laugardagur, maí 31, 2008

31. maí 2008 - Letingjar

Ég hefi verið að gæta tveggja fullorðinna fresskatta undanfarna daga á meðan eigendurnir skruppu til sólarlanda.

Annar þeirra er álíka duglegur og Garfield og kann best við sig sofandi með matardallinn við hliðina á sér. Þótt hann hafi verið settur út nokkra klukkutíma á dag nægir það ekki, því sökum letinnar þarf að bera hann út þegar kemur að útivistartíma, en hann er fljótur heim aftur þegar kallað er á hann.

Hinn kötturinn er enn furðulegri. Ekki er bara að hann hringar rófuna eins og íslenskur fjárhundur, heldur er hann svo mislyndur að hann snýr sér við og fer út aftur í fýlukasti þegar hann sér ekki eigendur sína. Ekki er það til að bæta úr að ég hefi gætt þess að hann valsi ekki um heimilið eins og kóngur í ríki sínu þegar ég hefi sett hann inn.

Eitt mega báðir kettirnir eiga. Þegar aðrir kettir í hverfinu ætla að ráðast á þá láta þeir sem ekkert sé og í versta falli ýta þeir hvæsandi köttum frá sér með annarri loppunni og geispa af leti.


0 ummæli:







Skrifa ummæli