föstudagur, maí 02, 2008

2. maí 2008 - Aðalsteinn Jónsson

Það var um sumarið 1996 sem ég flutti til Íslands eftir áralanga dvöl í Svíþjóð uppfull bjartsýni og taldi mig færa í flestan sjó eftir að hafa lokið erfiðleikum mínum í lífinu, óvitandi að þeir voru kannski rétt að byrja. Ekki fór þó allt eftir bókinni og fyrsta mánuðinn gerði ég lítið meira en að sækja um störf, naga á mér neglurnar og velta fyrir mér hvort ekki væri best að koma sér út aftur.

Þá var það sem útgerðarstjórinn hans Alla ríka hringdi og bað mig að kom austur á Eskifjörð til afleysninga. Ég var síðan í afleysningum á skipum Hraðfrystihúss Eskifjarðar (síðar Eskju) að nokkru leyti um sumarið og haustið og síðan öðru hverju næstu árin til ársins 2000 er ég hætti alfarið að leysa af á sjó. Miðað við hvað hafði gengið á í atvinnumálum mínum mánuðinn á undan, fer enginn að segja mér að Emil Thorarensen hafi ekki ráðfært sig við Aðalstein áður en hann hringdi í mig.

Eftir þetta þegar ég var á Eskifirði rakst ég oft á Aðalstein, oft á bryggjunni þegar hann fór morgunrúntinn eða var að fylgjast með skipunum að koma í land, en stundum á skrifstofunni sem og einu sinni á árshátíð fyrirtækisins. Þótt hann virkaði dálítið stífur á mig í upphafi fór ekkert á milli mála að hann mat vinnandi hendur meira en einhverjar kjaftasögur um mig og virtist um leið hafa lúmskt gaman af þeirri lífsreynslu sem ég hafði gengið í gegnum.

Eitt má þó vera ljóst. Hefði ég ekki verið kölluð austur á Eskifjörð þennan júlídag árið 1996, hefði ég sennilega farið aftur af landi brott dagana á eftir og ósennilegt að ég hefði komið til baka næstu árin á eftir.

Með þessum orðum vil ég votta fjölskyldu Aðalsteins Jónssonar samúðarkveðjur mínar.


0 ummæli:







Skrifa ummæli