki skrifað neitt um ofbeldi það sem kallað er handbolti. Nú skal verða breyting þar á.

Enn einn handboltaleikurinn er í dag og vonandi sá síðasti í þetta sinn. Með þessum slagsmálum sem kallaðar eru handbolti er verið að hvetja sárasaklausa íslenska þjóð til að styðja ofbeldi og líkamsmeiðingar auk þess sem alið er á þjóðarrembindi og stuðningi við öfgaflokka sem berjast á móti fólki af öðrum menningarsamfélögum. Þegar mótinu lýkur, eru stórslasaðir handboltamennirnir fluttir heim með brotnar hnéskeljar, tognaða ökkla, slitin liðbönd og sauma hér og þar. Sumir ná sér aldrei aftur og eru nánast örkumla til lífstíðar. Sjálf þekki ég engan handboltmann sem er algjörlega laus við meiðsli til framtíðar (ég þekki mjög fáa).

Við höfum verið æst upp í hatri gegn Áströlum, Túnisbúum, Frökkum, Þjóðverjum, Pólverjum og nú síðast gegn frændum okkar sem héldu í okkur lífinu um aldir með því að losa okkur við illa lyktandi saltfiskinn í skiptum fyrir úrvals maðkað mjöl á spottprís.

Nei, það er löngu kominn tími til að hætta þessum látum, banna handbolta, friðmælast við þessar þjóðir og bjóða þeim í fallegan tangó eða vals. Síðan skulum við bjóða þessum sömu þjóðum að keppa við þær í skák og snóker og krullu og sýna þeim gott fordæmi í ólympískum anda, þ.e. að aðalmálið er ekki að vinna, heldur að vera með.

Sjáið bara fótboltann. Það hefur tekist ljómandi vel að iðka knattspyrnu í ólympískum anda þrátt fyrir þá staðreynd að Ísland hefur nákvæmlega jafnmarga leikmenn inni á vellinum og andstæðingarnir og eru samt í þægilegu hundraðasta sæti á styrkleikalista þjóðanna!

Rétt eins og ég hélt með þjálfaranum með flotta yfirvaraskeggið í leiknum í fyrradag, ætla ég að hafa slökkt á sjónvarpinu í dag og senda Dönum samúðarkveðjur vegna þeirrar smánar, að þurfa að spila á móti þessum slagsmálahundum norðan úr Dumbshafi.

Og hananú!

30. janúar 2007 - Svört leðurstígvél

“Hvaða númer notar þú af skóm?” spurði góð vinkona mín síðastliðið haust er ég var stödd hjá henni. Ég sagði henni það í forundran yfir óvæntri spurningunni.
“Fínt, ég á nefnilega ágæt leðurstígvél sem eru fullþröng á mig og datt í hug hvort þú vildir ekki eiga þau, ef þau passa á þig.”

Vinkonan sem er annáluð fyrir smekkvísi í fatavali og snyrtingu, fór nú og sótti svört fóðruð leðurstígvél af sígildu sniði frá finnskum gæðaframleiðanda inn í geymslu og afhenti mér. Og viti menn. Þau smellpössuðu á mig. Ég hafði sjálf tvisvar eignast brún vetrarstígvél frá sama framleiðanda og hafði af þeim góða reynslu, en síðari stígvélin eignaðist ég í lok síðustu aldar. Duga þau enn þótt ég hafi gengið í þeim á hverjum vetri eftir það og get vottað fyrir hverjum sem er um gæði þeirra og endingu.

Daginn eftir þurfti ég að skreppa bæjarleið og af því að ég var í dökkgráum buxum, var tilvalið að fara í nýfengin stígvélin sem pössuðu ágætlega við buxurnar. Þar sem ég var svo á göngu í bænum, fann ég skyndilega hvernig annar sólinn byrjaði að losna undan skónum. Mér tókst að ljúka erindum mínum og komst með herkjum heim án frekari erfiðleika og hékk þá sólinn enn við stígvélin á lýginni einni saman. Fór ég síðan með stígvélin til skósmiðs daginn eftir og lét gera við sólana.

Eftir þetta gekk allt betur. Stígvélin voru þétt að neðan og ég notaði þau talsvert í frostum vetrarins. Fljótlega fór þó eitt atriði að angra mig, en yfirleðrið tók sig til og fór að molna af leggjunum svo sást í fóðrið innanundir. Það sást reyndar ekkert á meðan ég var í buxum utanyfir, en brátt náði molnunin alla leið niður leggina og því fátt annað til ráða en að leggja stígvélunum og halda áfram að nota þau gömlu brúnu sem höfðu staðið vörð um fótaheilsu mína frá því á síðasta ári síðustu aldar.

Ég hefi ekki þorað að spyrja vinkonu mína að því hversu lengi stígvélin höfðu verið inni í skáp hjá henni, en þykist vita að þau hafi birst úr gleymskunni á síðasta ári er hún skipti um húsnæði.

-----oOo-----

Svo er Margrét Sverrisdóttir vafalaust velkomin í Samfylkinguna svo fremi að hún taki ekki Jón Magnússon með sér. Af öðrum pólitískum málum: Ég velti því fyrir mér hvort Ómar og Jón Baldvin ætli sér að stofna þriðja öldungaflokkinn?

mánudagur, janúar 29, 2007

29. janúar 2007 - II - Peningar fyrir markaskor

Sú frétt barst okkur aumum landslýð í kvöld að Eimskip og Magnús Þorsteinsson ætla að greiða milljón krónur til velferðarmála fyrir hvert mark sem Eiður Smári Guðjónsen skorar fyrir lið sitt sem er staðsett í Barþelóna suður á Spáni. Ekki finnst mér þetta mjög veglegt þegar haft er í huga að umræddur Eiður Smári er bara varamaður í liði sínu. Þetta er bara algjör nánasarháttur þegar haft er í huga hve Magnús Þorsteinsson á miklu fleiri milljónir en Ólafur Ólafsson.

Nær væri að greiða milljónina fyrir hvert það mark sem markaskorarinn Stuart Rudd hjá spútnikliðinu Sameiningu Mannshestahrepps (United of Manchester) skorar, en hann hefur þegar skorað 27 mörk í þeim 25 leikjum sem liðið hefur leikið í efstu Vestfjarðadeildinni í Englandi og á félagið enn eftir 17 leiki fyrir vorið.

Ef þetta þykir ekki nógu þjóðlegt, má auðvitað beina peningunum til félaga innanlands og veit ég að Björgólfur mun ekki hafa neitt á móti slíkum stuðningi við KR. Ekki ég heldur.

29. janúar 2007 - Enn af Árna Johnsen

Pistill minn um Árna Johnsen í gær virðist hafa vakið viðbrögð hjá nokkrum lesendum þessarar síðu og vil ég því svara aðeins gagnrýni þeirri sem kom fram á athugasemdum:

Fyrir það fyrsta, þá sé ég enga ástæðu til að koma í veg þingsetu þótt einhver sé á sakaskrá. Lögin eru nokkuð skýr í þeim efnum og minniháttar lögbrot valda ekki missi kjörgengis. Brot Árna var hinsvegar með dómi, rétt yfir þeim mörkum sem oft er miðað við þegar rætt er um missi kjörgengis. (hreint sakavottorð er ekki rétta orðið, enda lentu minnstu afbrot á sakaskrá fyrr á árum og minnist ég þess er tekið var fram í sakavottorði ónefnds manns að hann hefði fengið 10 krónu sekt fyrir að hjóla á ljóslausu reiðhjóli, sjá hæstaréttardóm yfir áhöfn mb Ásmundar 1968). Um leið verð ég að játa, að mér fannst hæstaréttardómurinn yfir Árna vera í harðasta lagi, en það er bara mín skoðun. Því fannst mér ekkert að því þótt hann fengi uppreist æru síðastliðið vor. Þar með var málinu lokið af minni hálfu og ekkert frekar um það að segja.

Síðastliðið haust gekk Árni hinsvegar sjálfur framfyrir skjöldu í sjónvarpsviðtali og fór að tengja afbrot sín sem hann hafði sannanlega setið af sér, við tæknileg mistök. Þetta skeði í kjölfar þess að ísraelski herinn tilkynnti að um tæknileg mistök hefði verið að ræða, er hann skaut eldflaug á hús þar sem á annan tug saklausra borgara fórst. Þetta voru tæknileg mistök vegna þess að ísraelski herinn hafði ætlað að drepa annað fólk en það sem varð fyrir árásinni. Með því að líkja broti sínu við brot Ísraelsmanna var Árni í reynd að segja að hann hefði framið brot sín með einbeittum brotavilja, en þau hefðu bara ekki átt að uppgötvast.

Með orðum sínum í Blaðinu á laugardag, var Árni Johnsen að kasta fram orðum sem má auðveldlega túlka sem að hann hefði hugsað: “Nú er búið að fyrirgefa mér syndir mínar og ég búinn að vera heiðarlegur nógu lengi. Núna má ég byrja að brjóta af mér aftur.” Það má svo spyrja sig þess hvort slíkur huugsuður eigi erindi inn á Alþingi, eða hvort hann þurfi ekki fyrst að sitja kúrs í réttarheimspeki og halda sig fjarri kosningabaráttunni í vor til að valda flokknum sínum sem minnstu tjóni með ótímabærum orðatiltækjum?

Sjálf vil ég að vinstri flokkarnir vinni kosningarnar á málefnalegum grunni, en ekki ótímabærum yfirlýsingum Árna Johnsen, en ég viðurkenni um leið að orð hans hjálpa okkur til að fella ríkisstjórnina.

sunnudagur, janúar 28, 2007

28. janúar 2007 – “Vona að ég hafi iðrast nóg,”

var haft eftir Árna Johnsen á forsíðu Blaðsins í gær laugardag. Ég segi á móti, takk Árni min, þetta er það besta vopn sem þú gast gefið okkur pólitískum andstæðingum þínum, því fátt sýnir betur að þú hefur enn ekki lært að skammast þín!

Iðrunin er ekki keypt í Tangabúðinni eða Bónus og hvorki í magni né þyngd. Hún er ekki einu sinni til sölu þótt sumir virðist halda það. Hún er fólgin í auðmýkt, kærleika og bættu líferni, ekki í tæknilegum mistökum. Því verður að líta svo á að iðrunin hafi enn ekki náð inn að hjarta Árna Johnsen. Í framhaldinu má spyrja sig þess hvaða erindi þessi maður á inn á Alþingi Íslendinga með slíkan hugsunarhátt og fortíð sem raun ber vitni?

-----oOo-----

Á blaðsíðu 40 í sama blaði og viðtalið er við Árna Johnsen, er góð grein og þörf um vopnasölu til þróunarlandanna með myndum af hermönnum að skjóta úr byssum. Það sem sló mig við lestur þessarar greinar var ekki vopnasalan sem slík, heldur auglýsing frá Mjólkursamsölunni mitt í textanum um vopnasöluna og sem auglýsir LGG+ sem streituvörn í skólanum. Hvaða skilaboð er verið að senda út til skólafólks með þessari auglýsingu mitt í grein um vopnasölu?

-----oOo-----

Enn kemur Moggabloggið mér á óvart, því rétt eins og íslenska handboltalandsliðinu tókst að vinna Slóveníu í einhverjum leik (strákarnir mínir spila ekki með handboltalandsliðinu), þá ruku aðsóknartölurnar upp að nýju á laugardag eftir að hafa dottið niður úr öllu valdi á föstudag, sbr laugardagsfærsluna.

laugardagur, janúar 27, 2007

27. janúar 2007 – Ingibjörg Sólrún Gísladóttir

Þegar ég flutti aftur til Íslands sumarið 1996 eftir langa dvöl í Svíþjóð og eftir að hafa farið þar í gegnum aðgerðarferli sem íslenskum stjórnvöldum var fyrirmunað að veita mér, sýndu margir Íslendingar mér lítilsvirðingu, þar á meðal fólk í opinberri stjórnsýslu þótt ég vilji ekki nefna nein nöfn í því sambandi. Hinsvegar sýndu aðrir aðilar mér þá reisn og mannvirðingu sem öllum manneskjum ber að fá. Meðal þeirra var Ingibjörg Sólrún Gísladóttir þáverandi borgarstjóri. Með framkomu sinni sýndi hún mér það að hún væri leiðtogaefni. Mér finnst tilhlýðilegt að rifja þetta upp hér þegar sífellt er verið að rægja hana niður í undanfara kosninga, jafnvel af ætluðum samflokksmönnum sínum.

