föstudagur, maí 09, 2008

10. maí 2008 - Jakob Frímann Magnússon

Tónlistarmaðurinn Jakob Frímann Magnússon er sagður hinn mesti andans maður. Ekki veit ég neitt um það, því þótt ég hafi mikið álit á öðrum núverandi og fyrrum Stuðmönnum á borð við Egil Ólafsson og Valgeir Guðjónsson, hefur mér ávallt fundist maðurinn fremur sjálfhverfur.

Fyrir nokkrum árum síðan bauð Jakob Frímann sig fram í prófkjöri til þingstarfa fyrir hönd Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmum. Þrátt fyrir geysilegan kostnað og mikið umstang hlaut hann ekki þá vegsemd sem hann sóttist eftir og sennilega enn verri kosningu en nokkurn gat órað fyrir. Ekki veit ég af hverju, en kæmi ekki á óvart þótt umrædd sjálfhverfa hafi átt þar hlut að máli auk mikillar hrifningar hans á Tony Blair þáverandi forsætisráðherra Bretlands.

Aftur bauð hann sig fram fjórum árum síðar og þá í suðvesturkjördæmi og hlaut álíka útreið. Í kjölfarið sagði hann sig úr Samfylkingunni. Ekki ætla ég að velta því fyrir mér hvort umrædd sjálfhverfa átti þar hlut að máli eða hrifning hans á “hægrikratanum” Tony Blair sem mér finnst ómögulegt að líkja við jafnaðarmennsku.

Það var stofnaður “hægrigrænn” flokkur og enn fór Jakob Frímann í framboð og náði því nú að verma fyrsta sætið í Suðvesturkjördæmi fyrir Íslandshreyfinguna. Það dugði honum þó ekki því enn á ný var honum hafnað af kjósendum.

Skyndilega birtist Jakob Frímann á sjónarsviðinu á ný, í þetta sinn sem embættismaður borgarinnar án þess að hafa til þess stuðning borgarbúa, reyndar ekki frekar en sá blörraði sem réði hann, en sá hlaut einungis að hámarki 6527 atkvæði. Skelfing hvað þessi 6527 atkvæði eru búin að vera okkur dýr.

Það má svo velta því fyrir sér hversu mörg af þessum 6527 atkvæðum voru hugsuð til stuðnings Margréti Sverrisdóttur en ekki þeim blörraða.

Með þessum orðum ætla ég að ljúka vangaveltum mínum um þann blörraða þar til hann fremur nýtt klúður.

-----oOo-----

Svo fær Brynja frænka hamingjuóskir með hálfa tuginn, þótt ég geti ómögulega munað hvort hún er orðin hálfþrítug eða hálffertug.


0 ummæli:







Skrifa ummæli