fimmtudagur, maí 08, 2008

8. maí 2008 - Af fótboltaspili


Að undanförnu hefi ég verið svo upptekin af að skrifa um leiðinlegt lið í borginni að ég hefi gleymt að skrifa um eitthvað skemmtilegt. Frekar en að eyða orðum mínum í enn einn lúserinn í borginni sem var reyndar síðast í framboði í kraganum án mikils árangurs, en náði feitu embætti gegnum blörraða spillingu, ætla ég að skrifa um fótbolta.

Eins og aðdáendur mínir vita er ég einlægur aðdáandi tveggja liða í ensku knattspyrnunni, jafnvel heimsótt annað liðanna, Halifaxhrepp í Vestur-Jórvíkurskíri. Þrátt fyrir einlægan stuðning minn gekk veturinn illa fjárhagslega og fór svo á miðjum vetri að liðið lenti í greiðsluerfiðleikum og var því refsað með tíu stiga frádrætti. Þar með var Halifaxhreppur kominn í bullandi fallhættu í kvenfélagsdeildinni (5. deild). Að lokum fór samt svo að því rétt tókst að halda sér áfram í deildinni með einu stigi umfram næsta lið fyrir neðan sem féll niður í 6. deild.

Hitt uppáhaldsliðið er svo auðvitað United of Manchester, þetta snilldarlið sem var stofnað fyrir þremur árum þegar gamla móðurfélagið lenti í höndunum á einhverjum fjárglæframanni vestur í nýlendunum. Fóru þá nokkrir brennheitir stuðningsmenn í fýlu og stofnuðu nýtt samvinnufótboltafélag þar sem hver meðlimur er eitt atkvæði. Þeir hófu svo að spila í tíundu deild haustið 2005 og unnu hana með glæsibrag. Ári síðar var níunda deildin lögð að velli og nú bættist enn ein dollan í safnið með öðru sæti í áttundu deild og sigri í úrslitakeppni annars til fimmta sætis. Það er því áframhaldandi sigurganga þar sem lið sjöundu deildar bíða skjálfandi í hnjáliðunum og styttist nú verulega í að gamla móðurfélagið verði lagt að velli, ekki nema svona 7 ár.


0 ummæli:







Skrifa ummæli