Ég þekki sögu Samfylkingarinnar ekki mjög vel. Þó er sem mig minni að það hafi einmitt verið innkoma Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur í landsmálin sem varð kveikjan að hinum mikla sigri Samfylkingarinnar við síðustu alþingiskosningar. Að minnsta kosti heyrði ég á tal margra kvenna sem ákváðu að styðja hana með atkvæði sínu í þeim kosningum. Á sama hátt átti Ingibjörg hug og hjörtu margra í formannskjörinu fyrir um tveimur árum og veit ég sömu konur sem gengu til liðs við Samfylkinguna þá til að tryggja henni brautargengi.

Síðan þetta var, hafa karlarnir náð fyrri stöðu í flestum kjördæmum í gegnum prófkjör og smölun, hugsanlega vegna ófullnægjandi kosningareglna. Það er miður á sama tíma og önnur framboð hafa beitt flettulistum til að tryggja jafna stöðu kynjanna til setu á löggjafarsamkundu þjóðarinnar.

Fallandi gengi Samfylkingarinnar verður því fremur að skrifa á valdabaráttu gráðugra karla sem svífast einskis til að smala áhugalausu fólki til stuðnings við sig. Ingibjörg Sólrún Gisladóttir hefur ekki þurft á slíku svindli að halda.

-----oOo-----

Á miðvikudag fékk ég rúmlega 2400 heimsóknir á Moggabloggið mitt, en rétt rúmlega 500 á föstudag.
Ég fer að halda að Moggabloggið sé álíka óútreiknanlegt og íslenska handboltalandsliðið. Ef þessu heldur svona áfram, brotna ég álíka illa saman og íslenska þjóðin eftir tapið gegn Slóveníu.

föstudagur, janúar 26, 2007

26. janúar 2007 – II – Að ganga í Flokkinn.

Iðulega berast af því fréttir að svo og svo margir hafi gengið til liðs við Flokkinn skömmu fyrir prófkjör eða landsþing og er þá ætlunin að nýta sér fylgisaukninguna til að koma sínum frambjóðanda í þægilegt sæti. Þetta á ekki einungis við um Frjálslynda flokkinn, heldur og aðra flokka. Stundum kveður svo ramt að þessu að stuðningsmenn Flokksins reynast fleiri en kjósendur hans við kosningar. Við slíkar aðstæður hlýtur öllum að vera ljóst að það er verið að smala í flokkinn með svikum og prettum.

Er ekki kominn tími til að sett séu takmörk við slíku svindli, að stjórnmálaflokkar sýni meiri ábyrgð en aðrir í stað þess að ganga á undan með slæmu fordæmi og valda þverrandi virðingu fyrir því fólki sem situr á Alþingi og í sveitastjórnum?

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item142126/

-----oOo-----

Ég hvet svo alla til að lesa grein Steinunnar Jóhannesdóttir á bls 31 í Morgunblaðinu í dag, en þar atyrðir hún fjórar íslenskar þingkonur sem sýndu evrópsku/vestrænu gildismati lítilsvirðingu með klæðaburði sínum í heimsókn til Saudi-Arabíu á dögunum.

26. janúar 2007 - Allir í framboð!

Nú er gaman. Það stefnir í að framboðum til alþingis í komandi kosningum fjölgi verulega frá því sem verið hefur. Ekki eru einungis gömlu flokkarnir, Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur, Frjálslyndi flokkurinn, Samfylkingin og Vinstrihreyfingin, grænt framboð sem allir stefna að framboði í öllum kjördæmum, heldur eru allnokkur ný framboð í farvatninu.

Þar ber fyrst að nefna framboð öldunga undir stjórn Arndísar Björnsdóttur, Kristjáns Guðmundssonar og fleiri. Þá kemur framboð fatlaðra öldunga með þeim Arnþóri Helgasyni, Baldri Ágústssyni og enn fleirum. Einnig er rætt um sérframboð Margrétar Sverrisdóttur ef svo illa vill til að hún hrekist úr flokknum. Þar með er málinu ekki lokið. Frjálshyggjufélagið vill komast á þing til að útrýma bákninu sem Davíð og Geir börðust gegn fyrir 30 árum, Ásgeir Hannes Eiríksson vill komast á þing til að berjast gegn innflytjendum, Kristilegi lýðræðisflokkurinn vill komast á þing til að berjast gegn öllum sem ekki lúta þeirra sérleyfi á guðstrúnni. Umhverfisverndarsinnar sem ekki vilja styðja vinstrigræna, vilja senda Ómar Ragnarsson á þing til að berjast gegn Kárahnjúkavirkjun. Það er þó óvíst hvort Ómar Ragnarsson vilji fara á þing. Loks má ekki gleyma lélegu gengi kvenna í prófkjörum að undanförnu sem gefur tilefni til að endurvekja gömul kvennaframboð.

Sjálf legg ég til að gamli Framboðsflokkurinn verði endurlífgaður. Einn ágætur frambjóðandi þess ágæta flokks frá 1971 situr reyndar á þingi nú þegar, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og er þingi og þjóð til mikils sóma. Ég á ekki von á því að hún vilji skipta fyrir nýtt framboð, en miðað við allan þann fjölda fólks sem virðist villuráfandi í pólitíkinni þessar vikurnar, ætti ekki að vera hörgull á skemmtilegu fólki til að fylla einn eða tvo framboðslista, jafnvel fleiri.

fimmtudagur, janúar 25, 2007

25. janúar 2007 – Athyglissýki á Moggabloggi!

Það upphófst mikil spenna hjá mér á miðvikudagsmorguninn. Ég hafði kíkt á Moggabloggið mitt rétt um klukkan tíu um morguninn og höfðu þá tæplega 200 gestir heimsótt það frá miðnætti. Ég fór svo og leit á nokkur velvalin blogg áður en ég fór til baka inn á mína síðu og hafði gestunum þá fjölgað um rúmlega hundrað.

“Ha, gat þetta verið?” Ég fann hvernig athyglissýkin blossaði upp í mér, en varð frá að hverfa um stund vegna verkefna á vaktinni. Er ég leit á bloggið aftur skömmu síðar hafði annað hundrað bæst við og fór nú ekkert á milli mála, að aðsóknartölurnar bólgnuðu upp eins og púkinn á fjósbitanum.

Það hlaut að finnast skýring á þessum skyndilegu vinsældum og ég fór að leita. Brátt komst ég að því að ég var komin í “Hall of Fame” á Moggabloggi, þ.e. listann yfir tíu vinsæl blogg á forsíðu mbl.is. Ég fann hvernig ég hækkaði um hálfan metra og reigði mig yfir mannfjöldann um leið og heimsóknartölurnar héldu áfram að hækka og ég snerti varla gólfið er ég fór fram í mat. Það var ljóst að athyglissýkin var farin að stíga mér til höfuðs og nálgaðist hættulegt stig um leið og ég fór að fylgjast betur með aðsóknartölunum á blogginu en tölvunum sem ég átti að vakta. Þegar klukkan var að nálgast 16.00 ætlaði ég að athuga hvort ekki væri komið að nýju meti í aðsókn hjá mér, en þá fraus allt, vinsældarlistinn jafnt sem bloggið sjálft. Þegar mér loksins tókst að endurræsa bloggið, voru aðsóknartölurnar horfnar af síðunni og bilunarmerki á vinsældarlista Moggabloggsins.

“Af hverju þurfti þetta að ske núna?” Það var rétt að koma að nýju aðsóknarmeti! Mér féllust alveg hendur. Ég fór inn á aðrar bloggsíður og þar var heimsóknafjöldinn líka horfinn og ég bölvaði Moggabloggi í sand og ösku og taldi víst að nú hefði Morgunblaðið lært hvernig ætti að græða á bloggi eins og þegar 365 miðlar keyptu Blog.central. Að lokum gafst ég upp og slökkti á blogginu og settist niður yfir hundleiðinlegum handboltaleik í sjónvarpinu fremur en að bölva blogginu frekar. Svo þegar vaktinni lauk, fór ég heim og lenti þar í símtali við góða vinkonu sem benti mér á að aðsóknartölurnar væru enn til, en að það þyrfti að sækja þær inn í stjórnborðið. Eitthvað kættist ég við þetta, ekki síst þegar ég sá að ég var komin vel yfir tvö þúsund heimsóknir, en samt, ég vil hafa aðsóknartölurnar á forsíðu bloggsins eins og áður hefur verið!

-----oOo-----

Útvarp Umferðarstofu sá ástæðu til að senda slæmum ökumanni tóninn sem ók langt undir hámarkshraða á miðvikudag í nágrenni Reykjavíkur. Þetta kom mér ekkert á óvart, ekki síst í ljósi þess að tvær systur sem ég þekki, höfðu skroppið út fyrir bæinn og montuðu sig af því að hafa ekið svo varlega að eftir væri tekið sbr. eftirfarandi færslu:

http://gurrihar.blog.is/blog/gurrihar/entry/108116/

þriðjudagur, janúar 23, 2007

24. janúar 2007 - Að senda fólk í blóðprufu

Það mun hafa tíðkast hjá Bechtel á Reyðarfirði að ákveðinn hópur starfsmanna samkvæmt slembiúrtaki er tekinn í læknisskoðun og blóðprufu á hverjum vinnudegi. Ef einhver reynist hafa drukkið einum öl of mikið deginum áður, er hann umsvifalaust sendur heim og við ítrekað brot, rekinn úr vinnu. Fleiri stórfyrirtæki hafa sömuleiðis boðað hertar reglur í svipuðum dúr til að hindra að fólk mæti ölvað, með timburmenn eða jafnvel í annarlegu ástandi vegna vímuefnanotkunar til vinnu.

Um leið og hér er komin dálítið varasöm þróun, get ég ekki staðið upp og mótmælt hástöfum. Rétt eins og bílstjóri með timburmenn er hættulegri en sá sem er allsgáður, er starfsmaður á lyftara ekki síður hættulegur. Þó er sá munur á, að vinnufélagar eiga auðveldara með að fylgjast með félaganum og stoppa hann af, en þúsundir ökumanna sem eru einir í hverjum bíl á leið til vinnu að fylgjast með þessum eina sem tók í nösina kvöldið áður.

Ölvaður framkvæmdastjóri stórfyrirtækis getur valdið margföldum skaða á við þann sem ók lyftaranum. Þar sem þeir velta milljónum og milljörðum á hverjum degi, geta minnstu fjárfestingarmistök í ölæði kostað gífurlegar upphæðir og jafnvel komið einu fyrirtæki á hausinn. Á Alþingi sitja 63 þingmenn og kljást um þjóðarauðinn, einstöku hugsanlega undir áhrifum áfengis eða lyfja án þess að ég vilji fullyrða neitt um það.

Ef það er látið afskiptalaust að Bechtel og Alcan sendi sitt starfsfólk í blóðprufu í vinnutímanum, er þá ekki eðlilegt að ein lög verði látin ná yfir alla og allir verði sendir í blóðprufu eftir slembiúrtaki, ekki bara þeir sem eru staðsettir lægst í þjóðfélagsstiganum, heldur einnig forstjórar, alþingismenn og ráðherrar?

23. janúar 2007 - II - Hver er maðurinn?


Á Moggabloggi eru tveir hópar fólks mest áberandi, fjölmiðlafólk og leiðinlegir pólitíkusar nema hvorutveggja sé. Þetta er að vísu ekki algilt. Það eru til fáeinir skemmtilegir pólitíkusar og og allnokkrir skemmtilegir blaðamenn. Þegar haft er í huga að þessir tveir hópar raða sér á toppinn meðal Moggabloggara, gefur auga leið að þeir lesa blogg hvers annars og fara ekkert út fyrir hópinn. Svo koma einstöku vitleysingar eins og ég sem njóta fornrar frægðar að góðu eða illu og þurfum að mæta á réttum tíma á vaktina eins og tíðkast hefur meðal alþýðufólks um aldir.

Myndin hér til hliðar sýnir einn af bestu drengjum blaðamannastéttarinnar sem er þarna í hressingargöngu suður með sjó á áttunda áratug síðustu aldar. Sem fyrr er ástæðulaust að gefa upp nafnið, enda maðurinn auðþekkjanlegur. Því verða engin verðlaun veitt fremur en fyrri daginn.

