laugardagur, maí 17, 2008

17. maí 2008 - Allt á afturfótunum? Ekki alveg!

Þótt ég hafi verið virk í Amnesty International í nokkur ár, hefi ég ekki verið virk í hópastarfi nema í rúmt ár, eða frá því starfshópur um mannréttindi LGBT einstaklinga sem kallar sig Verndarvættirnar tók til starfa. Auk mánaðarlegra funda þar sem hópnum er úthlutað verkefnum þar sem við sendum bréf til stjórnvalda hinna ýmsu landa þar sem réttindum LGBT hópa er ábótavant, vorum við með öflugan hóp í Gleðigöngunni í fyrra þar sem ég ók á undan fótgönguliðinu á flottum Ford pickup skreyttum blöðrum og stóreflis hnattlíkani.

Auk verkefna frá Amnesty höfum við einnig tekið að okkur verkefni á vegum IGLHRC sem starfar alþjóðlega að sömu markmiðum og Verndarvættirnar. Ef lesendur mínar vita ekki hvað IGLHRC er, er bara að gúggla á svarið.

Það hafði rignt yfir mig tölvupóstsendingum frá meðlimum Verndarvættanna. Fundurinn er klukkan 17.15 og hann verður haldinn niðri á Laugavegi. Ég skráði þetta vandlega í dagbókina mína með margra daga fyrirvara og þegar ég taldi fundartímann nálgast hélt ég að heiman bölvandi umferðinni á föstudagseftirmiðdegi. Eftir langa mæðu komst ég loks niður í miðbæ og fann öllum að óvörum stæði rétt við Fríkirkjuna. Þegar ég ætlaði að greiða stöðumælagjaldið uppgötvaði ég mér til hrellingar að ég hafði gleymt veskinu heima, krossaði mig í huganum enda Almættið nálægt og læddist þaðan upp á Laugaveg.

Talsverður fjöldi var á ferðinni og flestir töluðu útlensku. Ég slapp þó framhjá þeim öllum og alla leið upp á Laugaveg, fimm mínútum á eftir áætlun. Þar var enginn og fundurinn átti að vera löngu byrjaður. Ég hringdi í hópstjórann.
“Ha, fundur núna? Ég boðaði fund þann 23. maí klukkan 17.15.”

Ég fann hvernig teygðist á eyrunum. Ég flýtti mér til baka að Fríkirkjunni og að bílnum. Mér létti. Alltjent hafði Almættið bænheyrt mig því engin lapplísa hafði hengt stöðumælasekt á bílinn minn og ég komst heil heim.


0 ummæli:







Skrifa ummæli