Það þarf að sjálfsögðu að klikka á myndina til að sjá hana í fullri stærð.

23. janúar 2007 - Taugaveiklaðir nágrannar

Þegar ég bjó á sjöttu hæð í Hólunum hafði ég fagurt útsýni til norðurs. Öll Esjan blasti við mér og nær var Árbæjarhverfið en næst voru svo nokkur raðhús. Sökum hæðarinnar sást fátt fólk í návígi nema þá að horft væri niður á kollana sem siluðust meðfram húsinu. Síðar flutti ég í eitt þeirra húsa í Árbæjarhverfinu sem blöstu við mér ofan af sjöttu hæð í Hólahverfinu.

Nú hefi ég ekkert útsýni til Esjunnar lengur. Af stóru svölunum sé ég upp í Hólahverfi sem og skógivaxna hlíðina ofan við Árbæjarlónið, en ef ég horfi út í garðinn sé ég yfir í svefnherbergisálmurnar á blokkunum vestan við mig. Horfi ég á móti út um gluggana á svefnherbergjunum og yfir bílastæðin þar sem alltaf virðist líf og fjör, sé ég einnig inn í stofurnar á blokkunum austan við mig.

Á mánudagskvöldið var ekkert spennandi í sjónvarpinu og ég fór inn í stóra herbergi og fór að góna út um gluggann. Það var óvenjumikil kyrrð á bílastæðinu og umferðin í Hraunbænum óvenju lítil. Þegar ég horfði yfir á blokkirnar handan bílastæðanna veitti ég því athygli, að í þeim stofum þar sem ekki var dregið fyrir glugga, voru fullorðnir karlmenn spígsporandi um stofur eins og væru þeir með njálg eða eitthvað enn verra. Þetta var ekki á einum stað, heldur taldi ég iðandi fólk í fimm stofum. Þetta þótti mér skrýtið. Það hlaut að vera eitthvað yfirmáta spennandi í sjónvarpinu.

Ég kveikti á sjónvarpinu. Þar sem ég er bara með aðgang að RÚV, Sirkus og Skjá 1, var ég fljót að sjá að það var ekkert spennandi á þeim rásum, einhver íþróttaleikur á RÚV og einhverjir framhaldsþættir á hinum rásunum. Jæja það virtist sem fólk væri að horfa á einhverja yfirmáta spennandi hryllingsmynd eða endursýndan Kompás á Stöð 2 og ég gat slökkt aftur á sjónvarpinu með góðri samvisku.

En einkennilega fannst mér samt þessi taugaveiklun sem virtist vera í gangi!

-----oOo-----

Svo er ástæðulaust að óska Eyjamönnum til hamingju með daginn!

mánudagur, janúar 22, 2007

22. janúar 2007 - II - Hver er maðurinn?


Maðurinn sem myndin er af er velþekktur á Íslandi og víðar. Hann mun eiga stórafmæli bráðlega og hefur aldrei litið jafnvel út og nú. Hægt er að koma með svar á kommentakerfinu, en engin verðlaun verða veitt. Til að sjá myndina betur, verður að klikka á hana

22. janúar 2007 – Góða veislu gjöra skal

Ég fór að velta fyrir mér hvernig ég gæti komist á gestalistann hjá þessum háu herrum sem halda veglega upp á afmælið sitt og láta Elton Djonn og Bjögga hita upp fyrir Bubba Mortens. Það verður að hafa í huga að ekki er ráð nema í tíma sé tekið og því eins gott að undirbúa sig strax og byrja á að hanna samkvæmiskjólinn. Ég lenti að vísu í afmæli hjá eiginkonu eins útibússtjóra skömmu fyrir jól, en þar voru engar stjórstjörnur að afmælisbarninu einu frátöldu. Þegar háu herrarnir eru farnir að reyna að toppa hvern annan í stórstjörnum, þykist ég vita að Rolling Stones spili fyrir Hreiðar Má og Sigurð Einarsson og Roger Waters verði látinn syngja afmælissöng fyrir Björgólf Thor. Gamli Björgólfur verður að láta sér nægja Pavarotti, nema auðvitað að hann fái Fílharmoníuhljómsveit Berlínar til að flytja sér afmælissöng. En samt, mig langar í boðsmiða!

Ég á að vísu enga peninga til að kaupa þeim dýrar afmælisgjafir, til þess eru þjónustugjöldin og yfirfráttarvextirnir of háir, en ég get hugsanlega prentað út mynd af sjálfri mér í prentaranum mínum, áritað hana og sett í ramma sem kostar lítið í Júróprís. Eitthvað kostar svo samkvæmiskjóllinn því vart get ég verið eins og stafkerling til fara í fínu afmælisboðinu.

Mikilvægast af öllu er þó að vita hvenær fólkið á afmæli svo ég geti byrjað að undirbúa mig undir samkvæmið. Ég komst því að eftirtöldum afmælisdögum:

Ólafur Ólafsson, Samskip .... 23.01.1957
Hreiðar Már Sigurðsson, Kaupþing .... 19.11.1970
Sigurður Einarsson Kaupþing .... 19.09.1960
Jón Ásgeir Jóhannesson Baugur .... 27.01.1968
Björgólfur Thor Björgólfsson, Samson .... 19.03.1967
Björgólfur Guðmundsson, Samson .... 02.01.1941
Magnús Kristinsson, Toyota ofl .... 03.12.1950
Einar Sigurðsson, TM ofl .... 23.08.1977
Hannes Smárason, FL grúpp .... 25.11.1967
Jóhannes Jónsson, Bónus .... 31.08.1940
Róbert Wessmann, Actavis .... 04.10.1969
Magnús Þorsteinsson, Eimskip .... 06.12.1961
Eggert Magnússon, WestHam .... 20.02.1947

Ég sé að Eggert Magnússon og Björgólfur Thor eru næstir á dagskrá. Ég er strax farin að hlakka til. Hvernig skyldu þeir slá Ólafi Ólafssyni við í veglegheitunum?

Hafi ég gleymt að setja einhverja stórgróssera á listann, verða þeir bara að láta mig vita hvenær þeir eiga afmæli svo ég geti bætt þeim við. Sjálf hefi ég engin kynni af þessum mönnum enn sem komið er (öðrum en Magnúsi Kristinssyni og Eggert Magnússyni) og því gaman að kynnast þeim aðeins betur með glas af góðu eðalvíni í hönd. Reyndar skuldar Maggi mér flösku sem hann lofaði mér í eldgamla daga og bíð ég enn eftir gömlu maltwhiský frá honum sem verður að sjálfsögðu að vera eldra en loforðið, eða nærri 30 ára gamalt. (slef,slef).

sunnudagur, janúar 21, 2007

21. janúar 2007 – Sendiherra Bretlands á Íslandi segir ....

.... að Bretar séu reiðubúnir til að beita þeim aðferðum sem þurfi til að sannfæra Íslendinga um að láta af (hval)veiðum í atvinnuskyni. Þetta er alveg hárrétt. Þetta er sama aðferðin og Bretar notuðu er þeir gjörsigruðu írösku þjóðina og losuðu hana undan slæmum harðstjóra fyrir tæpum fjórum árum síðan og héldu svo heim glaðir í bragði við ákafan fögnuð heimamanna, (rétt, ekki satt?) Þeir beittu einnig sömu aðferð við að sýna Nasser og óaldarflokkum hans hvar Davíð keypti ölið árið 1956 og síðan þá hafa bresk stjórnvöld verið hátt skrifuð hjá egypskri alþýðu eins og allir vita, (rétt, ekki satt?) Þetta er einnig sama aðferðin og Bretar beittu, er óaldalýðurinn uppi á Íslandi færði út landhelgina sína í óþökk breskra útgerðarmanna. Þeir voru sko fljótir að rassskella þessa kotungaþjóð norður á hjara veraldar sem þurfti að lúta í gras fyrir herveldi hennar hátignar og færa landhelgina aftur inn í 3 mílur á eftirminnilegan hátt (rétt, ekki satt?).

Ég held það sé kominn tími til að bresk alþýða losi sig við þennan meinglottandi taglhnýting Georgs Dobbljú Bush og þó fyrr hefði verið.

http://www.ruv.is/heim/frettir/frett/store64/item141448/

-----oOo-----

Það er aldeilis að ég er orðin trúandi og og fallega hugsandi. Þrátt fyrir þá staðreynd að ég hangi í tölvunni daga sem nætur, þá hefur engum dottið til hugar að senda mér myndbandið með Guðmundi í Byrginu. Ætli fólk hafi í alvöru haldið að ég hafi fengið dekurdaga í Byrginu í jólagjöf?

-----oOo-----

Þegar haft er í huga að stórlega hefur dregið úr aðsókn að bloggsíðum mínum síðustu tvo dagana, bæði á Moggabloggi og Blogspot, hvort geti verið að ég sé orðin svona leiðinleg?

laugardagur, janúar 20, 2007

20. janúar 2007 - II - Vondulagakeppnin

Ég hefi löngum verið talin hafa lítið sem ekkert vit á tónlist. Þekking mín á fyrirbærinu miðast við það eitt að gera greinarmun á góðum lögum og lélegum lögum útfrá eigin smekk og þar með má setja endapunkt á þekkinguna. Eldri lög Bubba finnast mér góð, en nýrri lögin renna framhjá án þess að ég veiti þeim eftirtekt. Sömu sögu má segja um bresku Rollingana. Ég get með herkjum rifjað upp einstaka lag þeirra frá sjöunda áratugnum, en ekkert eftir það. Á þessu sannast af hverju ég er aldrei kölluð til að gefa álit mitt á tónlist.

Þegar talið berst að Júróvisjón sannast vanþekking mín enn betur á tónlist. Aldrei skulu lögin sem mér finnast góð vinna forkeppnina á Íslandi og iðulega einhver hræðilega misheppnuð lög send í keppnina. Það hefur að vísu einn kost með sér sem er sá að þegar íslensku keppendurnir eru reknir heim með skottið á milli lappanna get ég barið mér á brjóst og sagt:
“Sjáið þið bara, þetta lag átti aldrei að fara í keppnina. Lagið sem ég hélt með var miklu betra.”

Þegar ég drattaðist á fætur á laugardagsmorguninn og kveikti á útvarpinu, heyrði ég mér til hrellingar eitthvert það ömurlegasta lag, ef lag skyldi kalla, sem ég hafði heyrt svo mánuðum skipti. Ljóðlínan var eitthvert meinleysislegt ástarhjal og lagið slíkt að vonlaust virtist að halda laglínu. Lagið var einfaldlega svo afspyrnulélegt að ég fór að hlusta um leið og ég ákvað að nú væri forkeppni Júróvisjón komin í gang og fékk það svo staðfest þegar laginu lauk og þulurinn afkynnti það. Ég náði að hlusta á tvö lög til viðbótar fyrir hádegið, bæði léleg, en þó illskárri en hið fyrsta sem ég heyrði.

Má ég þá heldur biðja um Silvíu Nótt!

20. janúar 2007 – Eru hvalveiðar meira virði en Írakar?

Þegar ég heyrði frétt í Ríkisútvarpinu þess efnis að Bretar ætluðu í alþjóðasamstarf gegn hvalveiðum Íslendinga undir stjórn Tony Blair, datt mér strax í hug að þarna hefði Tony Blair tekið hvalina framyfir mennina. Hann á í blóðugri styrjöld austur í Írak þar sem verið er að myrða innfædda á hverjum degi og hann skammast sín ekki einu sinni fyrir hegðun sína. Rétt eins og Bush vinur hans og samstarfsmaður, leggur hann allt í sölurnar fyrir olíuna. Þessi maður er svo gjörsamlega rúinn trausti víða um heim að orð hans um hvali þykja hjóm eitt. Verra þykir mér að sjá Sör David Attenborough leggja nafn sitt við þennan skrípaleik.

Til að gera herferðina að enn meiri skrípaleik, legg ég til að hvalveiðisinnar sendi þegar í stað fulltrúa sína vestur til Washington með mynd af hval í farteskinu svo Bush komist að því hvernig langreiðar líta út. Fái hann síðan til að undirrita stuðningsyfirlýsingu við baráttu Blair gegn hvalveiðum og dreifi þessari yfirlýsingu um alla heimsbyggðina.

Þetta ætti að nægja til að rústa þessari baráttu!

-----oOo-----

Svo fær Laddi hamingjuóskir með stórafmælið :)

föstudagur, janúar 19, 2007

19. janúar 2007 – Mikið eiga Reykvíkingar og nærsveitungar gott .....

... að eiga þessa líka fínu hitaveitu á Þorranum.

Það var ekki fyrr en 1930 sem Reykvíkingar byrjuðu þann áhætturekstur að láta senda sér heita vatnið heim í stað þess að vitja þess inn í Laugardal, þriggja kílómetra leið úr kvosinni sem gengin hafði verið í öllum veðrum í þúsund ár. Eitthvað þótti hin nýja hitaveita áhættusöm og vafasöm. Þó leið ekki langur tími frá þeim tíma er Laugaveitan tók til starfa í nóvember 1930 að hún varð fullnýtt og fólk krafðist meira heits vatns, borað var í Mosfellssveit og Reykjaveitan byggð.

Presturinn í Lágafellssókn kom þar að sem unnið var að borunum á Reykjasvæðinu og áminnti bormenn að fara varlega. Eftir stóðu menn og veltu fyrir sér hvort þeir ættu almennt að fara varlega við vinnu sína (öryggiseftirlitið) eða þá að gæta þess að bora ekki í skallann á þeim gamla sem sagt er að búi þarna niðri.

Áfram var borað og djúpborað og dælt og sífellt var hitaveitusvæðið stækkað og byggðar fleiri dælustöðvar, Kópavogur, Garðabær, Hafnarfjörður, Kjalarnes, Bessastaðahreppur. Brátt voru heitu svæðin í Reykjavík og Mosfellssveit fullnýtt og vantaði meira heitt vatn. Þá fóru Nesjavellir í gang 1990 og hætt að kynda með olíu þá daga sem heita vatnið dugði ekki öllum. Það var samt haldið áfram að byggja og sífellt þurfti að dæla meiru og meiru vatni úr Þingvallavatni, hita á Nesjavöllum og dæla áfram til Reykjavíkur. Það líður ekki langur tími uns þarf að kynda að nýju köldustu vetrardagana þar til áætlanir um heitavatnsframleiðslu frá Hellisheiðarvirkjun verða að veruleika.

Strax á unglingsárunum heyrði ég talað um Hitaveituna sem fyrstu stóriðju Íslendinga, stóriðju sem var að öllu leyti í eigu Íslendinga sjálfra. Nú er ég beinn þátttakandi í ævintýrinu sem eg fylgdist með úr návígi á æskuárunum í Mosfellsdalnum. Ég ætla ekki að leggja þá áþján á þá sem finnst hitaveitan of dýr, að reikna út hver hitunarkostnaður heimilisins hefði orðið með olíukyndingu.

Hér sit ég og dáist að nýjustu tölum úr tölvunum hjá mér sem sýna, að meðalrennsli á klukkustund síðastliðinn miðvikudag, allan afmælisdag borgarstjórans fyrrverandi og núverandi Seðlabankastjóra, var rúmlega 13600 m³/klst og örugglega nýtt heildarmet, þótt vissulega hafi einstöku klukkustundargildi og augnabliksgildi verið hærri áður. Þessar tölur segja okkur að við höfum dælt samtals 327000 tonnum af heitu vatni inn á ofna Reykvíkinga og nágranna þann sólarhringinn. Þessum tölum ber þó að taka með fyrirvara, enda einungis teknar af grófri mælingu misviturrar tölvu, en ekki samkvæmt nákvæmustu mælitækni og enn síður vottaðar af bókurum á efri hæðum. Að sjálfsögðu stóð ég pliktina hluta þessa ágæta sólarhrings og það var eins gott að halda sér vakandi þá næturvaktina.

Með þessum fallegu tölum kveðjum við Ýlir, fögnum Þorranum og óskum bændum jafnt sem húsbændum til hamingju með daginn.

fimmtudagur, janúar 18, 2007

18. janúar 2007 – Af dósaskera á Suðurlandsvegi

Að undanförnu hafa orðið nokkur óhöpp á Suðurlandsvegi þar sem bílar hafa lent á nýja víravirkinu sem mótorhjólamenn kalla dósaskera og er ætlað til að aðskilja akreinarnar frá hvorri annarri. Vegagerðarmenn eru alveg himinlifandi yfir þessu og telja þetta vera merki um að dósaskerarnir skili ætluðu hlutverki sínu sem er það að koma í veg fyrir að bílar lendi framan á bílum sem koma úr gagnstæðri átt. Þetta nægir ekki til að sannfæra mig.

Þessi óhöpp hafa ekki orðið vegna þess að fólk sé að reyna framúrakstur, heldur vegna þess að snjór hleðst upp að dósaskeranum og veldur meiri hálku á veginum. Því er meiri hætta á að bílstjórar missi stjórn á ökutækjum sínum en áður var, ekki síst nú eftir að notkun nagladekkja hefur minnkað umtalsvert. Svo er önnur hætta þessu samfara. Sumsstaðar er vegurinn svo mjór frá dósaskera og út að kantinum að mjög erfitt er að komast framúr ef bílar bila á þessum kafla. Það er í lagi að velta því fyrir sér hvað skeður ef einhver missir stjórn á bílnum sínum á þessum stað, lendir á dósaskeranum og snýst þversum svo að bíllinn verður óökufær á eftir? Hversu margar mínútur munu þá líða uns bilaröðin nær að Rauðavatni eða þá að Hveragerði ef þetta hefur skeð á leiðinni að austan?

Vegamálastjóri hefur auglýst eitthvert graf sem sýnir minnkandi slysalíkur við breytingu Suðurlandsvegar (gildir einnig um Vesturlandsveg) sem sýnir að slysatíðnin mun snarminnka við breytingu í 2+1 veg. Það getur hver sem er teiknað svona graf ef ekkert liggur til grundvallar. Stefnum því að tvöföldun Suðurlandsvegar og Vesturlandsvegar sem allra fyrst. 2+1 vegur verður orðinn úreltur áður en hann verður lagður.

-----oOo-----

Enn af töfum á Hafnarfjarðarvegi á miðvikudagsmorguninn. Það hefur verið rekinn mikill áróður fyrir minni notkun nagladekkja sem er í sjálfu sér ósköp skiljanlegt. Hafnfirðingar og aðrir íbúar byggðanna sunnan Reykjavíkur fengu að kenna á þessu þann morguninn. Hverjir næst? Þurfa gatnamálayfirvöld ekki að sýna ábyrgð og hvetja til notkunar fjórhjóladrifs í stað nagladekkja?

miðvikudagur, janúar 17, 2007

17. janúar 2007 – 2. kafli – “Ökumenn eiga sjálfir þátt....

... í að umferðin teppist” var haft eftir Árna Friðleifssyni varðstjóra hjá lögreglunni í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins. Þvílík snilld. Ég hefi sjaldan heyrt annan eins sannleika í einni stuttri setningu og legg til að þessu einfalda vandamáli verði þegar í stað eytt með einföldum aðgerðum, t.d. þeim að banna ökumenn. Það, að útrýma ökumönnum með einni reglugerð, mun svo leysa mörg önnur vandamál í leiðinni, engin slys lengur og hægt að leggja öll áform á hilluna um tvöföldun Suðurlandsvegar og göng til Vestmannaeyja.

Í fúlustu alvöru. Eru menn sem koma með svona yfirlýsingar, eins og fréttamaðurinn og lögregluvarðstjórinn, ekki komnir út á hálan ís?

Þegar ég vaknaði í morgun og heyrði fréttirnar af miklum töfum á Reykjanesbraut vegna hálku í einni brekku, kom einhver púki upp í mér og ég hugsaði til þess hve ég ætti það gott að búa í göngufæri frá vinnunni. Engar áhyggjur af bílastæðum eða því að þurfa að skafa af bílnum. Einasti kostnaðurinn við að komast í vinnuna eru góðir skór, góð úlpa og endurskinsmerki sem fást ókeypis í næsta banka.

Það er svo allt önnur saga hvernig ber að leysa umferðarteppurnar sem eru iðulega á Reykjanesbrautinni á milli Reykjavíkur og Hafnarfjarðar og efni í heilan pistil sem og athugasemdir við væntanlegan tvo+einn veg með dósaskera á milli akreina.

17. janúar 2007 - Vandamál daglegs lífs

Þriðjudagurinn byrjaði vel. Er ég kom á vaktina var gott frost og veðurfræðingarnir hættir við hlýindin sem hefðu þýtt minnkandi sölu á heitu vatni. Því leit vaktin vel út í byrjun þó að því undanskildu að ekki tókst að ná fullum afköstum frá Nesjavöllum. Það var ráðist í lagfæringar á aflofturunum eystra skömmu fyrir hádegið sem þýddi enn minnkuð afköst rétt á meðan á lagfæringunum stóð. Sem ábyrgum vélfræðing sæmir, nagaði ég á mér neglurnar á meðan.

Þetta fór allt vel og þegar leið á eftirmiðdaginn, var hægt að sjá augnabliksgildin í sölu á heitu vatni fara vel yfir 14000 tonn á klukkutímann eða nærri 4000 sekúndulítra og hefur þá klingt vel í kassanum hjá eigendum Orkuveitunnar. Sjálf var ég eins og útspítt hundskinn alla vaktina, algjörlega að ástæðulausu, enda gott kerfi sem vaktað er, og ég því dauðþreytt þegar labbað var heim eftir vaktina. Þeir spá meira frosti á miðvikudag.

Ég settist við tölvuna þegar heim var komið og ætlaði að skrifa færslu dagsins sem ég var með í kollinum, en þá heimtaði Hrafnhildur ofurkisa að ég sleppti sér út og ég fór með henni niður og sleppti henni út í garð þótt köttum væri vart út sigandi. Fór svo upp aftur og sjá. Tárhildur vælukisa hafði ákveðið að fara í tölvuleik á meðan ég var í burtu. Það tók mig klukkutíma að endurstilla tölvuna eftir afrek kisunnar og gáfupistillinn sem ég hafði ætlað að skrifa löngu farinn veg allrar veraldar. Því er pistill dagsins óvenju snubbóttur og leiðinlegur í dag.

-----oOo-----

Loks fá Davíð (gettu hver) og Eimskip hamingjuóskir með afmælið í dag.

mánudagur, janúar 15, 2007

16. janúar 2007 - Sá yðar sem syndlaus er, kasti fyrsta steininum

Það voru tveir gamlir glæponar hengdir í Írak á mánudagsmorguninn og er það vissulega sorgarfrétt. Fréttirnar af hengingu hálfbróður Saddams og félaga hans gamals dómara, hurfu þó fljótt eftir hádegið er fjölmiðlarnir fengu nýtt og ferskt efni til að smjatta á, misnotkun á fjármunum Byrgisins og fólk benti á Guðmund Jónsson og syndir hans. Aftur eru allir tilbúnir að hengja manninn andlega. Nú er hann orðinn eitt versta úrþvætti sem fyrirfinnst.

Ég ætla mér ekki að reyna að verja gerðir Guðmundar Jónssonar. Það má vel vera að hann hafi fallið í freistingu og notað stóran hluta af fjármunum Byrgisins til eigin nota. Það má einnig vel vera að hann hafi misnotað vald sitt og komið fram vilja sínum gagnvart ungum stúlkum og ég efa ekki að hann sé háttsettur meðlimur í sértrúarsöfnuði og líti á sig sem fulltrúa almættisins á jörðinni. En ég vil ekki þurfa að velta mér mikið uppúr þessum syndum mannsins og vil að dómstólarnir fái að segja sitt áður en ég geng út og dæmi hann.

Á móti ásökunum á hendur Guðmundi spyr ég:

Hversu mörgum manneskjum hefur Guðmundur Jónsson bjargað frá að krókna í hel í einhverju skúmaskoti undir tröppu niðrí bæ eða undir tré í Hljómskálagarðinum? Hversu mörgum “glötuðum” sálum hefur hann hjálpað til að rata inn á veg dyggðarinnar og gert að nýtum þjóðfélagsþegnum með hjálp trúarinnar? Hversu mörgum manneskjum hefur hann bjargað frá að fyrirfara sér í eymd sinni og gert að betri manneskjum?

Ekki spyrja mig. Ég veit það ekki. En ég held að við verðum aðeins að hugsa um þetta líka, áður en við dæmum hann.

15. janúar 2007 – Eyðilagður sunnudagur

Ég vaknaði alltof seint á sunnudagsmorguninn, rekin áfram af tveimur emjandi kisum, annarri hungraðri en hinni sem vildi komast út. Mér var litið út um gluggann og glaðvaknaði. Það hafði snjóað heilan helling um nóttina og ég ekki komin á fætur ennþá. Þetta var sko veður fyrir minn vinstrigræna Súbarú á ónegldu og ég sá mig í anda úti að aka á eðalvagninum á sunnudagsmorgni.

Ég dreif mig á fætur, gaf köttunum að éta, rak síðan Hrafnhildi ofurkisu út í garð, sótti málgagnið í póstkassann og kom mér upp aftur til að lesa blaðið með morgunkaffinu áður en ég færi út að aka.

Rétt þegar ég lauk úr kaffibollanum og ætlaði að koma mér í stígvélin, heyrði ég hræðilegt hljóð. Hávaða í traktor. Ég leit út um glugga og sá, ekki bara einn, heldur tvo traktora vera að ryðja snjónum af bílastæðunum og safna í hrauka. Mér féllust hendur. Moka í burtu allri þessari dásemd sem hafði komið af himnum ofan um nóttina. Ég hætti við að fara út.

-----oOo-----

Það blæs ekki byrlega fyrir hetjunum okkar í Halifaxhreppi. Þær spiluðu að vísu á móti Oxford í bikarkeppninni á útivelli og gerðu lélegt jafntefli og munu þurfa að leika annan leik á þriðjudag heima í Halifaxhreppi. En það er annað verra. Rögnvaldur frá Sogni er hættur að spila með hetjunum og búinn að selja sig til einhverra fáránlegra kelta í neðstu kvenfélagsdeild. Þetta gat hann gert okkur, nýbúinn að éta þessa fínu rjómatertu sem honum var færð á 26 ára afmælinu rétt á undan mínu afmæli og skildi ekkert eftir handa mér.

En hvað með það. Rögnvaldur var svo lélegur hvort eð var að við hefðum orðið að setja hann útúr liðinu fyrr en síðar.

sunnudagur, janúar 14, 2007

14. janúar 2007 – Þrengsli og Kojur!

Um daginn var ég að ræða um sjómannslíf við konu sem vinnu hjá sama fyrirtæki og ég og henni hryllti við er ég nefndi orðið kojur. Orðið koja hefur nefnilega löngum verið tengt við þrengsli og sjómennsku eða þá börn og þrengsli á heimilum og þykir bera vott um fátækt. Ég sé ekki ástæðu til að rengja þessa skoðun hennar, enda sjálf af barnmörgu heimili þar sem kojur þóttu jafnsjálfsagðar og allur annar nauðsynlegur húsbúnaður. Þá má ekki gleyma að kojur sjást enn á mörgum heimilum og þykja þörf og eðlileg þar sem börnin eru fleiri en eitt og íbúðin lítil.

Ég benti konunni á að lesa fróðlega grein sem birtist í Morgunblaðinu 17. febrúar 1947 og fjallaði um komu hins nýja og glæsilega nýsköpunartogara Ingólfs Arnarsonar til Reykjavíkur. Þar birtist lýsing á flottheitunum, rituð af Gísla Jónssyni vélstjóra og alþingismanni og segir þar meðal annars:

Íbúðir skipverja eru sem hjer segir: Í stafni skipsins eru íbúðir og hvílur á tveimur hæðum fyrir 24 menn alls. Á neðri hæðinni er klefi fyrir 16 menn og er það rúm mun stærra en áður var í eldri skipum, ætlað 24 mönnum. Á efri hæð er klefi fyrir 8 menn. En þess utan er þar setustofa sameiginleg fyrir hásetana, útbúin með borðum og bekkjum. Á þennan hátt geta þeir, sem frí eiga frá störfum, hvílt sig í næði, án þess að vera truflaðir af umgangi þeirra, sem við störf eru. Hverri hvílu fylgir sérstakur geymsluskápur fyrir föt o. fl. og setubekkir eru meðfram öllum hvílum. Aðeins tvær hvílur eru í hæðinni, í stað þriggja í gömlu skipunum og því bæði loftrými og gólfflötur meiri fyrir hvern mann en áður þekktist.
Út frá setustofunni og innangengt úr henni er baðherbergi og hreinlætisklefi fyrir skipverja, svo er sjerstakur klefi til að þurka og geyma í yfirhafnir og hlífar skipverja. Þar eru og tvö vatnssalerni.

Fyrir þá sem ekki þekkja til gömlu nýsköpunartogaranna, þá á þessi lýsing við um flest þeirra 47 skipa sem smíðuð voru fyrir Íslendinga eftir lok seinni heimsstyrjaldar. Einasti lúxusinn umfram þann sem hér var lýst, var að á mörgum skipanna var neðri lúkarnum skipt niður í þrjá klefa í stað eins fyrir 16 menn.

Ástand mála í íbúðum skipverja lagaðist mikið á sjötta og sjöunda áratugnum og jafnframt fækkaði í hverjum klefa. Brátt taldist eðlilegt að ekki væri nema einn til tveir menn í hverju herbergi, en oft þóttu þau í þrengra lagi hjá undirmönnum til sjós. Ég minnist þess einhverju sinni um borð í Bakkafossi þar sem ég sigldi sem næstráðandi og leysti yfirvélstjórann af í fríum, að ég hafði yfir að ráða þægilegri íbúð um borð, setustofu, svefnherbergi og baði. Einhverju sinni, er bróðir minn árinu eldri en ég, sigldi með mér sem smyrjari, að við mældum gólfflöt vistarvera okkar. Útkoman var hræðileg fyrir bróður minn. Gólfflöturinn í herberginu hans var helmingi minni en.............gólfið á baðherberginu hjá mér.

Besta lýsingin á stéttarskiptingunni um borð var þó lýst af öðrum smyrjara, góðum dreng sem nú er löngu fallinn frá á besta aldri. Einhverju sinni var hann að kvarta yfir þrengslunum í herberginu sínu um borð og ég svaraði að bragði að hann mætti eiginlega þakka fyrir að vera þó einn í herbergi sem væri munur frá því sem áður var. Svaraði hann þá með eftirfarandi orðum:
“Herbergið mitt er svo lítið að þarna er aðeins pláss fyrir einn mann og einn öl, en þá verður hann líka að halda á ölinu.”

http://timarit.is/mbl/?issueID=410499&pageSelected=1

laugardagur, janúar 13, 2007

13. janúar 2006 - Samkvæmi á Sviðastöðum

Mér var boðið í samkvæmi á föstudagskvöldið. Slíkt þykir ekki alltaf umræðuefni, nema þá fyrir þá sök að ég fékk boðskort og sá sem skrifaður var fyrir boðskortinu var stjórnarformaður fyrirtækis, þar sem aðalstöðvarnar mega ekki lengur heita Royal Alfreð Hall. Hann er sjálfur nýkominn af sjúkrahúsi eftir að hafa brennt á sér afturendann.

Eins og sannri dramadrottningu sæmir, mætti ég of seint og var stjórnarformaðurinn hálfnaður með ræðu sína er ég læddist inn bakdyramegin, losaði mig við yfirhöfnina inná því allra helgasta og læddist inn í salinn og náði mér í drykk.

Þetta var gott samkvæmi. Hinn nýi stjórnarformaður veitti vel og að auki var samkvæmið á skikkanlegum tíma að kvöldi, en ekki eins og áður þegar nýárssamkvæmin voru haldin á milli 17.00 og 19.00 á laugardögum. Það var mikið skrafað og rætt um heimsins gagn og nauðsynjar og vandamálin leyst. Ónefndur vinnufélagi kom til mín og við leystum úr gömlum þrætumálum og kvöddumst sem vinir því til þess eru vinnusamkvæmi að leysa úr óleystum vandamálum á milli fólks. Þá hitti ég flesta gömlu vinnufélagana sem komnir eru á eftirlaun og eru enn á lífi og rifjaði upp kynnin af öðrum sem vinna hjá fyrirtækinu en fjarri aðalstöðvunum.

Þegar samkvæminu lauk ákvað ég að ganga heim. Úti á bílastæðunum var fljúgandi hált og erfitt að fóta sig. Í gegnum hugann fór ástandið á bílastæðunum við gömlu höfuðstöðvarnar, aðalstöðvar Hitaveitunnar við Grensásveg. Þar áttum við þann möguleika að skjóta inn heitu vatni inn á snjóbræðsluna. Því gekk sú saga af bílastæðunum að snjó leysti einum metra fyrir ofan jörð í verstu vetrarveðrum.

Heim komst ég óbrotin og sæmileg til heilsunnar.

föstudagur, janúar 12, 2007

12. janúar 2007 – Segir fátt af einum kaninkubloggara

Einn ungur og ágætur kunningi minn, sonur vinafólks míns frá yngri árum og jafnaldri dóttur minnar, er talinn með gáfaðra fólki. Mörgum er enn í fersku minni er hann var í leikskóla um 1980 og blaðamaður kom þangað að taka viðtöl við krakkana fyrir barnablað sem þá var gefið út í Reykjavík, en sem ég er búin að gleyma nafninu á. Krakkarnir veltu mikið fyrir sér hinum ýmsu vandamálum sem koma börnum spánskt fyrir sjónir, en þessi ungi maður fór að ræða þyngdarlögmálið við blaðamanninn, t.d. hversvegna steinar velta niður en ekki upp og annað í þeim dúr.

Þessi ungi maður hefur alla tíð verið pólitískur á vinstri vængnum og hefur ekki kvikað frá stefnu sinni frá því hann lærði að ganga um eins árs aldur. Um svipað leyti eignaðist hann tuskubangsa sem hann kallaði Stalín og ég held að hann hafi farið í sína fyrstu Keflavíkurgöngu þriggja ára gamall og er nú áhrifamaður innan Vinstri hreyfingarinnar, græns framboðs, og Samtaka hernaðarandstæðinga þótt hann kjósi að styðja sambýliskonu sína í framboðsmálum hreyfingarinnar. Hann er auðvitað löngu kominn til vits eins og ofangreint ber með sér og nýlega einnig til ára og búinn með nám í menntaskóla og háskóla og skilar sínu til samfélagsins eins og við flest gerum.

Ungi maðurinn er meðal fyrstu, vinsælustu og áköfustu bloggara Íslands og var orðinn virkur á því sviði þremur árum áður en bloggið var fundið upp að mati Egils Helgasonar, en rétt eins og sumir grasrótarbloggarar, fyrirlítur hann Moggablogg af öllu sínu hjarta. Því hefur hann endað flesta pistla sína að undanförnu með nokkrum velvöldum orðum í garð Moggabloggs. Er ekki laust við að sumir aðdáendur hans hafi lært af kenningum hans og jafnvel tekið þær til sín, þótt vissulega hafi ég iðrast og skipt um skoðun á áramótum.

Nafn mannsins skiptir ekki máli þótt flestir viti hver hann er.

En hér koma nokkur “gullkorn” sem fallið hafa úr tölvu þessa ágæta unga manns:

Megi Mogga-bloggið aldrei þrífast!
Mogga-bloggið sigli í strand!
Megi Moggabloggið lenda undir valtara.
Megi Moggabloggið hreppa tölvuvírus!
Megi Moggabloggið veslast upp af kóleru!
Hvernig væri að rista Moggablogginu blóðörn?
Megi Moggabloggið falla milli skips og bryggju!
Skaupið. Það besta sem ég man eftir! Ójá!
Markmiðssetning fyrir árið: iii) Knésetja helv. Moggabloggið.
Kjöldrögum Moggabloggið.
Ef borgaryfirvöld vilja endilega standa í að útrýma óæskilegum fyrirbærum legg ég til að þau byrji á Moggablogginu.
Nú er leiðindafrost úti. Megi Moggabloggið éta það sem úti frýs.
Nær hefði verið að selja Moggabloggið - og þá í brotajárn.
Enginn ætti að þurfa að þola slíka meðferð - ekki einu sinni Moggabloggið!

Eins og gefur að skilja, er hann ekki talinn með á vinsældarlista Morgunblaðsins. Svo bið ég Morgunblaðið að fyrirgefa mér birtingu þessa orða, en þau segja kannski heilmikið um brenglaða kímnigáfu mína, að hafa gaman af þessum orðum hins unga kunningja míns.

-----oOo-----

Ég tók þátt í stuttri útisamkomu á Lækjartorgi á fimmtudagseftirmiðdaginn á vegum Íslandsdeildar Amnesty International í tilefni af því að fimm ár eru liðin frá opnun fangabúðanna í Guantanamo. Mig langar til að biðja suma samkomugesti afsökunar á að hafa ruglað andlitum saman, en eins og allir vita er ég komin með Alzheimer Light og að auki óvenju léleg að muna andlit.
Mér var þó bent á lítinn leik sem fer fram á vegum Amnesty International og hvet sem flesta friðarsinna til að taka þátt:

http://amnesty.textdriven.com/guantanamo/home/

fimmtudagur, janúar 11, 2007

11. janúar 2007 – Af Sólveigu og stöllum hennar

Undanfarna daga hafa birst myndir í fjölmiðlum af olíuprinsessunni Sólveigu og stöllum hennar þremur, þeim Kolbrúnu, Rannveigu og Arnheiði þar sem þær heilluðu arabíska prinsa upp úr skónum. Þykist ég vita að þeir hafi orðið stórhrifnir af hinum íslensku hefðarfrúm og efa ég ekki að þeir muni, ekki aðeins kjósa Ísland til setu í Öruyggisráði Sameinuðu þjóðanna árin 2009 – 2011, heldur og afnema skyldu arabískra kvenna til að hylja líkama sinn frá toppi til táar, gefa þeim kost á að þreyta ökupróf og jafnvel leyfa þeim að kjósa, því mikill er máttur íslenskra þingkvenna í Saudi-Arabíu.

Næst vonast ég til að íslensku þingkonurnar fjórar heilli Robert Mugabe upp úr skónum og vart trúi ég að hann muni verða þeim neikvæðari en hinn arabíski kollegi hans sem löngum var frægur um allan heim fyrir kvenfyrirlitningu sína áður en hann fékk hin fögru fljóð í heimsókn til sín. Í framhaldinu þarf svo að heilla Kim Il Sung upp úr skónum og vart mun Ali Khameini í Íran hafna boði þeirra um að styðja Ísland til setu í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna, ekki frekar en Islam Karimov í Uzbekistan og Omar Bashir í Súdan.

Ég efa það ekki að þær stöllur, Sólveig, Kolbrún, Rannveig og Arnbjörg muni valda straumhvörfum í friðarmálum þessa heims og að verstu einræðisherrar heimsins muni falla að fótum þeirra og falla í faðma hverjir við aðra. Eftir það ættu friðarverðlaun Nóbels að vera nánast í höndum Sólveigar Pétursdóttur. Hér eru svo nokkur ríki til viðbótar sem eru verð ljúfrar heimsóknar í krafti friðar.

Svo má velta fyrir sér spurningunni, hvað Ísland á að gera í Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna þegar haft er í huga að landið hefur sjaldan getað lagt fram sjálfstæðar ályktanir, heldur valið að fylgja Bandaríkjum Norður-Ameríku í flestum málum?

Svo er ein spurning til viðbótar: Hvar var Framsóknarmaddaman á meðan hinni opinberu heimsókn stóð til Saudi-Arabíu?

-----oOo-----

Ég er í hópi mikils fjölda fólks sem fylgist með spurningakeppninni Gettu betur af athygli, allt frá upphafskeppnunum í útvarpi til loka. Stöku sinnum koma ungir drengir inn í keppnina sem virðast ekki hafa áhuga á henni og reyna að snúa útúr spurningunum og eru yfirleitt sendir heim eftir fyrstu umferð. Þegar haft er í huga að stór hluti þjóðarinnar hlustar á þessa drengi svara auðveldustu spurningum út í hött, er eiginlega merkilegt að skólayfirvöld í viðkomandi skólum skuli yfirleitt samþykkja þátttöku nemenda sinna í spurningakeppninni, því þeir eru ekki aðeins sjálfum sér til minnkunar, heldur og samnemendum sínum og skóla.

-----oOo-----

Loks hvet ég alla friðarsinna til að mæta á Lækjartorg klukkan 17.00 á fimmtudag, en þar mun Íslandsdeild Amnesty International vera með uppákomu í tilefni af fimm ára afmæli fangabúðanna í Guantánamo.

þriðjudagur, janúar 09, 2007

10. janúar 2006 – Að heiðra konunginn með nærveru sinni.

Í þriðjudagsblaði Morgunblaðsins birtist mynd af nokkrum íslenskum þingkonum þar sem þær eru í opinberri heimsókn í Saudi-Arabíu undir leiðsögn Sólveigar Pétursdóttur þingforseta og birtist mynd af þingkonunum í blaðinu bls 3, ásamt einum af helstu olíuglæponum Saudi-Arabíu. Þar eru þær allar komnar í svartar dulur til að hylja líkama sinn niður að tám að hætti og kröfum yfirstéttar þessa eins hinna verstu einræðisríkja heimsins.

Í tímaritinu Parade Magazine er einræðisstjórn Saudi-Arabíu flokkuð sem númer 7 meðal verstu einræðisríkja heimsins og harðlega gagnrýnt af hinum ýmsu mannúðarsamtökum, eða eins og segir í pistli með flokkuninni sem gerð var fyrir tæpu einu ári:

In Saudi Arabia, phone calls are recorded and mobile phones with cameras are banned. It is illegal for public employees “to engage in dialogue with local and foreign media.” By law, all Saudi citizens must be Muslims. According to Amnesty International, police in Saudi Arabia routinely use torture to extract “confessions.” Saudi women may not appear in public with a man who isn’t a relative, must cover their bodies and faces in public and may not drive. The strict suppression of women is not voluntary, and Saudi women who would like to live a freer life are not allowed to do so.

Ég skil svosem ósköp vel að Sólveig Pétursdóttir vilji heimsækja þetta höfuðvígi olíuglæpona í heiminum, en af hverju létu þær Rannveig Guðmundsdóttir og Kolbrún Halldórsdóttir draga sig út í að sýna þessum glæpamönnum og fjöldamorðingjum virðingu sína, í stað þess að sýna þeim fyrirlitningu sína með því að hunsa slíkt heimboð?

Má kannski búast við að þær fari næst í opinbera heimsókn til Zimbvabe svo Robert Mugabe megi njóta nærveru þeirra?

Það hafa fleiri látið ljós sitt skína í þessu máli sbr:
http://tulugaq.blog.is/blog/hj2006/entry/99502/?t=1168384180#comments

9. janúar 2007 – Á ég að gæta bróður míns?

Á þeim tíma sem ég bjó í Svíþjóð skeði það eitt sinn, að maður einn mætti ekki í vinnuna sína. Þetta var maður um fimmtugt og hann bjó ekki fjarri vinnustað mínum í vesturhluta Stokkhólms og því vakti mál hans meiri athygli okkar en ella. Samkvæmt fjölmiðlum var maðurinn ekki talinn neinn óreglumaður, en hafði hinsvegar oft verið frá vinnu vegna skammtímaveikinda.

Það var reynt að hringja í manninn, en enginn svaraði. Eftir margítrekaðar tilraunir til að ná sambandi við manninn, gafst atvinnurekandinn upp og sendi honum uppsagnarbréf án þess að maðurinn svaraði neinu til baka. Maðurinn hætti að greiða húsaleiguna sína og eftir nokkurn tíma var honum sagt upp húsnæðinu. Svo leið og beið og uppsögnin á leigunni fór sína leið í gegnum kerfið og til fógeta.

Eftir að fógetaúrskurður var kominn, var kölluð til lögregla og mannskapur til að bera manninn út. Hann svaraði ekki dyrabjöllunni og því var kallaður til lásasmiður sem boraði út lásinn og fógetinn komst inn ásamt aðstoðarfólki sínu. Þegar þeir höfði vaðið yfir mikinn bunka af óopnuðum pósti fyrir innan dyrnar, blasti við þeim lík íbúans og hafði hann þá verið látinn í fjórtán mánuði.

Mál mannsins þótti ákaflega sorglegt, ekki síst í ljósi þess að enginn virtist hafa saknað hans nema yfirmaður hans í vinnunni sem svaraði með því að senda uppsagnarbréf til mannsins. Mál hans gleymdist þó fljótt þegar fréttist af gamalli konu í Farsta, í suðurhluta Stokkhólms. Hún fékk eftirlaunin sín inn á bankareikning og þar sem hún var í greiðsluþjónustu, voru reikningarnir hennar dregnir sjálfvirkt af eftirlaunum hennar.

Einhverju sinni þurfti pípulagningarmaður að komast inn í íbúðina hennar vegna vandræða á ofnakerfi blokkarinnar þar sem hún bjó. Þar sem hún svaraði ekki þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir, þurfti að kalla til lögreglu og lásasmið svo hægt yrði að komast inn, enda þýðingarlaust að senda henni bréf, því bréfabunkinn fyrir innan dyrnar náði upp að póstlúgunni. Samkvæmt elsta óopnaða bréfinu sem fannst innan við dyrnar hjá konunni, hafði hún verið dáin í fimm ár.

Á Íslandi létu nágrannarnir vita, þegar þeir hættu að verða varir við ferðir gömlu konunnar.

Ég spyr: Hefði nokkurs konar vinalínusamband eða Dead Alarm kerfi getað bjargað lífi hennar? Hitt finnst mér skipta minna máli, hversu lengi hún lá dáin í íbúðinni.

mánudagur, janúar 08, 2007

8. janúar 2007 – Það mætti hvessa aðeins með þessu

Fyrir allmörgum árum síðan starfaði gjaldkeri einn hjá gömlu Hitaveitunni og rétt eins og margir aðrir starfsmenn Hitaveitunnar og síðar Orkuveitunnar, lifði hann og hrærðist í vinnunni og tók starf sitt framyfir allt annað í lífinu. Einhverju sinni þegar miklar frosthörkur voru í Reykjavík, var hann á göngu í bænum og hitti einn kunningja sinn.
“Þið græðið vel núna hjá Hitaveitunni”, skaut kunninginn að honum háðslega.
“Ekki nóg, ekki nóg, það mætti hvessa aðeins meira með þessu”, svaraði gamli gjaldkerinn að bragði.

Þar sem ég rölti að heiman áleiðis á næturvaktina, fer ég að velta fyrir mér veðrinu. Það er nefnilega að hefjast gósentíð hjá okkur sem komum frá gömlu Hitaveitunni. Veðurspáin er yndisleg, tilhlökkunin mikil og vonir um að frostið verði sem mest. Ekki veit ég hvort met verði slegið í sölu á heitu vatni, en rétt eins og hjá Nielsen gamla gjaldkera, ræðst það af vindstyrknum auk frostsins. Um leið og hitastigið sígur niður fyrir rauða strikið og frostmark, verðum við um leið að gera viðeigandi ráðstafanir, auka dælingu, bæta við borholum í gangi og fylgjast betur með svo ekkert fari úrskeiðis.

Sú fyrirtíðarspenna sem leysist úr læðingi hjá okkur er við heyrum veðurspána, minnir dálítið á gamla sjómenn frá tímum nýsköpunartogaranna og landstímin hjá þeim. Tilhlökkunin var slík að koma í land og ná sér í bokku af brennivíni að sumir urðu ölvaðir af tilhlökkuninni einni saman og jafnvel þvoglumæltir á leiðinni inn Flóann. Á sama hátt kætumst við og brandararnir fljúga, sagðar velvaldar sögur af kuldabola og frá gömlum frosthörkum og allt andrúmsloftið verður sýnu léttara.

Svo rætist veðurspáin, spennan og athyglin í hámarki, einbeitingin á fullu og eftirlit allt til hins ítrasta á meðan frostið varir. Fáum við kannski tertu með kaffinu ef ný met verða sett í framleiðslu og sölu á heitu vatni? Kannski. Aldrei að vita. Að minnsta kosti verður þessa ekki vart í pyngjunum okkar.

Svo hlýnar á ný og lífið færist aftur í sitt fyrra horf.
Það hefði mátt hvessa aðeins meira með þessu.

-----oOo-----

Svo fær forsöngvarinn í stóru englasöngsveitinni hamingjuóskir með 72 ára afmælið.

sunnudagur, janúar 07, 2007

7. janúar 2007 - Evrur

Þegar tvö núll voru klippt af krónunni fyrir réttum 26 árum, var haft á orði, að aðgerðin sem slík myndi slá á óðaverðbólguna sem þá var í gangi. Fólk myndi skilja betur hvað það væri með í höndunum þegar hver króna yrði skyndilega einhvers virði í stað gömlu flotkrónunnar sem var framleidd úr gæðaáli og gat því flotið á vatni. Þessi von ráðamanna brást algjörlega því í stað þess að slá á verðbólguna, varð hún kaupmönnum að tæki til að hækka vörurnar svo um munaði og varð því að úrvalsfæði fyrir spikfeitan verðbólgudrauginn.

Svipað skeði í sumum löndum Suður-Evrópu er þau tóku upp evruna í stað gamla gjaldmiðilsins. Ítalska líran var í lítið meiri metum en íslenska flotkrónan. Sama var að segja um spænska pesetann, hinn portúgalska escuto og grísku drökmuna. Um leið og evran leysti gömlu myntina af hólmi var breytingin nýtt af kaupmönnum til að hækka vörur og þjónustu umtalsvert auk þess sem þessi breyting jafnaði talsvert verðlagið í þeim ríkjum sem tóku upp evruna.

Nú eru Neytendasamtökin og fleiri farin að reka fræðsluáróður vegna ótta við að lækkunin á matarskattinum sem á að koma til framkvæmda rétt fyrir kosningar í vor, skili sér ekki til neytenda vegna þess að kaupmenn reyni að draga úr þeim verðlækkunum sem lækkun matarskattsins ætti að leiða af sér.

Ónefndur lesandi gerði athugasemdir við vilja minn til evruvæðingar Íslands og benti á að Þjóðverjar, Frakkar og Ítalir væru í dag andsnúnir evrunni. Þetta er eðlilegt í ljósi þess hvernig skipti á gjaldmiðli hafa verið nýtt til hækkunar á verði á vörum og þjónustu. Ég hefi reyndar ekki séð neitt um þetta frá Frakklandi eða Ítalíu, en fyrir Þjóðverjana hefur verðlagið í ríkjunum umhverfis stórhækkað og hefur nálgast verulega verðlagið í Þýskalandi. Í sjálfu sér er ekkert óeðlilegt við þessa neikvæðni. Það þarf að yfirvinna marga erfiðleika sem slíkum breytingum eru samfara, auk þess sem íhaldssemin og traust til eigin gjaldmiðils er enn ríkjandi.

Það er hinsvegar viðbúið að áhrifin verði þveröfug á Íslandi við upptöku evrunnar. Út frá því að Íslendingar gera sér grein fyrir verðlagi á milli hinna ýmsu Evrópulanda með sama gjaldmiðli, mun verðlag á Íslandi leitast við að nálgast verðlagið í öðrum Evrópulöndum og því lækka.

Ég var á fundi í Tórínó á Ítalíu í nóvember síðastliðnum. Þegar fundarhöldum lauk, skrapp ég í búðarferð ásamt vinafólki mínu frá Austurríki. Með því að bæði Austurríki og Ítalía eru með evrur, var létt verk og löðurmannlegt fyrir vinafólk mitt að gera samanburð á verðlaginu í Vínarborg annars vegar og Tórínó hinsvegar og þurfti engar reiknimaskínur til þess að reikna út gengið og afföll við að skipta schillingum í lírur.

-----oOo-----

Enn eitt er vert að nefna áður en evruspjalli lýkur að sinni. Er fólk nokkuð búið að gleyma hvernig það var að ferðast um Evrópu áður en evran kom til sögunnar? Ef fólk hefur gleymt þessu, er einfaldast að skreppa eina ferð til Norðurlandanna, norskar krónur í Noregi, sænskar krónur í Svíþjóð, danskar krónur í Danmörku og evrur í Finnlandi. Má ég þá heldur biðja um evrur allsstaðar, sleppa því að vera með ótal tegundir smáklinks í vösunum og seðlaveski með ótal hólfum fyrir hina ýmsu gjaldmiðla.

-----oOo-----

Loks mun ég alveg sofa róleg, verði Seðlabanki Íslands lagður niður og Davíð settur á atvinnuleysisbætur.

föstudagur, janúar 05, 2007

6. janúar 2007 – Enn af Evrópusambandinu.

Orðum mínum frá föstudegi hefur verið harðlega mótmælt af aðeins einni manneskju. Það er eðlilegt því ég hefi verið mjög svo iðin að undanförnu að fæla lesendur í burtu, ekki einungis með stuðningi mínum við Kárahnjúkavirkjun, heldur og andstöðunni við Moggablogg, Áramótahörmungina sem kölluð var skaup og nú síðast stuðningi við Evrópusambandið. Því er eðlilegt að einungis mínir dyggustu lesendur nenni enn að lesa bloggið mitt þótt ég hefi reynt að dreifa boðskap mínum sem víðast.

Næstsíðasta lesönd mín sendi mér ágæta athugasemd við pistil gærdagsins þar sem hún óttaðist að Spánverjar ryksuguðu síðustu þorskana úr miðunum okkar.

Á hátíðarstundum er mér sagt að fiskurinn í sjónum sé sameign þjóðarinnar. Skelfing er sú þjóð lítil sem samanstendur af örfáum útgerðarmönnum. Ætli hún nái fólksfjöldanum í Vatikaninu? Í dag er staðan sú að óveiddur fiskurinn í sjónum er orðinn eign örfárra útgerðarmanna og þeir stærstu þegar á hraðri útleið til Evrópusambandsins. Síðast föstudaginn 5. janúar 2007 var lesin frétt í útvarpinu þess efnis að stærsta útgerðarfélag landsins, Grandi hf, ætli að flagga flaggskipi sínu, Engey RE-1, út til Hollands, en Holland er að sjálfsögðu í Evrópusambandinu. Áhöfninni sem er að stórum hluta frá Akranesi verður sagt upp að mestu leyti. Næststærsta útgerðarfélagið er sömuleiðis með umfangsmikinn rekstur í Englandi og Þýskalandi. Þegar íslensk lög meina erlendum skipum að veiða fiskinn hér heima, “kaupa” þessi útgerðarfélög skip með skilarétti til að veiða fiskinn og skila skipunum svo aftur. Þeir hafa ekki einu sinni fyrir því að skrá íslenskar áhafnir á skipin. Þetta færist stöðugt í vöxt og fjöldi erlendra áhafnarmeðlima um borð í íslenskum skipum eykst sömuleiðis stöðugt.

Þessi félög eru þegar farin að skrá hluta bókhalds síns í evrum og það mun verða áframhald á slíku. Þá hefur hagnaður ýmissa útgerðarfyrirtækja þegar verið fluttur yfir í annan rekstur, bílainnflutning, fótboltafélög, fjármálafyrirtæki og þess háttar og þetta ýtir enn á að skrá allan reksturinn í evrum. Helsta veiðarfærafyrirtækið er löngu komið með stærstan hluta reksturs síns til Litháen sem nú er í Evrópusambandinu, þótt það hafi enn ekki fengið aðgang að Myntbandalagi Evrópu

Þegar fyrsta álfyrirtækið var byggt á Íslandi fyrir um fjórum áratugum töluðu andstæðingar stóriðjunnar um erlenda stóriðju og vildu efla þjóðlega atvinnuvegi, sjávarútveg og landbúnað. Stóriðjusinnar töluðu á móti um að andstæðingar stóriðju vildu hafa öll eggin í sömu körfunni. Nú hefur umræðan snúist við, sjávarútvegurinn á fallanda fæti og stóriðjan að verða ein eftir sem einasta eggið í körfunni.

Sjálfri er mér nokk sama hvort það er Pólverji eða Spánverji sem veiðir síðasta þorskinn úr hafinu umhverfis Ísland og þorskurinn verður senn ekki lengur það afl sem heldur Íslandi frá aðild að Evrópusambandinu.

5. janúar 2007 – Hvað kostar krónan?

Ég átti þess kost að fylgjast með átökunum um aðild að Evrópusambandinu í Svíþjóð árið 1994. Ég var frá upphafi eindregið á móti Evrópusambandsaðild og sá fát jákvætt við hana. Það var ekki til að auka stuðning minn við Evrópusambandið að hægriflokkarnir voru meðfylgjandi aðild, en vinstriflokkarnir, Miljöpartiet og Vänsterpartiet á móti.

Það dylst engum að það er dýrt að búa á Íslandi. Við erum með himinháa stýrivexti, 14.25%, vörur og þjónusta eru hér dýrari en annarsstaðar og fólk þarf að vinna mun lengur hér til að eiga í sig og á. Það eru vissulega nokkrir kostir líka eins og lágir skattar og lágt orkuverð til húshitunar og lýsingar. En samt.

Mörg stærri fyrirtæki eru að flýja úr landi með starfsemi sína. Vextirnir eru einfaldlega of háir og því eðlilegra að fara þangað sem vextir og vinnuaflskostnaður er lægri. Minni fyrirtæki eru á barmi gjaldþrots, nema því aðeins að þeim verði það unnt að fá erlend lán til starfseminnar svo þeim verði það unnt að svara samkeppninni frá ríkjum Evrópu þar sem vextirnir eru einungis brot af því sem þeir eru á Íslandi. Sífellt fleiri sækja til útlanda til endurfjármögnunar skulda sinna því krónan sem er seld með 14.25% álagi er of dýr til að þau hafi efni á henni. Hvert fyrirtækið á fætur öðru munu færa rekstur sinn yfir í evrur á næstu árum og brátt verður evran orðin almenn viðmiðun í fjármagnslífi okkar. Þá verða fátækari hluti almennings og ríkissjóður ein um að nota krónuna. Ríkari einstaklingar og einkafyrirtækin verða farin eitthvað annað, flest undir verndarvæng Seðlabanka Evrópusambandsins.

Í musterinu á Arnarhóli situr Davíð, lemur hausnum við granítið og neitar að horfast í augu við að brátt mun hann sitja einangraður ásamt lítilli hjörð hirðmanna sinna og þverskallast við að horfast í augu við þá staðreynd að krónan, einn dýrasti gjaldmiðill í heimi er að verða einskis virði. Seðlabanki Íslands er of lítill og nauðsynlegt fyrir Íslendinga að koma sér fyrir á stóru evrópsku markaðssvæði. Einungis þannig er hægt að ná stýrivöxtunum niður í eðlilega hæð. Davíð og félagar munu hamast gegn Evrópusambandinu svo lengi sem unnt er, en tími andstæðinga EU er að renna sitt skeið á enda.

Það má vel vera að andstæðingar evrunnar og Evrópusambandsins muni sigra kosningarnar í vor. En þá munu bíða okkar fjögur mögur ár þar sem Ísland mun þurfa að greiða háar upphæðir fyrir að viðhalda dauðvona gjaldmiðli.

Ég er fyrir löngu síðan búin að skipta um skoðun á Evrópusambandinu og þótti miður er Svíþjóð felldi aðild að myntbandalagi Evrópu í þjóðaratkvæðagreiðslu í september 2003. Ég á þó enn þá von í brjósti að Ísland fari ekki sömu skrykkjóttu leiðina og Svíþjóð og gangi alla leið í Evrópusambandið (EU) og Myntbandalagið (EMU) hið bráðasta og losi sig þannig við hávaxtastefnu Davíðs og félaga.

miðvikudagur, janúar 03, 2007

4. janúar 2006 - Reykingar mjög heilla rafta

Það hefur löngum verið áramótaheit hjá mörgum að hætta að reykja um áramót. Þetta er sennilega mest gefna áramótaheitið, en jafnframt það sem oftast bregst, því vitlausasti tíminn til að hætta að reykja eru áramót. Þá er fólk oft með áfengi um hönd og ekki eru timburmenn á nýársdag betri þegar hætt skal að reykja.

Ég var að hlusta á viðtal við Valgeir Skagfjörð í síðdegisútvarpi Rásar 2 á miðvikudag. Við hlustun á viðtalið sannfærðist ég enn frekar en fyrr af hverju ég gæti ekki hætt að reykja undir hans stjórn. Fordómarnir gegn reykingafólki voru slíkir, að mig fór ósjálfrátt að langa í sígarettu þótt ég hafi ekki reykt í sex ár. Svör Valgeirs við spurningum Freys Eyjólfssonar gengu út á heilaþvott og ég fór betur að skilja af hverju margt fólk sem ég þekki og hefur hætt að reykja “fyrirhafnarlaust” á námskeiðum Valgeirs og félaga hefur byrjað aftur fljótlega eftir að það hætti og námskeiðinu lauk. Vafalaust er fjöldi fólks sem hefur hætt að reykja undir hans stjórn og tekist það, en einhvernveginn fæ ég á tilfinninguna að þessi aðferð henti mér alls ekki.

Sjálf reykti ég í mörg ár og reykti mikið. Ég reykti ekki gegn vilja mínum af því að tóbaksframleiðendur hefðu sagt mér að það væri gott að reykja, heldur af því að mér þótti gott að reykja. Það þurfti enginn að hvetja mig til að halda áfram. Það gerði ég alveg ein og óstudd og byrjaði daginn á að fá mér bloss. Þegar ég reykti sem mest, vaknaði ég á nóttunni til að fá mér sígarettu.

Það var til fullt af fólki sem sagði mér að þetta væri óhollt og lífshættulegt og fólk sem fussaði og sveiaði, en það espaði mig bara upp í því að halda áfram að reykja. Ég gerði nokkrar tilraunir til að hætta og minnist þess að tvisvar þegar ég var nýhætt, hófst hatrammur áróður gegn reykingum í fjölmiðlum og ég snarféll. Svo lenti ég í því sem kalla má óvænta sjokkþerapíu og hætti. Þar þurfti engan Valgeir Skagfjörð til.

Að hætta að reykja var ekki auðvelt. Ég þurfti að undirbúa mig vel, velja heppilegan tíma þegar ég var í sumafríi og sá ekki fram á peningaleysi, síðan að beita öllum mínum vilja og ég notaði flest þau hjálparmeðul sem til voru á meðan ég var að komast yfir verstu hjallana. Þannig innbyrti ég meira nikótín fyrstu dagana eftir að ég hætti en ég fékk síðustu dagana sem ég reykti, tuggði 15 sterkar nikótíntyggjóplötur á dag, tvo sterkustu plástrana og saug nikótínsogrör á milli. Smám saman minnkaði ég notkun á nikótínlyfjum eftir því sem frá leið og um sex mánuðum eftir að ég drap í síðustu sígarettunni hætti ég notkun nikótínlyfja fyrir fullt og allt.

Ég þurfti engan Valgeir Skagfjörð né Þorgrím Þráinsson til að hjálpa mér að hætta. Það munaði litlu í eitt sinn að ég léti Þuríði Backmann skemma fyrir mér er hún var með leiðindaröfl í sjónvarpi gegn reykingum, en sem betur fer áttaði ég mig á því í tíma að ég væri að hætta fyrir mig en ekki fyrir Tóbaksvarnarnefnd.

Núna þarf ég bara að berjast gegn aukakílóum eftir hver áramót, enda smakkast maturinn sem og ölið miklu betur en það gerði á meðan ég reykti.

-----oOo-----

Reiður ungur maður var á undan mér að segja nokkur vel valin orð um íslensku krónuna. Greinilega frábær penni þarna á ferð.

http://blogdog.blog.is/blog/blogdog/entry/96900/?t=1167865928#comments

3. janúar 2006 - Kynslóðabil áramótaskaups

Sænski þáttastjórnandinn Robert Aschberg hélt því einu sinni fram í sjónvarpsþætti að það yrðu kynslóðaskipti við 38 ára aldur. Þegar fólk næði þessum aldri, klippti það sig, hætti að hafa gaman af rokktónlist og yrði leiðinlegt og menningarlegt.

Það er stundum talað um kynslóðabil. Gamla fólkið skilur ekki unga fólkið og unga fólkið er óalandi og óferjandi. Svo hefur það verið um aldir og er svo enn. Það rifjast upp fyrir mér er ég leysti af á rækjutogara austur á fjörðum fyrir nokkrum árum að stærstur hluti áhafnarinnar var fólk á miðjum aldri, en þó var einn piltur um tvítugt um borð. Það hafði borist myndbandsspóla um borð með skemmtiþáttum sem kallaðir voru Fóstbræður. Drengurinn hafði mikið gaman af bröndurunum í þáttunum og veltist um af hlátri er einn leikarinn fetti sig og bretti og geiflaði sig í framan. Öðrum í áhöfninni stökk ekki bros og höfðu lítið gaman af.

Á gamlárskvöld var enn eitt áramótaskaupið sýnt í sjónvarpinu. Mér skilst að sumir unglingar hafi haft mjög gaman af þessu áramótaskaupi, en mér stökk ekki bros. Ég var að vísu edrú, en ég hefi oft hlegið að Spaugstofunni þótt ég væri edrú. Eftir skaupið rölti ég niður um eina hæð í blokkinni og hóf að drekkja sorgum mínum yfir lélegu áramótaskaupi með nágrönnum mínum. Ég var sannfærð um að höfundar skaupsins þyrftu að flýja land eftir þessa áþján, en fékk svo að heyra að unga fólkið væri himinlifandi ánægt með þetta áramótaskaup.

Var þetta spurning um kynslóðabil?

-----oOo-----

Hinn geðþekki eftirlaunaþegi og meistari meistaranna, Michael Schumacher, er 38 ára í dag. Við sendum hamingjuóskir á elliheimilið og óskum honum velfarnaðar í framtíðinni sem og ökuskírteininu mínu sem er fjórum dögum eldra en umræddur meistari.

-----oOo-----

Ég rakst á Heiðar snyrti suður á Keflavíkurflugvelli á þriðjudeginum. Það er sama hvað gengur á í lífi hans. Alltaf skal hann standa uppúr fjöldanum og brosa sínu fallega brosi.

þriðjudagur, janúar 02, 2007

2. janúar 2006 - Völvuspá vélstýrunnar.

Á áramótum þykir við hæfi að kíkja í kristalskúlu eða rekja kattagarnir og lesa úr þeim hvað hið nýja ár hefur upp á að bjóða. Aðrir munu rýna í tarotspil, kaffibolla og hvað sem höndinni er næst. Sjálf hefi ég kosið að rýna í skítugt ölglas sem staðsett er hér á borðinu fyrir framan mig til minningar um nýársnótt.

Ölglasið fyllt.

Af pólitíkinni er það helst að ég spái því að haldnar verða alþingiskosningar í vor. Úrslitin munu koma fáum á óvart, nema þá helst að Framsóknarflokkurinn mun ekki þurrkast út af þingi vegna reglunnar “þangað leitar klárinn sem hann er kvaldastur”. Þessi úrslit verða flestum til sárrar skapraunar, ekki síst vegna þess að skoðanakannanir munu sýna algjört fylgishrun. Eftir kosningar mun Framsóknarflokkurinn gera allt sem honum er unnt til að fá áframhaldandi setu í ríkisstjórn og lofa upp á æru og trú, að hlýða stóra flokknum gegn veitingu örfárra bitlinga og nokkurra ráðherrastóla. Þá mun einhver þekktur fyrrverandi stjórnmálamaður látast á árinu úr elli og annar úr leiðindum, en Halldór Blöndal fær vinnu við hvalskurð.

Ölglasið fyllt aftur

Veðrið verður svipað og undanfarin ár. Það munu skiptast á skin og skúrir, hæglætisveður og hvassviðri. Það verður hugsanlega eitt eldgos á árinu, en þó ekki víst, en nokkrir vægir jarðskjálftakippir munu mælast í nágrenni við Grímsey.

Það verður fátt skemmtilegt í gangi í íþróttum. Michael Schumacher munu halda áfram að vera hættur mér til armæðu og mun áhorf mitt á Formúluna fara ört minnkandi. Þá mun Sameining Mannshestahrepps vinna sig upp um deild í vor, en öllu verr gengur hjá hetjunum hugprúðu í Halifaxhreppi sem munu enda um miðja kvenfélagsdeildina í vor.

Af skemmtanabransanum er það helst að Silvía Nótt mun ekki vinna Júróvisjón í vor

Ölglasið fyllt einu sinni enn..

Af persónulegum málum mun ég þurfa að fara þrisvar til útlanda á árinu, en mæta í fimm jarðarfarir. Þá verð ég rekin úr stjórn Ættfræðifélagsins í febrúar, en mun samt eignast tvær eða þrjár bækur á árinu. Þá mun ég ekki skipta um bíl á árinu, en glata aftur kílóunum sem ég öðlaðist eftir að ég hætti að ganga á fjöll í haust. Ég mun ekki gifta mig á árinu, en hugsanlega eignast fleiri barnabörn. Þá mun ég ekki ljúka ritun ævisögu minnar á árinu sem fyrir bragðið verður ekki metsölubók á árinu 2007.

Þetta verður semsagt ákaflega hefðbundið ár að sem flestu leyti.

Glasið tæmt.

Þessi birting var í boði Hæneken.

mánudagur, janúar 01, 2007

1. janúar 2007 – Góðar kisur


Þá er nýársnóttin liðin, þessi versta martröð allra dýra á Íslandi. Fyrir mannfólkið var hún ósköp róleg og var haft eftir lögreglunni í fréttum, að hún hefði farið vel fram og verið stórslysalaus. Það var að vísu eitthvað um augnslys, líkamsárásir og hnífsstungur, hugsanlega ölvunarkastur, rúðubrot og þess háttar. En ekkert alvarlegt ef draga má lærdóm af fréttunum.

Hrafnhildur ofurkisa varð svo skelkuð við hávaðann að hún gerði á sig af hræðslu. Að vísu beitti hún skynseminni og faldi sig ofan í baðkari þar sem hún gerði stykkin sín í hræðslukasti. Betur að allar kisur væru svona skynsamar í stað þess að fela sig undir rúmi. Sjálf var ég í huggulegu nýársteiti hér í húsinu og gat litið til kattanna um leið og ég fékk mér annan drykk.

Með því að þessum hávaða er lokið, fer ég að velta fyrir mér gagnseminni og gleðinni af öllu þessu fýrverkeríi. Í garðinum á bakvið blokkina var fjöldi ungra manna komnir saman og dunduðu sér við við sprengja og skjóta upp flugeldum. Hinn mikli reykur sem lagði af öllum blysunum, skotkökunum, stjörnulljósunum og flugeldunum var svo mikill að vart sást grilla út fyrir garðinn og því fátt að sjá við önnur hús. Hávaðinn var gífurlegur og góð heyrnarskjól nauðsynleg, ekki síður en hjálmurinn og hlífðargleraugun. Kínverjar eru bannaðir á Íslandi og hefur svo verið í marga áratugi. Nú kaupa unglingarnir heilu lengjurnar af púðurkerlingum, klippa í sundur og eru þar með komnir með hundruð löglegra kínverja sem þeir sprengja svo rétt eins og unglinga hefur verið siður í hálfa öld eða lengur.

Svona hefur þetta verið undanfarin ár. Í fyrra kom ég við hjá bróður mínum í Grafarvogi um miðnættið og þar var íbúðargatan eins og eftir loftárás og fátt sást í næstu götum annað en þykkur reykur og einn og flugeldur sem sást skjótast upp úr reykjarkófinu. Árin á undan bjó ég á sjöttu hæð í stórri blokk í Krummahólum og gat séð Árbæjarhverfið hverfa í reyk hálftíma fyrir áramótin.

Ég hefi ekkert á móti flugeldum og blysum á gamlárskvöld og hefi gaman af að sjá slíkt í góðu hófi. Undanfarin gamlárskvöld hafa hinsvegar farið langt framúr góðu hófi og kominn tími til að hugsa sig um áður en meira er skotið upp.

Hvar eru umhverfisverndarsinnarnir núna?

Svo var Ómar Ragnarsson valinn maður ársins af Rás 2 fyrir tillögu sína sem hefði valdið alvarlegri fjárhagskreppu á Íslandi í mörg ár.

Með þessum orðum óska ég öllum nær og fjær gleðilegs árs og friðar.

P.s. Ég ætla svo að vona að ósk Glitnis um ógeðslegt ár verði ekki að veruleika samanber auglýsingu þar sem ung stúlka er látin segja að nýja árið verði ógeðslegt (eða ógeðslega gott).